Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Hverjum var um að kenna?

Kenning Agnesar um samsæri seðlabankanna er allfjarstæðukennd.

Og reyndar runnin beint undan rifjum D.O.

Árásir alþjóðlegra auðhringja gegn fjármálakerfum landa eru hins vegar þekktar.En að álíta að seðlabankar viðkomandi ríkja (þar sem þeir auðhringar hafa aðsetur sitt) eigi aðild að þeim finnst mér ansi langsótt. Þá má fjármálaspilling innan þess ríkis að minnsta kosti vera allsvakaleg, ef þessir auðhringar ráða þar lögum og lofum. ( - Meiri en á Íslandi!?)

Í þessari grein sem Nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman skrifaði í The N.Y. Times í mars s.l. segir hann frá því að D.O., seðlabankastjóri Íslands telji að auðhringir bruggi slíkt samsæri gegn Íslandi. Hann leggur í sjálfu sér ekki dóm á þær staðhæfingar, en segist ætla að fylgjast með gangi mála.

Ég vek athygli á því að víða í bloggheimum er vitnað til greinar Krugmans sem hefði hann sett þarna fram eigin kenningu um samsæri gegn Íslandi. Hið rétta er að hann vekur athygli á staðhæfingum D.O. um að slíkt sé í uppsiglingu.

Hafi um slíkt samsæri verið að ræða hefði hins vegar ekki tekist að hrinda því í framkvæmd nema vegna þess að í bankakerfinu voru alvarlegar veilur og það þess vegna galopið fyrir árásum af slíkum toga.

Sérstaklega í ljósi þess að D.O taldi slíkt samsæri í uppsiglingu þykja mér yfirlýsingar hans í Kastljósþættinum fræga undarlegar, þar sem honum mátti vera ljóst að vel væri fylgst með orðum hans af erlendum aðilum.

Hrunið var ráðamönnum í bankamálum sjálfum að kenna, ekki vondum köllum í útlöndum.Það voru þeir sem stóðu ekki vörð um bankana, heldur leyfðu þeim að þenjast út erlendis án þess að gera viðeigandi varúðarráðstafanir.

Hverjum var hrunið að kenna? Þeim sem fengu Agnesi það verkefni að skrifa þessa grein, sem er einfeldningsleg  tilraun til að hvítþvo stjórnendur Seðlabankans og firra þá allri ábyrgðs.

Það er aumkunarvert að halda að við sjáum ekki í gegnum barnalegt yfirklórið í grein hennar.Svona gein kastar ekki ryki í augu landsmanna.

Svo er talað fjálglega um að þjóðin eigi að snúa bökum saman, á sama tíma og okkur er boðið upp á blekkingartilraunir sem þessar.

Halda ráðmenn virkilega að íslenska þjóðin sé svo heimsk að hún gleypi við hverju sem er?

Sveiattan !


mbl.is Þeir felldu bankana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af vefsíðu Vísis

Kreppubrandarar: Hvað kallast fimm bankastjórar á hafsbotni?

mynd

Góð byrjun. Breska blaðið Daily Mail hefur tekið saman það sem kalla má kreppubrandara til að létta aðeins geðið hjá fólki á þessum síðustu og verstu tímum. Hér eru nokkrir þeirra.

Hvernig skilgreinir þú bjartsýni í dag? Bankastarfsmaður sem straujar fimm skyrtur á sunnudegi.

Afhverju eru fasteignasalar hættir að horfa út um gluggan fyrir hádegi? Svo þeir hafi eitthvað að gera eftir hádegið.

Hver er munurinn á stjórnenda fjárfestingarbanka og dúfu? Dúfan getur enn sett mark sitt á Ferrari-bíl.

Fjármálakreppan hefur komið mér aftur á lappirnar. Það er búið að taka af mér bílinn.

Hvað segir þú við forstjóra vogunarsjóðs sem getur ekki selt neitt? Ég ætla að fá einn Big Mac með frönskum.

Heyrt á bar á Wall Street: "Þessi fjármálakreppa er verri en skilnaður. Ég haf tapað helmingi eigna minna en sit samt uppi með konuna.

Hver er munurinn á Robert Peston viðskiptaritstjóra BBC og guði? Guð heldur ekki að hann sé Robert Peston.

Maður kemur að máli við bankastjóra sinn og segist vilja stofna smáfyrirtæki. Hvernig geri ég það? "Einfalt," segir bankastjórinn. "Þú kaupir stórfyrirtæki og bíður svo aðeins.

Hvað er sameiginlegt íslenskum banka og íslenskum stripplingi? Báðir eru með dýrmætustu eigur sínar frosnar.


Davíð

david60.jpgÉg held að margir Íslendingar séu reiðubúnir að standa við bakið á núverandi ríkisstjórn á þessum erfiðu tímum og fram að næstu kosningum, svo framarlega sem upphafsmaður reiðileysisstefnunnar í bankamálum, Davíð Oddsson, verði látinn víkja úr stöðu bankastjóra í Seðlabankanum.

Auðvitað ættu allir bankastjórarnir að víkja, en Davíð hefur tekið sér húsbóndavald í Seðlabankanum og er að auki sá ráðamaður sem kom á einkavæðingu bankanna í landinu meðan hann var enn forsætisráðherra. Hann hlýtur því að bera mesta ábyrgð á því hvernig komið er og þess vegna er krafan sú að hann fyrst og fremst verði látinn víkja.

Síðan hlýtur krafan að vera sú að þeir sem verða berir að afglöpum í störfum í þágu þjóðarinnar eða vafasömum tengslum við viðskiptalífið verði skilyrðislaust látnir víkja úr starfi fyrir vikið. Og lesandi góður, ekki bera við  fámenninu og skorti á hæfu fólki einu sinni enn. Við eigum fullt af hæfu fólki, auk þess sem sá sem hefur orðið uppvís að slíku er alls ekki lengur hæfur!

Ef ekki verður orðið við þeirri kröfu mun verða krafist stjórnarslita innan skamms. Almenningur í landinu sættir sig ekki lengur við að einn maður deili og drottni á þennan hátt. Nú situr Davíð eins og kóngur í Seðlabankanum og skammtar atvinnuvegunum gjaldeyri eftir eigin geðþótta. Þetta er ekki líðandi.

Ef þeir Sjálfstæðismenn sem sitja við stjórnvölinn í dag ætla að gera sér vonir um endurnýjun lífdaga í næstu kosningum, hvenær sem þær verða haldnar, hlýtur það að vera skilyrði að þeir sýni af sér þá einurð að losa sig við aldavininn Davíð, sem hefur valdið svo miklum óskunda í þjóðlífinu.


Ah...

...þessi kona hefur lag á að bræða mann...

"Við megum aldrei gleyma því að Ísland er STÆRSTA land í heimi!"

Ég held að margir muni sakna Dorritar þegar Ólafur hættir.

 


Heimurinn er að breytast

world-map_261578.gifÉg álít, í ljósi síðustu atburða í samskiptum okkar við önnur lönd, að við Íslendingar gerum best í því að hlúa að okkur sjálfum og búa okkur undir að geta verið sjálfum okkur nógir á sem flestum sviðum. Að treysta um of á umheiminn er varlegt, eins og við finnum vel fyrir þessa dagana. Við verðum að treysta á okkur sjálf, fyrst og fremst, það sýnir reynslan okkur.

Annars endum við sem fátækt þróunarland sem önnur betur stæð ríki geta haft í hendi sér, það er að segja meðan þau standa enn af sér efnahagsstorminn sem gerir það að verkum að nú virðist sem þau lönd sem áður töldust hin auðugu og voldugu í heiminum stefni hraðbyri í þrot.

Ég tel það einnig hafa sýnt sig síðustu daga að þau lönd sem við eigum fyrst og fremst að leggja áherslu á að halda góðum tengslum við eru hin Norðurlöndin, þau lönd sem við tengjumst sérstökum menningarlegum og sögulegum böndum.

Það harðnar á dalnum um alla veröld. Við eigum að stefna að því að eiga alltaf hér í landinu nægar forðabirgðir af þeim vörum sem við þufum nauðsynlega á að halda og getum ekki verið án, komi til alvarlegrar heimskreppu, ekki síst vegna landfræðilegrar stöðu okkar. En til þess þurfum við gjaldeyri, þannig að augljóslega verður gjaldeyrisöflun að vera annað megin markmið okkar á komandi árum, í stað þess útstreymis á því sem verið hefur árin á undan. Það er komið í ljós að við höfum eytt margfalt um efni fram á undanförnum árum.

Jafnframt þarf að hlúa að innlendri framleiðslu á vörum fyrir heimamarkað og stefna að því að við getum orðið sem mest sjálfbær um nauðsynjar komi til þess að markaðir lokist og verslun við útlönd verði illmöguleg. Vitanlega verðum við einnig að halda áfram að leita færa til aukins útflutnings á afurðum okkar og gjaldeyrisöflun.

