Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Tilvitnun dagsins

Quote of the Day
Things do not happen.Things are made to happen.
John F. Kennedy


Ég sá ekki betur...

martro.png...en að það kæmi hik á Geir H. Haarde rétt  í þeim töluðum  orðum  í ræðustóli á Alþingi í dag að ekki beri að kjósa utan hefðbundins kjörtímabils "nema eitthvað sérstakt komi upp á".

Hefur ekki "eitthvað sérstakt" komið upp á í íslensku þjóðfélagi?

Var bankahrunið ekki "eitthvað sérstakt"?

Var það bara vondur draumur?

Er allt sem á eftir fylgdi einungis martröð heillar þjóðar?

Hvers vegna voru sett neyðarlög  fyrir tæplega tveimur mánuðum síðan? 

Hafði ekki "eitthvað sérstakt" komið upp á, "eitthvað sérstakt" sem gaf forsætisráðherra ástæðu til að enda ávarp sitt til þjóðarinnar, í beinni útsendingu fjölmiðla, með orðunum "Guð blessi Ísland" ?

Ef þetta var bara vondur draumur þá stendur hann enn.

Vonandi vakna einhverjir bráðum og gera "eitthvað sérstakt".

Myndin með færslunni er héðan:  www.gutenberg.org/files/11571/11571-h/11571-h.htm


Sirrý Geirs

sirry_geirs.jpgÉg var ekki ánægð með viðtalið sem Eva María tók við Sirrý Geirs, fegurðardrottningu Íslands árið 1959.  Eva var alltof aðgangshörð, hraðmælt og hvassyrt í þessu viðtali, hraunaði nánast yfir fegurðardrottninguna fyrrverandi (sem enn er glæsileg kona), sýndi henni virðingarleysi, ágang og ónærgætni, talaði niður til hennar og lá við að hún gerði grín að henni á köflum, fannst mér. Kynslóðabilið blasti við.

Sirrý er af þeirri kynslóð kvenna sem voru og eru, hvað sem aldri líður, Dömur með stóru d-i, Eva María er hress og kúl - þetta tvennt féll ekki saman svo að úr því yrði bitastætt viðtal. Eva María skautaði á léttum nótum og með hraða eldingar yfir óvenjulega og viðburðaríka ævi og feril viðmælandans, setti hann oftar en einu sinni í varnarstöðu með beinskeyttum spurningum sínum og athugasemdum og náði þess vegna engri stemningu eða trúnaði. Viðtalið minnti á stundum meira á einvígi með orðum, líkt og rætt væri við umdeildan stjórnmálamann, en það sem kynnt hefur verið í dagskrá sem notalegar samræður og svipmyndir af áhugaverðu fólki á sunnudagskvöldum. - Kannski hefur Eva María smitast af þeim æsingi og óróa sem nú ríkir í þjóðfélaginu og haldið að það væri hlutverk sitt að þjarma að viðmælandanum um hreinskilin svör við þeim léttvægu spurningum sem hún lagði fyrir hann? Æsingur hennar og ákafi gæti bent til þess.

Ég held að með annarri og afslappaðri aðferð hefði þetta getað orðið mjög fróðlegt viðtal um það hvernig heimurinn leit út þegar Sirrý lifði sína blómadaga í Bandaríkjunum og Austurlöndum fjær, séður með augum fegurðardrottningarinnar. Ég hefði viljað fá að heyra meiri lýsingar á því hvernig lífi hún lifði, hverja hún umgekkst og svo framvegis. Eva gaf viðmælandanum ekki færi á að svara nema mjög yfirborðslegum spurningum, sem hún virtist haf unnið upp úr gömlum kjaftasögum, rétt tæpti á málum og gaf viðmælandanum lítið ráðrúm til að svara, með óðagoti og framítökum. Sérstakega þar sem það kom fram í viðtalinu að Sirrý þjáist af astma og á þess vegna ef til vill ekki gott með að grípa orðin á lofti og henda þeim til baka í snarhasti. Mér fannst það gott hjá Sirrý þegar hún sagði við Evu, framarlega í viðtalinu: "Já, maður rölti auðvitað ekki um Vatnsmýrina, - það var svið...". Eins var það flott hjá henni þegar hún, fyrrum enskukennari, rak Evu Maríu á gat með orði sem hin síðarnefnda skildi ekki, það er að segja enska orðinu "nepotism", sem svar við nærgöngulu gaspri hennar um meint lauslæti leikkvenna, Sirrý það með taldri, virtist vera, í Hollywood.

Eva María virðist ekki hafa gefið Sirrý færi á að koma með gamlar myndir sem hún á í sínum fórum frá ferli sínum sem fegurðardrottning og sjónvarps- og kvikmyndaleikkona, sem hún sagðist eiga miklu betri í sínum fórum en þær sem sýndar voru í þættinum, máðar og óskýrar margar hverjar. Það var samt gaman að sjá brot úr þeim myndum sem hún hefur leikið í, þó Sirrý væri reyndar ekki fullkomlega sátt við valið á broti úr þeirri mynd þar sem hún sagðist hafa fengið tækifæri til að sýna raunverulegan leik. Hún fékk aldrei nein stór hlutverk, en það var (og er enn) samt óvenjulegt að íslensk kona hafi starfað í kvikmyndum vestanhafs, þó dæmin séu fleiri síðar (Anna Björns, María Ellingsen, Anita Briem, allar ljóskur eins og Sirrý!).

Eini ljósi punkturinn fannst mér þegar Eva María hvatti Sirrý til að svara þeim ljóta rógi sem dreift var um hana hér á landi og skemmdi fyrir henni eftir að hún flutti heim og fór að starfa við kennslu, auk þess sem hann hefur augljóslega sært hana djúpt. Mér fannst ógleymanlegt að heyra þessa fallegu, sjötugu konu segja í sjónvarpi allra landsmanna, þegar Eva María lagði fast að henni að svara fyrir sig og verja sig eftir öll þessi ár: "Ég stundaði aldrei vændi, - ég veit ekki hvað það er."

Í þessari Morgunblaðsgrein sem ég fann á netinu, þar sem aðeins er fjallað um Sirrý að hluta til, meðal annarra leikara, koma fram mun meiri upplýsingar um viðburðaríka ævi hennar en í öllum viðtalsþætti gærkvöldisins. Þar sést skýrt að af nógu efni var að taka fyrir þáttastjórnandann til að gera viðtalið áhugaverðara en raunin varð. Þetta var illa unnið viðtal af hálfu stjórnandans, og bar þess öll merki að hafa verið unnið í flaustri. Mér finnst, sem aðdáanda Sirrýar í barnæsku og einnig sem áhorfandi ríkisfjölmiðilsins, að fegurðardrottningin fyrrverandi hefði átt betra skilið en þessi vinnubrögð, fyrst hún á annað borð gaf kost á því að koma í viðtal.

Eva María, svona á ekki að taka viðtöl!

Á þessari síðu má lesa lauslega samantekt á ferli Sirrýar og eiginmanns hennar, þaðan er myndin, þar sem Sirrý auglýsir Kent-sígarettur í BNA árið 1961-62, einnig tekin: : old.sksiglo.is/page.php?25


Barack Obama er ekki afkomandi bandarískra þræla

barack_obama_sr_jr.jpgMér datt í hug að skrifa þessa færslu þegar ég hlustaði á ræðu Hjartar Magna Jóhannssonar, fríkirkjuprests, í útvarpsmessu í morgun, þar sem hann talaði um Barack Obama, forsetaefni Bandaríkjamanna, sem afkomanda þræla, og átti þá auðheyrilega við þræla sem seldir voru mansali til Bandaríkjanna fyrr á tímum.

Þetta er misskilningur sem mig langar til að leiðrétta.

Barack Obama yngri (junior) er ekki afkomandi bandarískra þræla. Faðir hans, Barack Obama eldri (senior) var Kenýamaður, af kynflokknum Luo, sem að vísu fæddist áður en landið hlaut sjálfstæði, en hlýtur þó að teljast að hafa verið borinn frjáls. Má vera að frændur hans hafi fyrr á öldum verið leiddir í þrældóm vestur um haf. Kann að vera að einhverjir forfeðra hans hafi einhverntíma verið þrælar höfðingja á þeim slóðum sem nú kallast Kenýa, eða jafnvel víðar í Afríku. Með sömu rökum mætti kalla alla Íslendinga afkomendur þræla.

Það má vel vera að Barack Obama samsami sig afkomendum bandarískra þræla í baráttu þeirra fyrir mannréttindum og að þeir séu stór hluti áhangenda hans, - en hann er ekki einn þeirra.

Það virðist einnig oft gleymast í umtalinu um Obama að hann er ekki alfarið svartur - hann er af blönduðum kynþáttum, þar sem móðir hans er hvít - þó svo vissulega eigi skilgreiningin afrísk-amerískur fullkomlega við hann, sakir uppruna hans.

Rétt skal vera rétt og til haga haldið.

 


Maístjarnan

Ó hve létt er þitt skóhljóð
ó hve leingi ég beið þín,
það er vorhret á glugga,
napur vindur sem hvín,
en ég veit eina stjörnu,
eina stjörnu sem skín,
og nú loks ertu komin,
þú ert komin til mín.

Það eru erfiðir tímar,
það er atvinnuþref,
ég hef ekkert að bjóða,
ekki ögn sem ég gef,
nema von mína og líf mitt
hvort ég vaki eða sef,
þetta eitt sem þú gafst mér
það er alt sem ég hef.

En í kvöld lýkur vetri
sérhvers vinnandi manns,
og á morgun skín maísól,
það er maísólin hans,
það er maísólin okkar,
okkar einíngarbands,
fyrir þér ber ég fána
þessa framtíðarlands.

Jón Ásgeirsson/Halldór K. Laxness

Kosningar í maí !


Ég er dálítið smeyk...

gray_fox.jpg...um að Björn, sá gamli refur,  hafi rétt fyrir sér í þessu.

Það var rakið í kvöldfréttum Rúv-sjónvarp að engin þeirra tillaga um vantraust sem hefur verið lögð fyrir þingið í starfstíð þess hefur gengið í gegn. 

En kannski verður nú brotið blað í sögu þjóðarinnar?

Í þessu sem mörgu öðru.

Það má alltaf halda í vonina.


mbl.is Telur vantrauststillögu efla samstarf ríkisstjórnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantrauststillagan

100_0600Viðskiptablaðið segir frá þessu.

Ég held að það væri of fljótt að hafa kosningar um miðjan febrúar. Það er of lítill tími til undirbúnings, ef tekið er mið af því að nú nálgast desembermánuður og stórhátíðir = margir frídagar og minni virkni. Þar tapast tími.

Ég held að það væri nær lagi að áætla kosningar í mars - apríl. Vonandi fæst sá frestur sem Valgerður talar um, ef tillagan nær fram að ganga.


mbl.is Vantrauststillaga komin fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Væntumþykja?

britney_madonna_bm_562948g.jpgÍ hvaða heimi lifa austurrískir græningjar?

Ef ég hefði átt dóttur hugsa ég að ég hefði ekki viljað að hún væri sí og æ í sleik við skólasystur sínar á skólalóðinni þegar hún var 14 ára. Reyndar ekki við skólabræður sína heldur. Mér finnst einfaldlega 14 ára of snemmt til að byrja kynlíf, hvað sem öllum "læknisleikjum" líður.

Betra að bíða aðeins.

Reyndar grunar mig að hjá stelpunum hafi þetta verið leikur, til þess gerður að ögra og vekja eftirtekt, frekar en að skólasysturnar hafi raunverulega laðast kynferðislega hver að annarri.

Bendi á frásögn í skáldsögunni "Konan og apinn" eftir Danann Peter Høeg, þar sem hann lýsir viðlíka uppákomu í enskum kvennaskóla sem aðalsöguhetjan gengur í á unglingsárum.

<- Þessar eru eldri en 14 ára og ekki á skólalóð. Önnur mynd fyrir Baldvin.


mbl.is Allt kossaflens bannað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skítur

oh_shit-759720_732769.jpgEr það vegna þess hversu stutt er síðan stór hluti þjóðarinnar gekk örna sinna í fjósflóra að mörgum er svo gjarnt að klifa á orðinu skítur þegar þeir býsnast yfir ráðdeildarleysinu í forystu þjóðarbúsins?

Ég segi fyrir mig að ég er fæ klígju af að lesa pistla þar sem sífellt er klifað á þessu orði í ýmsum útgáfum: Stjórnvöld skitu upp á bak, skitu niður eftir öllu; það er skítalykt af málum; og fólk sem er ekki sammála þeim sem setja fram hinar og þessar skoðanir eru gjarnan vændir um að vera skítkastarar.

Núverandi þjóðhöfðingi landsins lét sig  meira að segja hafa það á sínum tíma, fyrir ekkert svo mjög mörgum árum síðan, að tala um skítlegt eðli manns úr ræðustóli á Alþingi - í stað þess einfaldlega að segja manninn illa innrættan. - Líklega vissi hann sem var að fyrra orðalagið myndi vekja meiri eftirtekt og jafnvel hrifningu sumra landa hans.

Á hvaða plani eru Íslendingar?

Er nema von að oft náist ekki mikill árangur við að ræða málin svo mark sé tekið á meðan hugsunarháttur og orðfæri fólks er enn í flórnum, þó svo flestir búi nú í húsum af mun veglegri að gerð en þekktust fyrrum ?!

Þó Búkollu blessaðri séu auðvitað slíkar samlíkingar nærtækar, þegar tekið er tillit til hefðbundinnar búsetu hennar...


Steingrímur segir frá leynilegum áformum sínum um leynifund leynilegrar sendinefndar

baby_sour_puss_3_small1.jpgÞað er akkúrat svona málflutningur frá formanninum sem hefur gert það að verkum að ég hef ekki treyst mér til að kjósa Vinstir Græna hingað til.

Þetta er ekki rétti tíminn til að greina frá leynilegum áformum sem urðu að engu, þegar allt logar í ásökunum um leynimakk hér og leynimakk þar í þjóðfélaginu.

Setningin sem eftir Steingrími er höfð er innan gæsalappa, svo ég geri ráð fyrir að þetta sé bein tilvitnun mbl.is  í ræðu hans. 

Samkvæmt fréttinni ætlaði formaður VG sjálfum sér, þingmanni úr stjórnarandstöðu, formennsku í tveggja manna nefnd, þar sem Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu og aldavinur DO, og einn Seðlabankastjóranna, þó ekki Davíð, áttu að vera með í för sem eins konar skósveinar hans. Ef áformin hefðu gengið eftir og lánið hefði fengist fyrir milligöngu formannsins hefði hann síðan slegið sjálfan sig til riddara fyrir að hafa bjargað þjóðinni á ögurstundu: Það var ég sem útvegaði lánið frá Norðmönnum!

Að Steingrími, sem maður skyldi halda að sé ekki öllu skyni skroppinn, skuli detta önnur eins vitleysa í hug og þetta! - Og að bera þetta í þokkabót á borð fyrir almenning eftir á (þó ekki að hyggja - eins og nú er svo vinsælt!), eins og krakki sem klagar í mömmu sína (kjósendur).

Engin furða að Geir Haarde skyldi afþakka "gott" boð!

Svona tal ber vott um pólitískt taktleysi, drottnunargirni, fýlugang og þvermóðsku sem vekur ekki með manni traust á því að Steingrímur gæti orðið hæfur forsætisráðherra.

Því er nú verr og miður.

Hann gæti hins vegar orðið þokkalegur landbúnaðarráðherra.


mbl.is Vildi leynilega sendinefnd til Noregs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Greta Björg Úlfsdóttir
Greta Björg Úlfsdóttir

...hvað er bak við yztu sjónarrönd?

gretaulfs@gmail.com 

                                                                                                                                                           Injustice anywhere is a threat to justice everywhere. We are caught in an inescapable network of mutuality, tied in a single garment of destiny. Whatever affects one directly, affects all indirectly.

~ Martin Luther King, Jr.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband