Leita í fréttum mbl.is

Glæfraspil

image002.jpgÍ framhaldi af frétt mbl.is langar mig til að setja aftur inn pistil sem ég setti hér inn og tengja hann við fréttina, þar sem hann kemur inn á það sem fjallað er um í henni:

Það var fróðlegt að lesa þennan pistil eftir Nóbelsverðlaunahafann Paul Krugman, sem birtist í The New York Times 31. mars síðast liðinn (umfjöllun um hann sá ég í bloggi hippastelpunnar). Í henni reifar hann samsæriskenningu gegn Íslandi.

Mér finnst þessi samsæriskenning gegn Íslandi hreint ekki ótrúleg. Mig skortir einfaldlega þekkingu á alþjóðlegu fjármálaumhverfi og fjármálagjörningum til að giska á hverjir nákvæmlega myndu í rauninni hafa staðið að og hagnast á slíku samsæri, þó aðilar í Bretlandi og framkoma þeirra gagnvart Íslandi komi frekar upp í huga minn en annað.

Það sem segir í pistli Krugmans breytir samt sem áður ekki því að íslenska útrásin, að viðbættu andvaraleysi (eða hvað maður á að kalla það) eftilitsaðila kom íslensku þjóðfélagi í glæfralega stöðu gagnvart einmitt þess konar viðbrögðum.

Það þarf ekki að reikna með að allir hafi dáðst að framtakssemi og dirfsku blessuðu litlu og kláru víkinganna úr norðri. Slíkt er helber barnaskapur. Það mátti einmitt búast við og búa sig undir hörð viðbrögð og að brugguð yrðu ráð til að ná aftur til sín því sem "the bloody foreigners" hefðu verið álitnir að hafa sölsað undir sig á erlendu yfirráðasvæði. Vegna þeirrar þenslu og óstöðugleika, plús ofmetnaðarins sem allt þetta bévað brölt orsakaði í okkar litla þjóðfélagi vorum við auðvelt skotmark um leið og seðlabankastjóri (einn af þremur) setti fram vægast sagt óvarlegar yfirlýsingar í Kastljósþætti.

Hver vill frétta það í framhaldi af beinni útsendingu í sjónvarpi að skuldir sem hann taldi tryggt að yrðu greiddar að fullu verði það hreint ekki? Samlíkingin um fíl í postulínsbúð á fullkomlega við Davíð Oddsson þetta kvöld.

Ekki auðvelt verkefni fyrir fjármálaráðherra að sannfæra breska fjármálaráðherrann um hið gagnstæða eftir slíkar yfirlýsingar og ekki við því að búast að hann tæki það trúanlegt þegar svo misvísandi skilaboð bárust honum héðan. Það er ekki beint traustvekjandi að fjármálaráðherra okkar hringi í fjármálaráðherra Breta til að fullvissa hann um að Davíð Oddsson sé rugludallur sem ekkert mark sé takandi á. Diplómatar reyndu að bæta skaðann, en auðvitað var við ramman reip að draga þegar svo var komið. Sér í lagi í ljósi þess að þarna var komið málefni sem gaf forsætisráðherra Breta Gordon Brown, kjörið tækifæri til að gefa út harða yfirlýsingu og slá sér upp í í fjölmiðlum, sem kom sér vel þar sem hann stendur pólitískt á brauðfótum heima fyrir, eins og búið er að rekja hér margsinnis í umfjöllun fjölmiðla og bloggara. Brown ákvað að trúa einfaldlega því sem kom honum sjálfum best.

Enda hef ég aldrei heyrt að Bretar telji sig vera skuldbundna Íslendingum sem þjóð á einn eða annan veg. Frekar hið gagnstæða. Eins og sjá má á fréttapistli mbl.is er til dæmis ennþá, eftir öll þessi ár, grunnt á því góða gagnvart Íslandi í breskum fiskibæjum og auðvelt að hræra upp í þeim hluta almennings sem sem þar býr og telur sig eiga harma að gjalda gagnvart víkingaþjóðinni að norðan (Bretar eru reyndar sjálfir gömul víkingaþjóð) með yfirlýsingum eins og þeim sem Brown kom með í BBC. Í ljósi þessa ættum við ekki að þurfa að vera undrandi á viðbrögðum margra þeirra nú.

Erum við sjálf, Íslendingar, mjög fljót að gleyma, höfum við ekki öll sem komin er yfir miðjan aldur lært um "bölvaðan danskinn, rotið mél og brennivín" í því námsefni sem borið var á borð fyrir okkur þar sem þá hét barnaskóli? (og mér fannst ömurlegt, þar sem amma mín var dönsk).Var þó snöggtum lengra um liðið frá því tímabili í íslenskri sögu sem heita átti að verið var að kenna okkur um, heldur en liðið er frá þorskastríðinu við Breta. Ekki hef ég á takteinum skýringarnar á því af hverju henta þótti að ala á úlfúð í æsku landsins gagnvart grannþjóð okkar og fyrrum yfirboðara. Kannski það hafi átt að efla sjálfstæðiskennd okkar? Ef svo er hefur sú tilraun gjörsamlega mistekist, líkt lofræður forsetans okkar um útrásina dýrlegu, sem allir sjá nú að áttu ekki við rök að styðjast.

Nei, það er komið berlega á daginn að það eru allt aðrar áherslur sem við verðum að leggja rækt við í samskiptum okkar við umheiminn. Mætti þar til nefna hugsjónir um frið og verndun náttúrunnar, menningu og vinabönd, þær áherslur sem Vigdís var óþreytandi að tala um.

Ennþá fáránlegri og óskiljanlegri en yfirlýsingar Davíðs var sú framkvæmd Brown forsætisráherra að bregðast við með þeim með því að beita hryðjuverkalögum. Nema það hafi verið ætlunin að koma Íslandi algjörlega á kné. Sem rímar svona líka prýðilega við samsæri í fjármálaheiminum.

Það er sorglegra en tárum taki að horfa aftur á þetta myndskeið úr Kastljósinu nú þegar holskefla hefur riðið yfir og fjármálakerfið hér á landi er rjúkandi rúst og róinn er lífróður að bjarga því sem bjargað verður til að atvinnulífið stöðvist ekki, margir hafa misst allan sparnað sinn, þjóðin sér fram á að verða skuldsett upp fyrir haus næstu árin og jafnvel að missa sjálfsforræði sitt í landsmálum, þveröfugt við glaðbeitt áform bankastjórans í viðtalinu. Það er dýrt gjald að greiða fyrir afglöp tiltölulega lítils hóps manna.

Orðræða Davíðs í þættinum finnst mér satt að segja álíka veruleikafirrt og Jóns Ásgeirs í Silfri Egils. Manni verður það fyrir að hugsa hví í ósköpunum hann lét ekki gott heita í landsmálunum eftir áralanga setu á stóli forsætisráðherra og það sem margir álitu afar glæstan feril.

Það er vert að minnast þess að Stóra-Bretland var eitt sinn heimsveldi. Gleymum ekki að tengsl okkar við Bretland eru allt annars eðlis en við fyrrum herraþjóð okkar í Danaveldi, þar sem íslenska útrásin bar að vísu einnig hart niður og særði stolt margra. Breska ljónið hefur, þó það sé komið af fótum fram, líklega aldrei gleymt því að smáríkið Ísland sigraði það einu sinni í stríði án þess að hafa yfir eiginlegum her að ráða.

Kenning Krugmans er mjög lógísk þegar maður leiðir hugann að testósteróni, mannlegu eðli og því að enn er ekki svo langt í frummanninn í mannkyninu. 


mbl.is „Makleg málagjöld"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ég er pínu svekkt að sjá að 126 manns hafa litið inn á síðuna í dag, en enginn virðist hafa nennt að leggja á sig að lesa það sem ég hef skrifað, í það minnsta hef ég ekki fengið eitt einasta komment við færsluna.

Svona er lífið - c´est la vie.

Greta Björg Úlfsdóttir, 15.10.2008 kl. 15:49

2 identicon

Ég upphrópaði í miðjum lestri:   Þettað er stórgáfug og yndisleg kona. Við eigum nefninlega von ef það eru fleirri en við sem að eru svona.

Jónas Bragi (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 01:25

3 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ég þakka hólið.

Gaman að vita að í það minnsta einn hefur lesið færsluna.

Greta Björg Úlfsdóttir, 16.10.2008 kl. 06:59

4 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Góður pistill.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 16.10.2008 kl. 12:08

5 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Takk.

Greta Björg Úlfsdóttir, 16.10.2008 kl. 12:51

6 identicon

Hágæðaskrif hér á ferð! Takk fyrir mig.

Kristján Guðmundsson (IP-tala skráð) 17.10.2008 kl. 06:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Greta Björg Úlfsdóttir
Greta Björg Úlfsdóttir

...hvað er bak við yztu sjónarrönd?

gretaulfs@gmail.com 

                                                                                                                                                           Injustice anywhere is a threat to justice everywhere. We are caught in an inescapable network of mutuality, tied in a single garment of destiny. Whatever affects one directly, affects all indirectly.

~ Martin Luther King, Jr.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.