Leita í fréttum mbl.is

Prestur í hlutverki leikstjóra

424094245_44eef6c5eaÞað rifjaðist upp fyrir mér í kvöld, að einu tilvikin sem ég man eftir um að séra Gísli, sóknarpresturinn á Klaustri, hafi haft hönd í bagga með starfi Kristjönu, kennslukonunnar okkar, voru þegar hann aðstoðaði hana við leikstjórn skólaleikritanna. Það er samt ekki alveg rétt, því hann var líka prófdómari í lestrarprófum hjá okkur.

Á vorin, þegar skólanum lauk, voru haldnar sýningar á verkum nemenda yfir veturinn og skemmtun í sambandi við hana. Þar voru lesin upp ljóð og leikin leikrit. Þegar við höfðum lært hlutverkin okkar sómasamlega, og sæmilegu rennsli var náð, mætti presturinn og gagnrýndi árangurinn. Það var okkar generalprufa.

Ég naut þess að leika Grasa-Guddu. Gleraugunum fékk ég að fela á bak við skýluklút. Prestinum líkaði bærilega túlkun mín. Ég vakti mikla lukku í sveitinni og litlu læknisdótturinni var óspart hælt og talin upprennandi stjarna og prímadonna af bændum og búandliði. Sukksess, sem sagt.

Árið eftir syrti þó heldur í álinn. Þá var ég valin til að leika ljúfa og blíða álfkonu. Þetta hlutverk hæfði mér engan vegin, enda vakti úthlutun þess til mín mér litla kæti. Ég neyddist þó til að taka það að mér, vegna þess að engar af hinum stelpunum voru með eins sítt hár og ég. Þegar búið var að leysa úr fléttunum náði það niður á mitt bak. Það leyndist líka ljón á vegi mínum. Til þess að falla inn í hlutverkið neyddist ég að taka niður gleraugun, áður en ég steig á svið, því þau þóttu ekki hæfa fagurri ásjónu álfkonu.

Séra Gísli, sem vorið áður hafði haft lítið út á túlkun mína á Grasa-Guddu að setja, var ekki hrifinn af hinni þungbúnu álfkonu sem drattaðist inn á sviðið. "Greta Björg,  ljúf og blíð álfkona á að vera brosleit og léttstíg, en ekki þramma eins og fjósakona að koma frá mjöltum". 

424104412_707f7cb67bEinhvern veginn klóraði ég mig í gegnum sýninguna, með slegið hár og gullspöng um enni, gleraugnalaus og þreifandi mig inn á sviðið. Sem betur fer þurfti ég ekki að hreyfa mig mikið eftir að inn var komið og ekki að segja nema þrjár setningar. Svo féll tjaldið - að vísu var ekki um tjald að ræða í samkomuhúsinu Kirkjuhvoli, sem þjónaði sem skólahús þeirra 9-11 barna sem í skólann gengu. Ég hafði unnið annað leiklistarafrek, þó í þokumóðu væri.

- - - 

Þegar ég flutti til Reykjavíkur fékk ég að leika vitring í jólaleikriti. Litlum sögum fer af frammistöðu minni, enda aðalleikkonan komin í aukahlutverk og man ekki einu sinni hver leikstjórinn var. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Kæri Valgeir, ég vona að þér batni fljótt og að þú munir eiga gleðileg jól.

Bestu kveðjur til þín.

Greta Björg Úlfsdóttir, 15.12.2007 kl. 10:36

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Elsku Gréta mín, þetta hefru verið erfitt hjá litlu stúlkunni.  Og svo hefur öfundinn líka haft sitt að segja, augngotur og framkoma sem maður getur ímyndað sér. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.12.2007 kl. 13:32

3 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Nei, veistu það Ásthildur mín, ég varð aldrei vör við neina öfund. Kannski var það ég sem var svona glöð í hjarta, eða þá það að Skaftfellingar eru manna rólegastir í tíðinni á landinu.

Greta Björg Úlfsdóttir, 15.12.2007 kl. 14:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Greta Björg Úlfsdóttir
Greta Björg Úlfsdóttir

...hvað er bak við yztu sjónarrönd?

gretaulfs@gmail.com 

                                                                                                                                                           Injustice anywhere is a threat to justice everywhere. We are caught in an inescapable network of mutuality, tied in a single garment of destiny. Whatever affects one directly, affects all indirectly.

~ Martin Luther King, Jr.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.