Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Danskir múslimar sameinast á mót Íslamska Trúfélaginu

Íslamska Trúfélagið (Islamsk Trossamfund) sætir nú harðri gagnrýni á meðal margra múslimskra samtaka í Danmörku. Trúfélagið leyfir sér að tala fyrir hönd allra múslima, segja þau. 

Íslamski söfnuðurinn í norðvestur hluta Kaupmannahafnar hefur í áratug látið í sér heyra sem rödd múslima í samfélagsumræðunni í Danmörku. En nú er það á enda. Í fyrsta lagi eru samtökin ekki samstiga meirihluta múslima í landinu - og í öðru lagi er það mjög gagnrýnivert að trúfélagið er tilleiðanlegt við hin öfgafullu og ólýðræðislegu samtök Hizb ut-Tahrir. Þannig hljóðar gagnrýnin. im2th1

Zubair Butt Hussain, formaður regnhlífarsamtaka danskra múslima, Muslimernes Fællesråd, sem sameinar 13 stór félög, hafði í gær þetta um málið að segja:

"Muslimernes Fællesråd telur ljóst að umræðan seinustu daga hafi ekki verið út frá sjónarmiðum sem eru einkennandi fyrir danska múslima."

Skoðun Hussains er sú að Íslamska Trúfélagið gefi út eins konar falska vörulýsingu.

"Nafnið Íslamska Trúfélagið er í þessu sambandi óheppilegt nafn á félagi; það á ekki rétt á sér eins og til dæmis nafn Mosaiska Trúfélagsins, þar sem það talar ekki fyrir hönd allra danskra múslima. Muslimernes Fællesråd hefur, með sína tæplega 40.000 meðlimi, ekki átt fulltrúa í umræðunni upp á síðkastið. Við förum fram á margbreytilegri mynd af dönskum múslimum, svo að einn einstakur hópur fái ekki leyfi til að taka sér einkarétt á að gefa út yfirlýsingar," segir Zubair Butt Hussain. 

Í elstu mosku Danmerkur, Nusrat Djahan-Moskunni i Hvidovre, tekur imaminn, hinn pakistanski Naimatullah Basharat, skýra afstöðu á móti því að ein moska tali fyrir hönd allra múslima.

"Það eru svo margs konar múslimar í Danmörku. Við höfum okkar eigin skoðanir og höfum engan áhuga á því að einhverjir taki að sér að tala fyrir hönd okkar. Stundum erum við ósammála Íslamska Trúfélaginu. Allir múslimar eru sammála um að teikningarnar af spámanninum eru sorglegar. En þegar að því kemur að bregðast við þeim - þá erum við mjög ósammála."

Úrdráttur úr grein í Berlingske Tidende 

Þetta eru þrjú stærstu samtök múslima í Danmörku, samkvæmt bloggi Helen Latifi:

Muslimernes Fællesråd: 40.000

Dansk Muslimsk Union: 25.000

Islamisk Trossamfund: 15.000

Myndin sem fylgir færslunni er fengin að láni af heimasíðu MF . Hún er tekin af Ahmed Krausen.


Ríkislögmaður kannar Hizb ut-Tahrir í Danmörku

 bilde

 

 Meirihluti danska þingsins styður tillögu um að samtök Íslamista í Danmörku, Hizb ut-Tahrir verði leyst upp, takist ríkislögmanni að finna því lagalega stoð. Dómsmálaráðherra hefur þrýst á að samtökin verði rannsökuð. 

Ríkislögmaður hefur áður rannsakað Hizb ut-Tahrir og fann þá ekkert sem réttlætt gat bann. En formaður samtakanna, Fadi Abullatifs, fékk fangelsisdóm, eftir þessi skilaboð voru rakin til hans: "Útrýmið þjóðarleiðtogum ykkar, ef þeir eru fyrir ykkur."

Þann dóm telur dómsmálaráðherrann, Lene Espersen (K), kalla á rannsókn á því hvað fram fer innan samtakanna. 

