Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Dansleikur

orð eru

mælistikur

á mannkynið

 

stóryrði á

angurgapa

utangarðsmenn

 

smáorðin

ýta þeim íturvöxnu

út í flauminn

 

af og frá að

þeim leyfist að

dansa á brúninni

 

lostafullan tangó

tignarlega kvadrillu

tregablandinn vals

 

þó sumir telji sig

fara eftir línu

einkum

 

í fallinu. 

 

Geirlaugur Magnússon: N er aðeins bókstafur, 2003 


Vive la France!

Heart

Þetta myndband er líka býsna gott: SMELLA HÉR

Ég tek undir það sem Reza Aslan segir í lok myndbandsins.

Ekki vildi ég hins vegar lenda fyrir nöglum konunnar sem talaði fyrir hönd "fylgismanna Krists" (Christ´s followers)! Pinch Crying 


Af (Þor)Lákum, - einum helgum og öðrum þokkaminni

thoNú rennur senn upp Þorláksmessa að vetri, sem er annar af tveimur messudögum Þorláks Þórhallssonar, biskups, eina verndardýrlings okkar Íslendinga. Annar messudagur hans er Þorláksmessa að sumri, 20. júlí.

Þorlákur var vinsæll meðal íslenskrar alþýðu, svo sem sjá má af því að leyfð voru áheit á hann sem helgan mann á Alþingi 1198 og hann lýstur þar helgur maður árið eftir. Það var þó ekki fyrr en 14. janúar 1984 að Stjórnardeild sakramenta og guðsdýrkunar í Páfagarði lýsti því yfir að Þorlákur helgi væri verndardýrlingur Íslands, með samþykki Jóhannesar Páls II. páfa

Ekki hafa allir Þorlákar notið slíkra vinsælda hér á landi. Eftirfarandi er tekið upp úr "Skruddu", bók afa míns, Ragnars Ásgeirssonar, bls 266-67:

"Símon Dalaskáld* hafið óbeit á flestum Þorlákum og kemur hún víða fram í vísum hans. Höfðu einhverjir Þorlákar reynst honum skæðir keppinautar í kvennamálum. Víkur hann að því í þessari vísu:

Tæla frá mér tróðurnar -

tíðum - silkibanda.

Þokkasmáir Þorlákar,

þeir mér stá til bölvunar. 

 

Frá öðru ævintýri sínu, sem endaði sorglega fyrir hann, segir hann svona:

 

428px-Fjallkona-1Ég við helgan aftansöng,

um sem myndast bögur,

settist niður seims hjá spöng,

sem var ung og fögur.

 

Þangað kom einn Þorlákur,

þetta banna vildi,

ekki seinn, og sá strákur

sundur okkur skildi.

 

Hér í veröld víðast hvar

vífnir jafnan strákar.

Eru mér til ömunar

ávallt þessir Lákar.

 

Símon átti bróður sem hét Þorlákur, hann fór til Ameríku og settist þar að. Um hann kvað Símon:

 

Minn er bróðir blessaður,

bæði hýr og glaður.

Þó hann heiti Þorlákur

þá er hann bezti maður.

 

Víðar en hjá Símoni kemur ótrúin á Þorláksnafninu fram. Eitt dæmi um það má finna í níðvísum Páls Ólafssonar um séra Björn á Dvergasteini. Þegar Páll hefur reitt upp hnútasvipu níðsins að séra Birni, klykkir hann út með þessu:

Og það - að vera Þorláks son -

Það tekur nú yfir! "

- - -
*Símon Dalaskáld (1844-1916) var skáld og flakkari.

- - - 

lukkulaki_270103Ef til vill má merkja að nafnið Láki hafi enn þótt heldur neikvætt hér á landi fram á seinustu öld á því að svartálfi einum, í erlendri bók sem ætluð var ungum börnum, var gefið nafnið Láki í íslenskri þýðingu. Var bókin einfaldlega látin heita Láki og síðan var mynd af svartálfinum óþekka undir. Þykist ég viss um að margir á mínum aldri og yngri muni vel eftir þessari bók. Lílega er hún ekki lengur lesin fyrir íslensk börn vegna hættu á því að hún leiði þau til fordóma.

HÉR er að lokum tengill á fróðleik um einn Láka sem notið hefur nokkurra vinsælda á Íslandi - sá hafði sér það ef til vill til framdráttar að vera amerískur, sem löngum hefur þótt nokkuð varið í hérlendis.

- - - 

Myndin af líkneski Þorláks helga sem fylgir færslunni er fengin að láni af ÞESSUM vef. 


Vísa um presta - og sitthvað um klæðnað þeirra

presturÞað var siður fyrrum hér á landi, að prestar gengu daglega í hempum sínum, og eins voru þeir í þeim á ferðalögum, ýmist gangandi eða ríðandi. Þess siður mun hafa lagzt niður snemma á nítjándu öld, en þá var um þetta kveðin eftirfarandi vísa í Árnessýslu:

Á Suðurlandi sjást nú klerkar svartir fáir.

Þeir eru orðnir grænir, gráir,

gulir, hvítir, rauðir, bláir.

Sögn Helgu Halldórsdóttur á Dagverðará.

Úr "Skruddu" Ragnars Ásgeirssonar, 3. bindi, bls. 254

Skyldu svartir klerkar enn sjást á Norðurlandi? 

Eitt sinn fylgdist ég með presti útskýra hökla kirkjunnar fyrir skólabörnum í kirkjuheimsókn. Prestur sá, sem einnig er fyrrverandi kennari (með kennararéttindi úr Kennaraskólanum, sem þá hét), útskýrði klæðnaðinn þannig að hann ætti að tákna að sá sem klæðist honum kemur fram sem þjónn Guðs frammi fyrir altari hans, en ekki sem sú persóna sem hann er sjálfur. Hann felur sína eigin persónu, eða skilur hana eftir, þegar hann íklæðist höklinum. Þess vegna afklæðist hann höklinum þegar hann flytur prédikun sína, því hún er samin af honum sjálfum samkvæmt hans skilningi á Guðsorðinu, og einnig klæðist hann höklinum aðeins við helgiathafnir í kirkju, en aldrei utan hennar.

Utan kirkju kjósa margir prestar nútímans að bera kraga sem gefur mönnum til kynna að þar sé prestur á ferð, vilji þeir til hans leita. Svarta hempan og rykkilínið er hins vegar forn klæðnaður að uppruna og pípukraginn var bæði virðingartákn veraldlegra og geistlegra fyrirmenna fyrr á öldum.

Ef til vill þarf engan að undra að "svörtum presti" gangi illa að greina á milli embættismannsins og bloggarans í sér. Ætli hann afklæðist ekki hempunni samt sem áður ef hann bregður sér í fjallið á skíði? Wink


Þegar piparkökur skreytast

piparkökurÍ dag skreytti ég piparkökur með honum pápa mínum. Hingað til höfum við skreytt upp úr heilli dós af kökum og mátt sjá afrakstur í formi prímadonnu-piparköku-skreytinga-listaverka. Því miður held ég að við höfum valdið múttu svolitlum vonbrigðum í ár, því bæði erum við hálflasin þessa dagana og vorum ekki til stórræðanna. Í ár varð skreytingin samvinnuverkefni, sem við mörðum af á 32 stk piparhjörtu með glasúr í fjórum litum.

 

 


Hvenær byrjuðu jólin?

Á aðventuhátíð í Áskirkju í kvöld benti Þráinn Bertelsson viðstöddum á klaufalega rangfærslu í fjölmiðlum:

Í október byrjaði að heyrast í fjölmiðlum landsins eftirfarandi auglýsing: Jólin byrja í IKEA.

Þetta er bull og vitleysa.

Jólin byrjuðu ekki í IKEA í október 2007.

Þau byrjuðu í Betlehem fyrir rúmum 2000 árum og auglýsingin var svona:

Ég boða ykkur mikinn fögnuð! 

Góða nótt! Smile

Jólaengill

P. s Munið líka að það fer betur á því að hafa rammann ekki dýrari en myndina sem fer í hann. 


Jól í gamla daga og starf héraðslæknis á síðustu öld

kbkljól

Jól 1956 

Öftust á myndinni hér að ofan stendur Lilja María (Lillý), sitjandi er Aðalheiður (Heiða) með Sigrúnu Rögnu (Rögnu, f. 1956) í fanginu. Fremst situr svo Greta Björg kotroskin og glöð á jólunum. (Slaufan fína tolldi nú ekki lengi í hárinu!)

207695061_a8eeb7bfc4Myndin er tekin við jólatréð í stofunni í gamla læknishúsinu á Kirkjubæjarklaustri, jólin 1956. Húsið er enn embættisbústaður héraðslæknis, það hefur nú verið tekið allt undir íbúð hans, en ekki aðeins efri hæðin, eins og var þegar ég átti heima þar. Þá var viðtals- og skoðunarherbergi, apótek og ein sjúkrastofa, fyrir fólk sem þurfti stöðugt eftirlit eða aðhlynningu, á neðri hæðinni. Héraðið var (og er enn) víðfeðmt, náði austan úr Öræfum, niður Meðalland og vestur í Álftaver.

Einnig kom fyrir að héraðslæknirinn á Klaustri þyrfti að leysa af héraðslækninn í Vík í forföllum, þá var yfir Mýrdalssand að fara. Í þá daga voru vegasamgöngur ekki eins og í dag, t.d. var ekki búið að  loka hringveginum austur á Höfn, hann var ekki lagður og opnaður fyrr en löngu seinna, vegurinn endaði vestan megin við Núpsstað (undir Lómagnúpi). Læknirinn fór í byrjun dvalar okkar þarna á hestbaki yfir í Öræfi, yfirleitt eina ferð snemma vors meðan enn var lítið vatnsrennsli í óbrúuðum Núpsvötnunum, fyrir leysingar. Þó þurfti að bregðast við ef bráð veikindi komu upp þar, þá þurfti að sjúkdómsgreina í gegnum síma og útvega flugvél á staðinn ef ástæða þótti til, sem flaug þá með sjúklinginn beint á sjúkrahús í Reykjavík. Ég held að þarna hafi verið einhvers konar frumstæð flugbraut þar sem hægt var að lenda á í neyð.

PabbiSeinna fór læknirinn þangað í svokölluðum "vatnabíl", í fyld Lárusar Siggeirssonar, þess sem tók hvað mestan þátt í leitinni að "gullskipinu". Ég man að pabbi sagði einhvern tíma að hraustasta og harðgerðasta fólk landsins hefði verið í Öræfum þeirra tíma, fólk sem kallaði ekki allt ömmu sína og kynni að bjarga sér, og ef neyðarkall bærist þaðan væri full ástæða til að bregðast skjótt við.

Eiginlegur vegur var ekki um Mýrdalssand, þó heita ætti að ár væru þar brúaðar. Þær tók þó fljótt af í jökulhlaupum. Einnig kom fyrir að læknirinn þyrfti að fara á strandstað niður á fjörur, þar sem læknir þurfti að vera viðbúinn ef á þyrfti að halda. Slíkar björgunaraðgerðir gátu varað í sólarhring eða meira. Þessu læknishéraði þjónaði faðir minn einn í samtals 8 ár.

Pabbi notaði yfirleitt jeppa, í byrjun embættisjeppa sem voru fyrst gamli Willy´s jeppinn, svo staion útgáfa hans og síðast Land Rover. Lengst af eftir að við fluttum til Reykjavíkur átti hann hvern Land Roverinn af öðrum, sem kallaðir voru "Lallar" á okkar heimili. Seinna fékk hann sér svo Lödu Sport.

Einhvern tíma stóð ég við hlið vel stæðs náunga heima hjá fyrrum tengdaforeldrum mínum og gáði að ferðum foreldra minna, sem voru væntanleg, út um glugga. Þegar þau óku upp að húsinu varð manni þessum að orði: "Nú, á pabbi þinn Lödu? Er hann ekki læknir?" LoL

Ég sagði víst einhverjum að mamma væri með á myndinni hér efst, sem ég tók myndina í höfundarboxinu út úr. Það var misminni. Móðir mín, Ásta Kristín (Ásta) er með okkur á þessari (eldri) mynd:

jól á klaustri

Faðir minn heitir Úlfur Ragnarsson, hann orti mörg ljóð og sum þeirra hef ég birt hér á síðunni. 


Betlehemsstjarnan


Lýsir af himni lífsins bjarta stjarna,
leiðsögn, sem aldrei í myrkrinu brást,
til hans, sem er yndi allra jarðarbarna.
Enginn í heiminum göfugri sást.

:,: Ástúðin er hann, inn í hjörtun fer hann.
Umhyggju ber hann í brennandi ást. :,:

Vertu sem barnið, bara fylgdu honum,
byrðum hann léttir af öllum sem þjást.
Veitir þér huggun, hjartað fyllir vonum.
Himinsins stjörnur í augunum sjást

:,: Ástúðin er hann, inn í hjörtun fer hann.
Umhyggju ber hann í brennandi ást. :,:

Lýs milda stjarna leiðir jarðar allar.
Leys hverja deilu, er mennirnir kljást.
Líknaðu þreyttum þegar degi hallar.
Við þröskuldinn hinsta skal sigurinn nást.

:,: Ástúðin er hann, inn í hjörtun fer hann.
Umhyggju ber hann í brennandi ást. :,:

Úlfur Ragnarsson

Um ljóð og lag
Um málverkið hér að ofan

Prestur í hlutverki leikstjóra

424094245_44eef6c5eaÞað rifjaðist upp fyrir mér í kvöld, að einu tilvikin sem ég man eftir um að séra Gísli, sóknarpresturinn á Klaustri, hafi haft hönd í bagga með starfi Kristjönu, kennslukonunnar okkar, voru þegar hann aðstoðaði hana við leikstjórn skólaleikritanna. Það er samt ekki alveg rétt, því hann var líka prófdómari í lestrarprófum hjá okkur.

Á vorin, þegar skólanum lauk, voru haldnar sýningar á verkum nemenda yfir veturinn og skemmtun í sambandi við hana. Þar voru lesin upp ljóð og leikin leikrit. Þegar við höfðum lært hlutverkin okkar sómasamlega, og sæmilegu rennsli var náð, mætti presturinn og gagnrýndi árangurinn. Það var okkar generalprufa.

Ég naut þess að leika Grasa-Guddu. Gleraugunum fékk ég að fela á bak við skýluklút. Prestinum líkaði bærilega túlkun mín. Ég vakti mikla lukku í sveitinni og litlu læknisdótturinni var óspart hælt og talin upprennandi stjarna og prímadonna af bændum og búandliði. Sukksess, sem sagt.

Árið eftir syrti þó heldur í álinn. Þá var ég valin til að leika ljúfa og blíða álfkonu. Þetta hlutverk hæfði mér engan vegin, enda vakti úthlutun þess til mín mér litla kæti. Ég neyddist þó til að taka það að mér, vegna þess að engar af hinum stelpunum voru með eins sítt hár og ég. Þegar búið var að leysa úr fléttunum náði það niður á mitt bak. Það leyndist líka ljón á vegi mínum. Til þess að falla inn í hlutverkið neyddist ég að taka niður gleraugun, áður en ég steig á svið, því þau þóttu ekki hæfa fagurri ásjónu álfkonu.

Séra Gísli, sem vorið áður hafði haft lítið út á túlkun mína á Grasa-Guddu að setja, var ekki hrifinn af hinni þungbúnu álfkonu sem drattaðist inn á sviðið. "Greta Björg,  ljúf og blíð álfkona á að vera brosleit og léttstíg, en ekki þramma eins og fjósakona að koma frá mjöltum". 

424104412_707f7cb67bEinhvern veginn klóraði ég mig í gegnum sýninguna, með slegið hár og gullspöng um enni, gleraugnalaus og þreifandi mig inn á sviðið. Sem betur fer þurfti ég ekki að hreyfa mig mikið eftir að inn var komið og ekki að segja nema þrjár setningar. Svo féll tjaldið - að vísu var ekki um tjald að ræða í samkomuhúsinu Kirkjuhvoli, sem þjónaði sem skólahús þeirra 9-11 barna sem í skólann gengu. Ég hafði unnið annað leiklistarafrek, þó í þokumóðu væri.

- - - 

Þegar ég flutti til Reykjavíkur fékk ég að leika vitring í jólaleikriti. Litlum sögum fer af frammistöðu minni, enda aðalleikkonan komin í aukahlutverk og man ekki einu sinni hver leikstjórinn var. 


Ákvæðið - enn og aftur

Sífellt opnast manni nýir fletir þegar maður veltir fyrir sér spurningunni: þjóðkirkja - eða ekki.

Ég var að lesa athugasemdir í bloggi og las þar eftirfarandi, rætt var um þingmenn:

" Þeir sverja eið að stjórnarskránni -- það er skilyrði fyrir því, að þeir hefji störf sem þingmenn."

Samkvæmt þessu getur enginn, hvort sem hann er trúaður eða trúlaus, hafið störf sem þingmaður, sé hann ekki samþykkur því að þjóð-kirkja skuli vera í landinu, vilji hann vera sjálfum sér samkvæmur og fylgja sannfæringu sinni !

Dularfullt. 

Þetta ákvæði hlýtur óhjákvæmilega að útloka töluverðan fjölda af hugsandi einstaklingum frá þátttöku á þingi. (Og er þó ekkert of-framboð á þeim þar.)

Hefur verið gerð könnun á átrúnaði þingmanna og hollustu þeirra við stjórnarskrána þegar kemur að lögunum um þjóðkirkju? Gangast þeir ef til vill sumir hverjir undir lögin um þjóðkirkju til þess eins að komast á þing?

Eins og menn vita hefur verið vegið að menntamálráðherra undanfarið í krafti þessara laga. Hún er sem kunnugt er ekki í þjóðkirkjunni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Greta Björg Úlfsdóttir
Greta Björg Úlfsdóttir

...hvað er bak við yztu sjónarrönd?

gretaulfs@gmail.com 

                                                                                                                                                           Injustice anywhere is a threat to justice everywhere. We are caught in an inescapable network of mutuality, tied in a single garment of destiny. Whatever affects one directly, affects all indirectly.

~ Martin Luther King, Jr.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband