Leita í fréttum mbl.is

Tvíburarnir - barnasaga

TwinsHeart1-1Einu sinni voru tvíburasystkin sem bjuggu í stóru húsi með mömmu sinni. Þessir tveir krakkar voru mjög ólíkir, þó þeir væru tvíburar.

Malli var alltaf mjög prúður og stilltur og gerði alltaf allt eins og skot sem mamma hans bað hann um. Hann þvoði upp, bakaði, eldaði og tók alltaf til í herberginu sínu, svo unun var á að horfa. Hann mætti líka alltaf í skólann hreinn og strokinn, þuldi námsefnið utan að og kunni algebru upp á sína tíu fingur, ef ekki meir. Hann vissi að mömmu hans þótti mjög vænt um hann og gladdist yfir því hve allt gekk vel og snurðulaust hjá honum.

En, æ, - þegar kom að Möggu var allt annað uppi á tengingum. Aldrei lagaði hún til í herberginu sínu. Hún hoppaði og skoppaði, skellti hurðum og hafði hátt og fór í mesta lagi út með ruslið fyrir mömmu sína. Þó henni gengi sæmilega í skólanum kunni hún aldrei námsefnið eins og til var ætlast og spurði um allt mögulegt sem ekki er ætlast til að börn hafi hugmynd um. Mætingin var ekki upp á marga fiska. Alltaf var Magga einhvers staðar úti við, að skoða mannlífið og náttúruna. Ef hún var ekki að grufla yfir einhverju sem henni fannst merkilegt, þá var hún örugglega að gera af sér einhver skammarstrik. Svo kom hún heim seint og um síðir, skítug og rifin. Mömmu hennar þótti undur vænt um hana og hafði oft þungar áhyggjur af henni þegar hún var á þessum flækingi, en ekki var á Möggu að sjá að hún tæki neitt eftir því hvað mömmu hennar leið illa.

En eitt laugardagskvöld kom Magga ekki heim! Mikið var mamma hennar hrædd, þeim mun hræddari sem lengra leið á kvöldið. Dyggðablóðið Malli tók utan um mömmu sína og reyndi að hugga hana, en hún grét bara ennþá meira. Þegar komið var fram yfir miðnætti hringdi mamma í lögregluna og hún kallaði björgunarsveitirnar út til að leita.  Umfangsmikil leit var sett af stað, allir  sem vettlingi gátu valdið leituðu stelpunnar.

Það var ekki fyrr en síðdegis næsta dag sem Magga fannst, þegar búið var að fínkemba svæðið. Henni hafði einhvern veginn tekist að smeygja sér inn á afgirt byggingarsvæði og dottið þar ofan í djúpan húsgrunn sem búið var að grafa. Hún var ómeidd, en búin að hrópa sig hása. Enginn hafði heyrt til hennar fyrr, því þetta var frídagur og ekki verið að vinna á svæðinu.

Þegar bíllinn ók upp að húsinu hljóp mamma út, faðmaði stelpuna sína að sér, kyssti hana í bak og fyrir og grét af gleði. Magga var ósköp aumingjaleg. Hún vissi upp á sig skömmina. Vegna glannaskapar hennar hafði fullt af fólki vakað og leitað alla nóttina og næsta dag.

"Æ, mamma, mér finnst þetta svo leiðinlegt" sagði hún með tárin í augunum og grátstafinn í kverkunum. Mamma svaraði: "Þetta er allt í lagi, Magga mín, ég er svo glöð að fá þig aftur heim, heila á húfi. - Nú skulum við gleyma þessu. Við skulum hafa það gott saman, leigja okkur mynd og poppa og hafa það notalegt í sófanum í allt kvöld".

Malli hlustaði á þessi orðaskipti, þungur á brún. Loksins hvíslaði hann að mömmu sinni: "En mamma, ætlarðu ekki að skamma hana fyrir óþekktina? Búið að kalla út björgunarsveitina og allt. - Þú ert búin að kyssa hana og kreista, en ég hef ekkert knús fengið fyrir að hugga þig í nótt."

Þá sagði mamma: "Malli minn, þú ert búinn að vera hjá mér allan tímann, svona góður og hjálpsamur. En ég hélt að við værum búin að missa hana Möggu, þess vegna dettur mér ekki í hug að skamma hana núna þegar hún er komin aftur til okkar. - Og nú skulum við öll skemmta okkur ærlega saman í kvöld."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Viðar Eggertsson

Takk fyrir söguna, en mig minnir að ég hafi heyrt hana áður.

Birtist hún ekki þarna í bókinni með sögunum frá fornöld? Þar var ein svona saga um týnda soninn, og hinn sem var stilltur og prúður og góður. Gott ef þeir voru bara ekki tvíburar líka!

Móðirin í þeirri sögu, var faðir bræðranna/tvíburanna slátraði kálfi og sló upp veislu til að fagna honum, þegar annar sonurinn var búinn að vera svo óþekkur og strjúka að heiman.... manstu?

Viðar Eggertsson, 14.12.2007 kl. 11:20

2 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Var það? Var sú saga til? Var það ekki bara skrökvusaga?

Greta Björg Úlfsdóttir, 14.12.2007 kl. 11:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Greta Björg Úlfsdóttir
Greta Björg Úlfsdóttir

...hvað er bak við yztu sjónarrönd?

gretaulfs@gmail.com 

                                                                                                                                                           Injustice anywhere is a threat to justice everywhere. We are caught in an inescapable network of mutuality, tied in a single garment of destiny. Whatever affects one directly, affects all indirectly.

~ Martin Luther King, Jr.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband