Leita í fréttum mbl.is

Fúlustu jólagjafirnar

Dagblaðið DV er í dag með pistil þar sem fólk segir frá skrítnustu jólagjöfum sem það hefur fengið. Þar kennir ýmissa grasa.

Ég man reyndar ekki eftir að hafa fengið jólagjafir sem mér þóttu skrítnar, en ég man eftir tveimur sem ég varð frekar fúl yfir.

audur_a_heidi_ingibjorg.jpgFyrra skiptið var þegar ég fékk pakkann frá móðurömmu minni jólin 1962, þegar ég var 11 ára, eða þar um bil. Ég fann strax að pakkinn var harður en ekki mjúkur eins og vanalega þegar ég fékk fallega, handprjónaða vettlinga frá ömmu í jólagjöf. Þegar ég opnaði pakkann komst ég að raun um að í honum var bók, sem yfirleitt var kærkomin jólagjöf, en bókin reyndist vera ástarsaga eftir Ingibjörgu Sigurðardóttur (sem skrifaði væmnar ástarsögur eftir formúlunni læknir-hjúkka, sýslumannssonur-vinnukona, mig minnir frekar að þessi bók hafi verið um það síðarnefnda), sennilega keypt í kaupfélaginu í Haganesvík í Fljótum. Ég kvartaði strax við mömmu undan því að ég hefði ekki fengið hina hefðbundnu vettlinga, - mamma sagði eitthvað á þá leið að ég yrði að gá að því hvað amma ætti mörg barnabörn, konan sem átti 11 uppkomin börn (það 12. og yngsta dó vöggudauða), flest gift og komin með nokkur börn, henni hefði sennilega ekki unnist tími til að prjóna vettlinga handa þeim öllum.

Ég pældi víst í gegnum þessa bók, en fannst ekki mikið til koma, sem vonlegt var með aðdáanda Kapitólu og Ævintýrabókanna eftir Enid Blyton, Kapitólu las ég 6 sinnum og Ævintýrafjallið, sem var eina bókin í flokknum sem til var heima, jafn oft, hinar bækurnar í seríunni þurfti ég að fá lánaðar. Eins hefði Theresa Charles líka átt upp á pallborðið, ég man að ég marglas með andakt bók eftir hana sem hét "Sárt er að elska", ég held ég muni söguþráðinn enn í meginatriðum.

oven_proof.jpg<- Skálarnar mínar voru ekki með munstri.

Hin gjöfin var jólagjöf númer 2 frá mínum fyrrverandi, jólin áður hafði hann gefið mér slopp sem var fínasta gjöf. Önnur jólagjöfin sem ég fékk frá þessum eina manni sem ég hef gengið upp að altarinu með (reyndar síðar) voru tvær eldfastar skálar. Ég hafði satt að segja átt von á einhverju rómantískara frá kærastanum, sem þá var. Þegar ég spurði hann að því hvernig í ósköpunum honum hefði dottið í hug að mig langaði í eitthvað sem tilheyrði eldhússtörfum í jólagjöf, þar sem við vorum ekki einu sinni byrjuð að búa og þar af leiðandi ekkert farið að reyna á snilld mína við slíkt (reyndar hefur hún aldrei getað talist mikil), þá svaraði að hann að hann hefði ekkert vitað hvað hann ætti að gefa mér, og mamma hans hefði stungið upp á þessum skálum sem hún hefði séð í K.Þ. og væru upplagðar handa upprennandi húsmóður.

romantic-christmas-heart.jpgÆ, mitt rómantíska hjarta átti dálítið bágt að taka við þessari vel meintu og hagkvæmu gjöf!

En líklega er þó skárra að taka slíka gjöf upp í faðmi fjölskyldunnar en eitt af hjálpartækjum ástarlífsins, sem ein þeirra sem segir frá í DV segir hafa komið upp úr pakkanum frá kærastanum við þær aðstæður - ég veit að ég hefði orði jafn rauð í framan og eldföstu skálarnar ef þetta hefði komið fyrir mig. Þó auðvitað megi einnig líta á hjálpartæki ástarlífsins sem praktískar gjafir, á sinn hátt...Grin


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Ragna Alexandersdóttir

þekki þetta vel.

Ég fékk pakka frá útlöndum þegar ég var lítil og ekkert smá spennt að fá pakka frá útlöndum.Þegar verið vað að deila pökkonum út beið ég spennt eftir pakkanum frá útlöndum og loks er ég fékk pakkann og opnaði pakkann var það  Dönsk spælpilsa

Anna Ragna Alexandersdóttir, 6.12.2008 kl. 16:44

2 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Æ, það hef ég nú ekki fengið, en koddaver frá föðurömmu minni, og silfurteskeiðar, eina í einu, sem mér fannst alls ekki slæmt.

Greta Björg Úlfsdóttir, 6.12.2008 kl. 20:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Greta Björg Úlfsdóttir
Greta Björg Úlfsdóttir

...hvað er bak við yztu sjónarrönd?

gretaulfs@gmail.com 

                                                                                                                                                           Injustice anywhere is a threat to justice everywhere. We are caught in an inescapable network of mutuality, tied in a single garment of destiny. Whatever affects one directly, affects all indirectly.

~ Martin Luther King, Jr.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband