Leita í fréttum mbl.is

Rolugangur

Í framhaldi af lestri á nýjasta pistli Ragnheiðar H., þar sem hún segist þjökuð af rolugangi eftir það mikla áfall sem hún varð fyrir, fór ég að hugsa um að í raun og veru væri "allsherjar rolugangur" nokkuð rétt lýsing á orsök þess að ég var metin til örorku fyrir 1 1/2 ári síðan! Blush

Ekki finn ég mikið dags daglega fyrir krabbameininu, sem blóðprufur sýna þó að blundar þarna einhvers staðar í líkamanum (líklega örsmáu, ekki skurðtæku æxlin sem sáust í hinum ýmsu himnum). Endurkomið krabbamein í lok árs 2000, greindist fyrst 1983 með brjóstakrabbamein.

4. stigs krabbamein, sem sagt, en afar hægfara 4. stig, nú hef ég tórt/blómstrað í þessi bráðum 7 ár til viðbótar, í stað þessara nokkurra mánaða sem um hefði verið að ræða hefðu ekki komið til nútímalyf. Fyrir það er ég afar þakklát. Mér leið þokkalega á lyfinu sem ég tók í 4 ár, sem sýndi sig síðan að var hætt að virka (þá var mér reyndar farið að líða skratti vel á því!). Þá tók við taka á nýlegu lyfi sem ég fann fyrir miklum aukaverkunum af. Máttleysi, kraftleysi, þreyta, vöðvaverkir. Engan vegin að standa mig í vinnu, alltaf þreytt ef ég tók á eins og þurfti. Og ef ég reyndi að skipta um starf leist þeim sem réð víst engan veginn á konuna! Allt þetta olli mér miklum kvíða og stressi.

Svo þannig og þess vegna fór ég á örorku, af líkamlegum, andlegum og félagslegum orsökum. Síðan ég hætti að vinna hafa aukaverkanirnar af lyfinu fjarað mikið út og líkaminn komist í meira jafnvægi, svo í dag líður mér bara ágætlega. Ekki síst nú síðast eftir þennan hálfa mánuð í hitanum og stressleysinu suður á Krít. (Kínverska iljanuddið sem ég fékk þar á ströndinni er líka að gera á mér kraftaverk, þarf að fara aftur í það hér heima, þegar ég hef efni á í næsta mánuði, þá á allt að gerast hjá mér!). Oft fer nefnilega áreitið sem mér finnst maður verða fyrir dags daglega hér heima mikið í mig og veldur mér stressi og kvíða, svo mig langar bara ekki til að hlusta á útvarp eða sjónvarp eða lesa blöðin, heldur frekar að setja á góðan disk með huggulegri tónlist InLove.

Að sumu leyti er ég afar sátt við að vera ekki að vinna, ég get hagað dögunum eftir eigin geðþótta og hraða. En stundum fæ ég þó þessa tilfinningu um að vera utanveltu og til lítils gagns í samfélaginu og að örorkan mín sé tómur rolugangur; ef ég tæki mig á og reyndi að standa í lappirnar myndi ég geta unnið eitthvað eða lært eitthvað nýtt til að starfa við. Sjúkraliðastarfið hugnast mér nefnilega hreint ekki lengur, ég hef fengið nóg af að sinna grundvallarþörfum sjúklinga, baða, mata, hjálpa á klósett, skipta á rúmum (og standa og sitja eins og misvitrum hjúkrunarfræðingum þóknast!). Auk þess sem ég held að hryggsúlan myndi fljótlega fara í verkfall við að byrja að bogra og lyfta aftur og heldur hugsa ég að ég yrði andstutt við að rísa á fætur aftur eftir margar ferðir niður og upp í hnjánum, eins og maður þarf svo oft að gera í þessu starfi, sem í raun og veru er aðeins fyrir tiltölulega ungt og frískt fólk að sinna, en ekki miðaldra konur Frown


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Elskuleg Greta mín

Það var nú ekki svoleiðis rolugangur sem ég átti við enda hef ég fullan skilning á því að vera með skerta starfshæfni. Ég er nú ekki í lagi sjálf til heilsunnar en hef ekki ákveðið enn að tala um það opinberlega...það fer allt í öðruvísi röð við svona áfall.

Ragnheiður , 10.10.2007 kl. 11:23

2 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ég veit það, Ragnheiður mín, að þú áttir ekki við "rolugang" akkúrat af þessu tagi í pistlinum þínum, heldur stafar þetta ástand hjá þér af því að þú varðst fyrir miklu andlegu áfalli sem þú ert enn að ná þér af.

Enda er sú ákvörðun að birta þennan pistil minn núna frekar til komið af skammdegiskvíðanum sem ég er farin að finna fyrir þessa dagana, því skammdegið fer meira og meira í mig með ári hverju, af hverju svo sem það stafar. En hef reyndar verið dugleg að fara í sund síðustu daga og sest svo við ljósalampana sem búið er að koma upp í Laugardalslauginni, ætla mér að halda þessu áfram í vetur. Kannski verður veturinn bærilegur hjá okkur í þetta sinn, að minnsta kosti hefur ekki fannfergi verið fyrir að fara undanfarin ár.

Greta Björg Úlfsdóttir, 10.10.2007 kl. 11:38

3 Smámynd: Ragnheiður

Já elskan mín, skammdegisþunglyndi er erfitt við að glíma

Ragnheiður , 10.10.2007 kl. 12:21

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gréta Björg mín, veistu að það er hægt að gera heilmikið þó það sé ekki endilega svokölluð vinna.  Það sem hægt er að gera, og þú ert að núna til dæmis er að gefa af þér sjálfri í kring um þig.  Ég er viss um að hann faðir þinn er ánægður með það.  Ljós og kærleikur eru ekki metnir í aurum og heldur ekki í klukkustundum.  En í ánægju og góðum hugsunum.  Við hvert gullkorn sem þú og aðrir setja hér inn til að gleðja aðra, fá þeir á móti tíu sinnum fleiri ánægjustundir frá hinum.  Það er bara spurningin um að meðtaka það og gera sér grein fyrir því ljósið mitt.   Þú er ekki utanveltu meðan þú ert hér. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.10.2007 kl. 16:23

6 identicon

Mé fannst þegar ég fór á "varanlega"örorku að það væri dómur yfir mér.En það er ekki meiri dómur en ég hugsa  það. Þá er ég ekki að meina TR.heldur mín viðhorf. Ég er langt frá því að vera full frísk en læt það ekki stoppa mig í því sem ég hef áhuga á að gera.Góð færsla takk fyrir hana

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 20:26

7 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Takk fyrir góð svör, stelpur mínar. Auðvitað er maður kannski bara hressari af því að vera í "fríi" og þurfa ekki að taka þátt í stressinu í kringum okkur. Kannski myndi maður fljótlega gefast upp ef maður ætti að fara að taka þátt í því á fullu. Hugsa nú að það dugi mér bara áfram að taka þátt í sjálfboðaliðs- og tómstundastarfi, eins og ég geri núna, og svo er líka mjög gott að vera sú sem hefur alltaf tíma til að sinna erindum fyrir fjölskylduna þegar á þarf að halda.

Greta Björg Úlfsdóttir, 11.10.2007 kl. 10:08

8 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Oh hvað ég kannast við þetta: "En stundum fæ ég þó þessa tilfinningu um að vera utanveltu og til lítils gagns í samfélaginu og að örorkan mín sé tómur rolugangur; ef ég tæki mig á og reyndi að standa í lappirnar myndi ég geta unnið eitthvað eða lært eitthvað nýtt til að starfa við."  En veistu ég hef reynt þetta margoft og um leið og ég fer að gera eitthvað sem veldur stressi eða að þurfa að mæta að morgni, dag eftir dag..... þá er það bara rúmið aftur. Það er kannski bara betra og gagnlegra að vera "hálf" og gera eitthvað uppbyggilegt og skemmtilegt, á sínum hraða og sínum tíma. Og svo nákvæmlega þetta með að vera heima og til staðar fyrir fjölskylduna, það er sko bara mjög mikilvægt. Ég nýt þess allavega að geta verið hér til staðar fyrir m.a. litlu prinsessuna mína, barnabarnið.

Og mundu að það er mikilvægt líka það sem þú gerir í sjálfboða- og tómstundastarfinu þínu og svo ertu mikilvæg fyrir okkur sem lesum bloggið þitt    ... sjáumst kannski í kaffi einhvern daginn?

Ragnhildur Jónsdóttir, 11.10.2007 kl. 11:45

9 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Það væri gaman . Kannski að fá systur Maríu Önnu með?

Greta Björg Úlfsdóttir, 11.10.2007 kl. 12:56

10 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Einmitt Gréta, góð hugmynd. ég sendi þér mail

Ragnhildur Jónsdóttir, 11.10.2007 kl. 14:00

11 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

 kveðjur frá mér, elsku Greta!

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 11.10.2007 kl. 22:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Greta Björg Úlfsdóttir
Greta Björg Úlfsdóttir

...hvað er bak við yztu sjónarrönd?

gretaulfs@gmail.com 

                                                                                                                                                           Injustice anywhere is a threat to justice everywhere. We are caught in an inescapable network of mutuality, tied in a single garment of destiny. Whatever affects one directly, affects all indirectly.

~ Martin Luther King, Jr.

Bloggvinir