Ennfremur ættum við að nýta þá þekkingu og hugvit sem við búum yfir til að þróa aðferðir við að framleiða efni, til dæmis til nota við framleiðslu á öðrum vörum, úr innlendum hráefnum sem geta komið í stað þeirra sem við í dag teljum okkur tilneydd að flytja inn. Dettur mér í því sambandi í hug frétt á Stöð 2 nýlega þar sem sagt var frá því að beðið væri eftir gjaldeyrisheimild til að greiða pöntun á efnablöndu sem nauðsynleg er í framleiðslu á mjólkurvöru og fleiru. Er ekki hugsanlegt að við gætum í framtíðinni framleitt slíkar vörur sjálf?

Leggja þarf áherslu á að auka við þekkingu á náttúru okkar og þeim vannýttu auðlindum sem hún býr yfir, svo og tækniþekkingu til að vera þess megnug að nýta þá kosti sem skyldi. Og þar á ég ekki eingöngu við raforku. Til þess þurfum við vel menntað fólk, þannig að leggja verður mikla rækt við menntun ungs fólks, og raunar tel ég að við eigum að setja hana í forgang þegar kemur að fjárveitingum. Tími uppbyggðra þjóðvega í hvern krók og kima landsins fyrir risajeppa að þeytast eftir er liðinn. Minnkum hraðann, aukum gæðin!

Við ættum að reyna að læra af reynslu elstu kynslóðarinnar í þessu landi, fólkinu sem ólst upp við aðhald og sparsemi, ekki vegna þess að slíkt væri álitin sérstök dyggð, heldur af illri nauðsyn því annað var ekki í boði.

Kortinu rændi ég héðan.


Þarf einhver að vera hissa á því?

Mér finnst að við höfum orðið okkur til enn meiri skammar og athlægis, með því að hætta ekki við framboðið en útdeila þess í stað rjómapönnukökum!

Heldur það fólk sem vann að framboðinu að öryggisráðið sé einhver saumaklúbbur?

En Íslendingar kunna víst ekki að hætta, þekkja ekki sinn vitjunartíma eins og það hefur verið orðað, heldur göslast áfram í hroka og yfirlæti, jafnvel þó þeir hafi beðið algjört skipbrot á alþjóðlega vísu.

Hvernig væri að halda sig til hlés, sleikja sárin og jafna sig á áfallinu fyst um sinn.

Okkar tími mun koma. Smile

 


mbl.is Ísland náði ekki kjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Refskák sem fór úr böndunum...

Það læðast að manni (auknar) grunsemdir við þessa frétt...

Var um að ræða refskák til þess að ná til sín tveimur bankanna og gera þá að ríkisbönkum og losa sig í leiðinni við hina svokölluðu auðmenn og útrásarvíkinga? Leyfa svo Kaupþingi að tóra, í það minnsta fyrst um sinn, þó ekki væri nema fyrir útlitið (lúkkið). Síðan hefði mátt selja "réttum" (það er að segja þægum) aðilum bankana aftur, sem allt útlit er fyrir að muni takast ef svo fer fram sem horfir, þrátt fyrir allt sem fór úrskeiðis.Sem sagt einkabankar áfram, en í höndum "réttra" aðila, eftir hreingerningu.

Refskák, sem síðan fór illilega úr böndunum og hafði ófyrirséðar afleiðingar þegar seðlabankastjóri talaði alvarlega af sér í Kastljósinu, vegna óvæntra og harkalegra viðbragða Gordons "helvísks" Brown forsætisráðherra Breta við þeim yfirlýsingum, og einnig vegna hins almenna ástands á alheimsmörkuðum, geri ég ráð fyrir.

Ef þetta hefði tekist hefði seðlabankastjóri aftur verið kominn í lykilaðstöðu til að deila og drottna. Sem hann er reyndar kominn í nú eftir hrunið, en fórnarkostnaðurinn er sá að þjóðfélagið er í uppnámi, atvinnulífið í stórhættu, Íslendingar hafa misst mannorð sitt erlendis og eru bónbjargarmenn. Fyrir utan alla þá sem misst hafa sparifé sitt (eða hluta af því, eftir því sem nú er sagt).

Þess vegna var Davíð svona óskiljanlega glaðbeittur og sigurviss í Kastljósinu, hann hélt að þetta myndi allt reddast.

Það á aldrei að líðast að pólitíkusar verði seðlabankastjórar. Hvað þá að einstaklingur geti stigið upp úr forsætisráðherrastóli og plantað sér í sæti seðlabankastjóra. 

Björgvin G. Sigurðsson leggur til að bankarnir verði áfram í ríkiseign að einum þriðja, en það telur Þorgerður Katrín af og frá. Enda er einkavæðing stefna Sjálfstæðisflokksins, þó þessum ráðum hafi verið beitt við hreingerningu bláu handarinnar.Það er sama hver kústurinn er, svo fremi sem hann dugir til að sópa því út sem ekki lætur að stjórn.

Hins vegar væri vitanlega ótækt að bankarnir yrðu áfram í ríkiseign skyldi stjórnin falla við næstu kosningar, sem eiga alls ekki að fara fram aftur fyrr en eftir 3 ár að hennar áliti, það er að þegar búið er að ganga frá öllum hnútum í þessu efni.

Það er auðvitað besta mál fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hafa bæði  bláu höndina í seðlabankanum og svo einkavæðinguna (les=einkavinahagsmunapotið, önnur einkavæðing er varla til á Íslandi), eftir að búið er að henda út úr henni óþekktargemlingunum. Þetta er yndislegur (að þeirra mati) dúett, sem eflir  kosningasjóðinn og flokksmaskínuna í heilldrjúgu perpetuum mobile (eilífðarvél) fyrir flokkinn.

En ef svo ólíklega vildi til að Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti að fara frá völdum væri búið að tryggja að bankastjórar einkabankanna væru stjórnarandstöðunni hliðhollir. Sem vitanlega er þó meiri "hætta" á nú en áður (það er að segja að hann falli) þegar svona fór, en samt sorglega litlar, nema eitthvað mikið gerist í þjóðarsálinni.

Má maður vonast til að síðustu atburðir verði til þess?

Það er von að aldavinir hafi reiðst yfir að hafa verið sópað út, en róast aftur þegar búið var að lofa þeim einhverju snarli í sárabætur.


mbl.is Tilboði lífeyrissjóða hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krabbamein

 icu-4423460_701323.jpg

Íslenskt stjórnmála- og efnahagslíf er í dag eins og sjúklingur sem er fárveikur af krabbameini.

Eftir að hann veiktist snögglega fór hann í aðgerð.

Hann er enn í gjörgæslu.

Vonir standa til að hann fari bráðum að hressast.

Nú ríður á að finna hvaða lækningarmeðferð er hægt að veita.

Svo hún sé möguleg verður að greina tegund meinsins og hvar það á upptök sín, svo hægt sé að ráðast að rótum vandans.

Til þess þarf færa sérfræðinga, meinafræðinga, lækna og hjúkrunarlið.

Þá fyrst er hægt að ráða í hvaða úrræðum skuli beitt.

Þangað til það hefur verið gert er meðferð sjúklingsins í biðstöðu.

Það ríður á að vinna hratt að því finna rétta meðferð eigi hann að eiga lengra líf fyrir höndum.

Meðferðin kann að reynast honum erfið, en mun auka lífslíkur hans til muna.

Síðar mun gefast ráðrúm til að velta betur fyrir sér mögulegum orsökum þess að sjúklingurinn veiktist af krabbameini og hvað sé hægt að gera til þess að koma í veg fyrir að sjúkdómurinn komi upp aftur.

Börn hans sem eiga allt sitt undir honum bíða milli vonar og ótta.

Vonandi er sjúkdómurinn ekki lengra genginn en svo að unnt verði að bjarga lífi sjúklingsins.

Fyrir utan sjúkrahúsveggina gengur lífið sinn vana gang - enn sem komið er.


Úff

Það er nú einum of  að mega ekki einu sinni skoða vörurnar, þó hann væri ekki spenntur fyrir kreditkortunum þeirra.

Þetta er eins og þegar krakkar og unglingar sem eru að þvælast um og fíflast í búðum eru reknir út.

En íslenskar konur láta greinilega ekki af þeim sið að skoða veski í útlöndum, þó landið sé að sökkva. Ég veit ekki hvort það ber vott um bjartsýni eða meðvitundarleysi.


mbl.is Rekin úr búð í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilvitnun dagsins

Quote of the Day
Shoot for the moon. Even if you miss, you'll land among the stars.
Les Brown

Þetta hljómar nú napurlega fyrir okkur Íslendinga þessa dagana.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Greta Björg Úlfsdóttir
Greta Björg Úlfsdóttir

...hvað er bak við yztu sjónarrönd?

gretaulfs@gmail.com 

                                                                                                                                                           Injustice anywhere is a threat to justice everywhere. We are caught in an inescapable network of mutuality, tied in a single garment of destiny. Whatever affects one directly, affects all indirectly.

~ Martin Luther King, Jr.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband