Leita í fréttum mbl.is

Því miður...

2008-10-25_herd_behaviour_of_markets_600.jpg...verð ég að viðurkenna að ekkert af því sem ég horfi nú á gerast í kringum sig kemur mér á óvart. Ég hef verið agndofa undanfarin ár yfir hinum svokallaða uppgangi í þjóðfélaginu, stórhýsi skutust upp úr jörðinni eins og gorkúlur, byggingarkranar gengu nánast allan sólarhringinn, fólk þeyttist um þjóðvegina á manndrápshraða á risajeppum sem kostuðu margar milljónir, flutt var inn grjót og eðalviður í tonnavís, innflutningur á alls kyns vörum sem teljast verða til munaðar (í mínum huga, alla vega) var gengdarlaus og á marga (ekki alla) hafði runnið algjört kaupæði.

Þetta var allt einhvern veginn svo fjarstæðukennt og algjörlega í andstæðu við það sem mér var innrætt í barnæsku. Ég er af þeirri kynslóð sem hóf vegferð sína með því að fá sparibauk sem á stóð "Græddur er geymdur eyrir", mig minnir að það hafi verið gjöf frá Búnaðarbankanum sem þá hét svo. Manni var innprentað að það væri dyggð að spara og eiga peninga í banka, að skulda umfram greiðslugetu væri óráðssía; að lifa á yfirdrætti þekktist ekki mér vitanlega.

Fyrir fæðingu mína hafði "blessað" stríðið fært landinu ástandið og Bretavinnuna, síðan tók "elsku" Kaninn við. Ég er fædd árið 1951 og man því ekki þessa tíma, en ennþá var þó borin virðing fyrir þeim gömlu viðhorfum til peninga sem ég lýsti hér að framan. 

Síðan kom óðaverðbólga. Henni fylgdi brenglun á verðskyni og viðmiðum í peningamálum, þá var um að gera að fjárfesta í steinsteypu (sem mér hefur alltaf fundist forljótt byggingarefni!) og skulda sem mest því lánin voru ekki verðtryggð, að spara varð fíflalegt, á því græddi enginn.

Svo tók pappírsbólan við. Fáir virtust muna eftir því að yfirdráttur er ekki raunverulegur höfuðstóll, skuldir eru ekki eignir nema á bankamáli, og enn var steinsteypuhugsunin við lýði, samhliða pappírsauðnum.

Græðgisvæðingin ríkti um allan hinn vestræna heim, en hvergi held ég að hún hafi verið eins áberandi og hér á landi, há hinum nýríku Íslendingum, þá er ég að tala um þjóðina sem heild, en ekki einstaklinga sem slíka. Þjóðin gleymdi sér á eyðslufylleríi og eftirsókn eftir vindi.

Nú standa eftir steyptir grunnar og byggingarframkvæmdir sem ekki eru til peningar til að klára. Eignir sem lokið hefur við eru skuldsettar upp í topp. Skuldir hækka, fólk missir unnvörpum vinnuna og sér ekki hvernig það á að fara að því að framfleyta sér og sínum á næstu mánuðum.

Á platta sem ég fann í Góða Hirðinum og hangir í eldhúsinu mínu stendur þessi speki:

"Undgå kredit

Lev trygt og frit."

Vonandi rís fuglinn Fönix enn úr öskunni.


mbl.is Vaxtahækkun vegna IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Greta Björg Úlfsdóttir
Greta Björg Úlfsdóttir

...hvað er bak við yztu sjónarrönd?

gretaulfs@gmail.com 

                                                                                                                                                           Injustice anywhere is a threat to justice everywhere. We are caught in an inescapable network of mutuality, tied in a single garment of destiny. Whatever affects one directly, affects all indirectly.

~ Martin Luther King, Jr.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband