Leita í fréttum mbl.is

Athafnasemi

Í gær, sunnudag var mikið að gera hjá mér, fullskipuð dagskrá. Fyrst fór ég með vinkonu minni að skoða sýningar í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu. Þar var skemmtileg sýning á mjög stórum verkum eftir Erró sem eru unnin með tónskáld og málara fyrri tíma sem þema. Svo skoðuðum við þarna tvær sýningar með verkum samtímalistafólks, sem ekki sögðu mér svo sem neitt mikið eða merkilegt, þó svo sum verka Hreins Friðfinnssonar veki skemmtileg hughrif og finnst mér þau minna á meistara Magritte (ekki leiðum að líkjast!).

100_04611

Skilaði vinkonunni heim til sín og síðan sótti ég son minn og við héldum í eins árs afmælisveislu litlu hetjunnar Rakelar Óskar. Hún hefur heldur betur blásið út á þessu eina ári sem liðið er frá fæðingu hennar 2. nóvember í fyrra, 11 vikum fyrir tímann, þá var hún ekki nema 4,5 merkur. Þetta var svaka fín veisla, ömmurnar búnar að vera að stússast með mömmunni frá því um morguninn, margir veislugestanna aðrir ungir foreldrar með lítil börn sín, svo þarna var mikið fjör.

 

 Ég gat samt því miður ekki stoppað lengi, því ég var á leið í Hallgrímskirkju á tónleika með foreldrum mínum, svo ég renndi í Mosfellsbæinn og sótti þau, skilaði syninum heim til sín og svo héldum við á hæðina. Þá var komið myrkur, og hífandi rok þar uppfrá, sem kom ekki að sök inni í hlýrri og þéttsetinni kirkjunni. Við hlýddum andaktug á flutning Mótettukórsins o.fl. á tveimur sálumessum, eftir þá Ildebrando Pizzetti og Gabriel Fauré. Ég hef samt aldrei á ævinni verið eins syfjuð á tónleikum, af hverju sem það stafaði, þeytingnum um daginn eða hvort það var svona heitt í kirkjunni, því um leið og ég settist niður þar inni helltist yfir mig þvílík svefnhöfgi að ég hélt varla haus. Held nú samt að ég hafi ekki misst neitt úr í tónlistarflutningnum, sem var jafn frábær og við var að búast frá því góða listafólki sem að honum stóð, því það var bara líkaminn sem var að stríða mér og vildi fara að sofa, andinn var glaðvakandi.

100_04631

 

Afmælisbarnið í fangi móður sinnar, hennar Sibbu - eru þær ekki fallegar, mæðgurnar?

 lilja sif1

Þetta er stóra systir, Lilja Sif. Myndin er tekin við annað tækifæri; mig langaði bara að hafa hnátuna með í færslunni InLove

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Yndisleg lítil hnáta til hamingju með hana Gréta Björg mín.  Og það er alltaf sálarstyrkjandi að hlusta á góða músik og skoða fallegar myndir.  Þetta hefur sannarlega verið annasamur dagur í gær. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.11.2007 kl. 20:57

2 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Yndislegar stúlkur allar saman. 4,5 mörk?! það er ótrúlegt hvað lífið getur verið mikið kraftaverk og nú ári seinna er stúlkan pínulitla orðin svona stór og dásamleg  

ég vona að þú hafir svo getað hvílt þig í dag eftir jákvæðar og góðar annir gærdagsins.

Bestu kveðjur

Ragga 

Ragnhildur Jónsdóttir, 6.11.2007 kl. 00:09

3 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Takk Ragga mín, já ég svaf sko út í morgun, en svo fórum við vinkonurnar og skoðuðum Ásmundarsafn og Kjarvalssýninguna á Kjarvalsstöðum (það var búið að taka Eggert niður), því það var innifalið í miðanum í gær að fara á öllu 3 söfnin innan 3ja daga - sniðugt.

Greta Björg Úlfsdóttir, 6.11.2007 kl. 00:24

4 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Já, þetta eru fallegar stúlkur, ég bætti við tveimur myndum eftir að Ásthildur skrifaði kommentið sitt, vegna þess að mig langaði svo til að sýna ykkur líka mömmuna og stóru systurina.

Greta Björg Úlfsdóttir, 6.11.2007 kl. 00:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Greta Björg Úlfsdóttir
Greta Björg Úlfsdóttir

...hvað er bak við yztu sjónarrönd?

gretaulfs@gmail.com 

                                                                                                                                                           Injustice anywhere is a threat to justice everywhere. We are caught in an inescapable network of mutuality, tied in a single garment of destiny. Whatever affects one directly, affects all indirectly.

~ Martin Luther King, Jr.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.