Ef ríkislögmanni tekst að finna lögfræðilegan grundvöll fyri því að leysa samtökin upp, mun það gerast með heimild í ákvæði dönsku stjórnarskrárinnar (Grundloven) um félagastarfsemi, sem bannar félögum að "starfa með ofbeldi". Samtökin yrðu þá leyst upp fyrir dómstólunum. 

Lagalegt bann er allt annað mál að sögn dómsmálaráðherrans. 

"Við getum ekki byrjað að banna pólitískar hreyfingar, af því að þær eru á annarri skoðun en við. Þá notum við sömu aðferðir og lönd án tjáningarfrelsis. Og það megum við alls ekki," segir hún.

Að sögn blaðafulltrúa ríkislögmanns hefur ekki verið tímasett hvenær lögfræðingarnir verði búnir að meta hvort fyrir liggi  nægar ástæður til að leysa Hizb ut-Tahrir upp. Dómsmálaráðherra reiknar með að svara verði að vænta eftir tvo mánuði.

 Úrdráttur úr grein í Berlingske Tidende

Myndin hér að ofan er frá fundi sem Hizb ut-Tahrir hélt síðast liðið sumar  í Nørrebrohallen, sem imam Íslamska Trúfélagins í moskunni á Dothehavevej, Mostafa Chendid, tók þátt í, en einnig má á myndinni sjá formann samtakanna,  Fadi Abdullatif, i miðju.  Ljósmynd: Morten Juhl


Ungur sláttumaður

sláttumaður

 

 

Þessa mynd tók pabbi af móðurbróður mínum norður í Fljótum í Skagafirði rétt fyrir miðja síðustu öld. Það er óhætt að segja að líf barna hér á landi hefur breyst mikið síðan hún var tekin.

Myndin er svona óskýr vegna þess að hún er skönnuð inn eftir ljósmynd sem er u.þ.b. 2 cm á kant, filman er glötuð.


Orsökin var...???

Editor-cartoonÉg spyr mig að því eftir lestur þessarar fréttar af hverju ekkert er fjallað um orsakir þess að dyr flugvélarinnar opnuðust? Mér finnst fjallað um þetta eins og þetta sé óheppilegt atvik eða slys, sem hafi orðið nánast eins og fyrir ófyrirsjáanlega duttlunga einhverra náttúruafla, en ekki vegna tæknigalla eða þess að búnaður hafi gefið sig.

Alltof oft finnst mér fréttaskrifarar Morgunblaðsins alls ekki standa sig. 


mbl.is Flaug með opnar dyr til Hornafjarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Léttlestir

freezing1Eitt þeirra atriða, auk annarra umhverfivænna, sem ég sé sem stóran kost við það að fá léttlestarkerfi (metro) hér í Reykjavík, fram yfir að nota strætó, er sá að þá myndi maður sleppa við að norpa skjálfandi á biðstöðvum og bíða eftir vagni. Maður myndi fara á neðanjarðarstoppistöð, jafnvel akandi á bílnum sínum og leggja honum yfir daginn við stöðina, eins og margir gera í úthverfum erlendis, og bíða svo inni í hlýju og notalegheitum! Smile

Að eiga kost á þessu tel ég að yrði, miðað við það veðurfar sem við búum við hér á landi, mjög hvetjandi þáttur í átt til þess að menn myndu nýta sér almenningssamgöngur meira en gert er í dag, auk þess ávinnings að það myndi gera fólki mögulegt að spara útgjöld til bensínkaupa, og jafnvel gera það ónauðsynlegt að hafa marga bíla á einu heimili, sem hlýtur að leiða til umtalsverðs sparnaðar. Með þessu móti sleppur fólk líka við stressið í umferðinni og leit að bílastæðum, sér í lagi í miðborginni, sem gæti í framhaldinu leitt til afslappaðra þjóðfélags SleepingInLove. Ekki veitir nú af.

Miðað við hvað við framleiðum mikið af ódýru rafmagni hér á Íslandi er ég sannfærð um að þessi framkvæmd er mjög hagkvæm lausn í samgöngumálum okkar borgarbúa til framtíðar litið og þegar heildarmyndin er skoðuð, miðað við það sem nú er, þegar umferðarþungi og útblástur bifreiða er orðið vandamál í borginni. Að grafa stokka fyrir lestarkerfi undir borgina ætti heldur ekki að vera verkefni sem væri okkur ofviða, fyrst menn hafa látið sér detta í hug í fullri alvöru að grafa göng út í Vestmannaeyjar. 

Gott mál! Joyful


Pólitískt sjónarspil í Danmörku

2002-11-25 Veiled women seen as bomb threats 510

Undanfarna daga höfum við orðið áhorfendur að vel sviðsettu leikriti hægri afla í danskri pólitík. Tímasetning þessa leikrits var hárrétt valin með tilliti til þess óróleika og rósta sem staðið höfðu í nokkurn tíma, í vissum hverfum Kaupmannahafnar, og fylgdu í kjölfarið af óánægju hóps ungs fólks vegna hertra aðgerða lögreglu gegn glæpum. Við þær aðgerðir, sem felast í reglubundinni vopna- og fíkniefnaleit, töldu ungir menn af erlendu bergi brotnir framkomu lögreglunnar gagnvart sér við framkvæmd hennar vera niðurlægjandi.

Ég tel óhætt að fullyrða að hægri öflin hafi í ljósi þeirra atburða er fyrr greinir séð sér leik á borði að búa til strengjabrúður úr öfgafullum múslimum í Danmörku, til að setja á svið leikrit í þágu eigin málstaðar, þar sem þeir voru í aðalhlutverkunum, en óeirðirnar á undangengnum vikum mynduðu vel viðeigandi bakgrunn, sem síðan lýstist enn frekar upp í ljósi eldhafsins sem frumsýningin á Sankt Hans torgi magnaði upp. Það að  nokkur vafi virðist leika á því að danska lögreglan hafi í reynd haft næg sönnunargögn í höndum til þess að réttlæta handtöku tveggja Túnismanna sem nú sitja í varðhaldi í fangelsi í Kaupmannahöfn, vegna ásakan um að þeir hafi ætlað að myrða teiknara einnar af dönsku skopmyndunum, og til þess að hægt sé að ákæra þá, virðist mér renna stoðum undir þetta.

Túnismennirnir voru handteknir, að því er virðist, án þess að fyrir lægju neinar sannanir fyrir því að þeir hafi ráðgert að myrða teiknarann, að minnsta kosti hefur lögmaður þeirra ekki hingað til fengið að sjá nein gögn sem að málinu lúta. Það virðist vera að algjörlega hafi verið treyst á það að ásakanirnar á hendur þeim nægðu til að vísa þeim úr landi án dóms, í krafti laga um hryðjuverk sem Danir flýttu sér að setja eftir 11. september, 2001, meðan allur hinn vestræni heimur var enn í áfalli eftir árásina á Tvíburaturnana. En málið er þó ekki svo einfalt, því í dag vakna margir Danir upp við vondan draum og þykir slík brottvísun mannréttindabrot. Danskur dómstóll mun á næstu dögum taka afstöðu til þess hvort slík brottvísun sem krafist er sé brot á mannréttindum, að teknu tilliti til tveggja dóma mannréttindadómstóla.

Þegar eftir handtöku Túnismannanna tveggja fóru dönsku dagblöðin á stúfana, með Jótlandspóstinn, sem ljóst og leynt styður danska Þjóðarflokkinn (DF) og upphaflega birti skopmyndirnar, sem fánabera í broddi fylkingar, og endurbirtu hinar umdeildu skopmyndir, sem andsvar við - ja, hverju? Handtöku tveggja manna, sem bornir voru sökum, sem lögmaður þeirra hefur enn (22. febrúar) ekki fengið í hendur gögn um að eigi við rök að styðjast! Menn börðu sér á brjóst og töluðu fjálglega um heilagt tjáningarfrelsi og að ekki mætti láta heiftúðuga araba komast upp með morðhótanir á hendur saklausum borgurum - birting myndanna væri þeim makleg málagjöld! Mátti af ummælum sumra ætla að hafið væri heilagt stríð fjölmiðla á hendur þeim sem ekki hafa húmor fyrir pólitískum skopmyndum með trúarlegu ívafi, þar sem gert er grín að eldfimasta málefni alþjóðastjórnmála í dag.

Þau viðbrögð sem vænta mátti og stofnað var til með handtökunum og endurbirtingunni létu vitanlega ekki standa á sér - öfgasinnaðir múslimar tóku þegar við sér og léku það hlutverk sem þeim var úthlutað í þessu sjónarspili af stakri prýði og eins og til var ætlast! Tjáningarfrelsi sitt notfærðu sér á ámátlegan og aumkunarverðan hátt til að úthúða því sama frelsi og kalla það plágu; grátleg heimska má slíkt að kallast og aðeins til þess fallið að styrkja það álit almennings að innan höfðuskelja þessa fólks leynist lítið annað en bænastagl og hafragrautur.

Þessa dagana mótmæla hófsamir múslimar þessum skrípaleik, vegna þess að þeir sjá í gegnum hann og er tilgangur hans augljós, það er að segja að kynda undir báli kynþáttafordóma í landinu og auka þar með fylgi við þá flokka sem vilja að tekið sé af hörku á málefnum innflytjenda.

Þversögnin í þessu er þó sú að eftir seinustu mótmælagöngur og ræðuhöld Hizb ut-Tahrir, með þátttöku Íslamska Trúfélagsins, taka bæði hófsamir múslimar og sósíalistar að vissu leyti undir sjónarmið hægri aflanna, sem lengi hafa vilja banna samtökin, - þó hvorki múslimar né sósíalistar hafi nefnt orðið bann, - þar sem þau eru á þeim bæjum álitin vera farin að skaða málstað innflytjenda meira en hægt er umbera lengur, þegar þau með öfgafullum viðbrögðum sínum og fáránlegum andsvörum meðlima sinna við ögrunum hægri aflanna dansa eftir pípu þeirra. 

abdul-hamletJa, hvað ætli Shakespeare hefði sagt, hefði hann verið áhorfandi að þessu leikriti, - ætli hann hefði ekki bara tautað:

"Something is rotten in the state of Denmark" ? 


Nýtt útspil

image002Forysta Socialistisk Folkeparti (SF), flokks sósíalista í Danmörku, er býsna snjöll. Nú hvetur ungliðahreyfing hennar, SFU, unga, óánægða innflytjendur til að láta af óeirðum og fylkja sér undir merki hennar.

Hún segir við þá að íkveikjur og skemmdarverk á götum úti sé ekki rétta leiðin til að vekja athygli á vandamálum innflytjenda. Það sé miklu vænlegra til árangurs fyrir þá að ganga til liðs við ungliðahreyfingu flokksins, þar sem hún berjist á móti misrétti, og þar með fyrir sömu sjónarmiðum og þeir.

Við eigum að standa saman 

Þetta segir Nanna Westerby, formaður ungliðahreyfingarinnar:

"Það unga fólk, sem eins og við telur að aðlögunin gangi ekki nógu vel í Danmörku, er velkomið að skrá sig í ungliðadeild SF eða í önnur lýðræðisleg samtök. Þá getum við í sameiningu sett vandamálið á stefnuskrána."

"Við vonumst eftir að geta sent mikilvæg skilaboð um, að við erum mörg sem berjumst á móti misrétti. Því við erum einnig á þeirri skoðun að það sé mikið að þegar kemur að aðlögun innflytjenda að dönsku samfélagi, en lausnin felst ekki í því að brenna bíla og gáma." 

Ungliðahreyfingin tekur skýra afstöðu á móti Hizb ut-Tahrir

"Hizb ut-Tahrir eru samtök öfgafullra trúmanna. Það er ekki okkar skoðun að til séu trúarlegar lausnir á vandamálum samfélagsins. Lausnirnar er að finna í virkri stjórnmálaþátttöku."

Það er skoðun hennar að lýræðisöflin eigi að stefna að annarri stefnumörkun en þeirri sem ríkisstjórnin og danski Þjóðarflokkurinn (DF) stendur nú fyrir. 

"Hizb ut-Tahrir vinnur ekki fyrir lýðræðið. Við þörfnumst allra þeirra krafta sem við getum náð í til að koma á annarri dagskipun hvað varðar aðlögun innflytenda. En þeir kraftar verða að vera lýðræðislegir."  

SFU hefur stofnað hóp á Facebook

SFU hefur stofnað hóp á Facebook sem nefnist "Vertu með í baráttunni". Með þessum hætti ætlar SFU komast í samband  við unga fólki sem stóð að baki óeirðanna seinustu vikur og gefa þeim möguleika á að láta til sín heyra á annan hátt.

Nanna Westerby: 

"Margt það unga fólk, sem tók þátt í óeirðunum hefur sagt að það hafi ekki aðra möguleika á að láta í sér heyra. En það er ekki rétt. Eins og er gerir það stöðuna aðeins verri." 

"Ef unga fólkið vill í alvöru berjast á móti misrétti, þá verður það að taka þátt í starfi þeirra flokka og félaga sem berjast á móti því. Það væru sterk skilaboð, sem myndu skila árangri."

(Úrdráttur úr fréttagrein í Politiken) 

Lesið hana HÉR

Það var rólegt hjá slökkviliðum alls staðar í Danmörku síðast liðna nótt. Lögreglan telur að hlutirnir séu að færast í eðlilegt horf. Það var kveikt í á fáeinum stöðum síðast liðna nótt. Þar voru að verki "venjulegir" brennuvargar".

Þetta sagði yfirvarðstjóri lögreglunnar í Kaupmannahöfn: "Það hefur alltaf verið kveikt í hjólageymslum og ruslagámum. Þessir smá-brennuvargar, sem kveikja í rusli, voru hluti af hversdagnum fyrir ólætin."

Nánar HÉR 


Danskir múslimar

2006-02-09 Cartoon Muhammed Christian Jew Muslim joke 550

Í bæði skiptin sem danska dagblaðið Jótlandspósturinn birti skopmyndirnar af Múhameð voru það öfgasamtökin Hizb ut-Tahrir, sem er deild alþjóðasamtaka Hizb ut-Tahrir (sem færslan mín hér fyrir neðan fjallaði um) sem stóðu fyrir mótmælunum gegn þeim. Íslamskt Trúfélag, sem oft hefur verið litið á sem talsmann múslima í Danmörku, tók þátt í síðustu mótmælaaðgerðum samtakanna.

Nú snúast aðrir danskir múslimar öndverðir gegn trúfélaginu, sem samkvæmt grein í Berlingske Tidende telur aðeins 7-8% danskra múslima. Lesið meira um það HÉR.

 Úr greininni:

"Trúarbrögðin eru okkur sameiginleg, en þeir eru ekki talsmenn okkar, og við tökum sterka afstöðu á móti öfgum og því hvernig imamar í Íslamska Trúfélaginu taka þátt í samfélagsumræðunni. Öfgamenn geta ekki tekið sér einkarétt á íslam og aðlögunarferlinu  í Danmörku."

Blogg:

Helen Lafitis small talk: Múslimar hafa fengið nóg af Íslamska Trúfélaginu


Hizb ut-Tahrir

 "Tjáningarfrelsið er plága"(tengill)

Stofnað 1953

Taqiuddin_Al_NabhaniHizb ut-Tahrir var stofnað 1953 í Jerúsalem.  Hizb ut-Tahrir lítur á sig sem stjórnmálaflokk sem hefur íslam sem hugmyndafræði.

Markmið Hizb ut-Tahrir er íslömsk ríkisstjórn - kalifat - þar sem öll málefni daglegs lífs lúta íslömskum lögum (sharia). Í heimi  Hizb ut-Tahrir ráða trúarsetningar því hvað telst löglegt (halal) og hvað ólöglegt (haram).

Samkvæmt heimildum Heritage Foundation starfar Hizb ut-Tahrir á alþjóðlegum grundvelli í 40 löndum og hefur hugsanlega 10.000 meðlimi í innsta hring. Við þá tölu má bæta þúsundum af áhangendum.

Stofnandi Hizb ut-Tahrir,Taquiddin al-Nabhani

Hizb ut-Tahrir var stofnað í Danmörku á árunum eftir 1990. Heimildir telja að eiginlegir meðlimirnir séu í mesta lagi 50, auk nokkurra hundruða áhangenda. Á boðaða fundi geta komið upp undir 1000 áheyrendur.

Heilagt stríð

hizb-ut-tahrirHizb ut-Tahrir hefur hvatt múslima til að velta stjórnum landa úr sessi og kallað eftir heilögu stríði - jihad - gegn hinum vestræna heimi. Eftir því sem vitað er hefur Hizb ut-Tahrir ekki átt beina aðild að ofbeldisverkum, en samtökin hafa ítrekað  lýst yfir stuðningi við hryðjuverk, t.d. árásina á BNA 11. september 2001. Hizb ut-Tahrir hefur einnig margoft gefið út yfirlýsingar um að sjálfsmorðssprengingar séu "lögleg píslarvottaverk".

Af þessari ástæðu er Hizb ut-Tahrir bannað í Usbekistan, eins og í öllum öðrum fyrrverandi múslimskum lýðveldum í Mið-Asíu og Rússlandi. Með nokkrum undantekningum eru samtökin einnig bönnuð í arabísku ríkjunum og í Pakistan. 

Á Vesturlöndum er Hizb ut-Tahrir bannað í Þýskalandi og rætt hefur verið um bann í Stóra-Bretlandi, Ástralíu og Danmörku.

Myndin hér fyrir ofan er af vefnum Indonesia Matters 

woman29_Viðhorf til kvenna

Viðhorf Hizb ut-Tahrir til kvenna mótast af öfgafullum, gamaldags hugmyndum um hlutverk kynjanna. Samkvæmt Hizb ut-Tahrir er hlutverk konunnar fyrst og fremst að vera móðir og eiginkona. Konan á að hylja líkama sinn með síðum kjól og höfuðklút og hún á að hlýða eiginmanni sínum.

Mynd af vefnum Saudi-Arabía 

Dæmdur fyrir hótanir

Formaður Hizb ut-Tahrir í Danmörku Fadj Abdullatif hefur oft verið dæmdur fyrir að setja fram hótanir. 17. ágúst 2006 hlaut hann 3 mánaða óskilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir að hafa hótað Anders Fogh Rasmussen í dreifibréfi, þar sem stóð meðal annars:

"Haldið af stað til hjálpar bræðrum ykkar í Fallujah í Írak og útrýmið stjórnarherrum ykkar, ef þeir eru ykkur til trafala."

Hann var einnig dæmdur árið 2003 til 60 daga óskilorðsbundinnar refsivistar fyrir hótanir, grófar ærumeiðingar og að hvetja til morða á Gyðingum á grundvelli dreifibréfs með tilvitnun í Kóraninn: 

"Og drepið þá hvar sem þið finnið þá, og rekið þá þaðan sem þeir ráku ykkur." 


Wikipedia: Hizb ut-Tahrir

Blogg frá Villa pósti 

Önnur skoðun 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Greta Björg Úlfsdóttir
Greta Björg Úlfsdóttir

...hvað er bak við yztu sjónarrönd?

gretaulfs@gmail.com 

                                                                                                                                                           Injustice anywhere is a threat to justice everywhere. We are caught in an inescapable network of mutuality, tied in a single garment of destiny. Whatever affects one directly, affects all indirectly.

~ Martin Luther King, Jr.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband