Leita í fréttum mbl.is

Aðventa - og nám í frönsku!

adventukransÍ raun, samkvæmt hefðinni, byrja jólin ekki fyrr en að liðnu aðfangadagskvöldi, á miðnætti kl. 12, þegar komin er jólanóttin, eins og heiti dagsins 24. desember á íslensku ber með sér, það er að segja aðfangadagur. Það nafn ræðst trúi ég af því að á fyrri tímum var það sá dagur sem aðalundirbúningur jólanna fór fram, þó áður væri búið að undirbúa hann á margan hátt.

Þetta er í nokkurri mótsögn við það sem gerist nú á dögum, þegar æ ríkari áhersla er lögð á aðventuna sem tækifæri til að gleðjast, að því er sumum finnst á kostnað þeirrar eftirvæntingar sem við eldra fólkið tengjum við þann tíma. Og ef til vill á kostnað þess innri, andlega undirbúnings sem trúað, kristið fólk ætti að taka sér tíma til að sinna, með íhugun á merkingu þess fagnaðrríka atburðar sem það hefur efst á Topp-tíu lista sínum yfir tilgang jólanna, - svo ég beiti nú fyrir mig tungutaki eins stjórnarmanna Sammenntar, af öðru tilefni þó - fyrir mannkyn.

Orðið aðventa er sem kunnugt er komið úr latínu og er dregið af orðunum ad = forsetning sem felur í sér sem aðalmerkingu eitthvað sem fer fram á við, en um tíma til eða þangað til, og venio = so. sem merkir að koma. Aðventa (advent) þýðir því = tími þess sem koma mun. Ef ég fer hér rangt með vona ég að einhverjir meiri kunnáttumenn í latínu en ég sjái sér fært að leiðrétta það sem ég segi hér eða jafnvel bæta við það.

Gaman væri nú að dusta rykið af latínukunnáttunni frá í menntaskóla, sem hefði mátt vera betri þar sem áhuginn var meiri í frönskutímum hjá þeim madömum Vigdísi og Margaritu hinni sænsku, en í latínutímunum hjá Teiti Benediktssyni, sem var eftirminnilegur kennari og góður, þó einræðistilburða gætti í fasi hans við kennsluna og þá tækni sem hann notaði við hana. Enda lá við að liði yfir mig af undrun á munnlegu lokaprófi í latínu þegar hann brosti til mín sínu blíðasta brosi, ljúfur á manninn, og hækkaði ég um einn heilan frá vetrareinkun á því prófi, hvort sem það var nú þessum óvæntu elskulegheitum Teits að þakka, eða yfirlegu yfir latínuuppskrifum (sem tengjast þó ekki mat) nóttina áður að þakka.

Til dæmis hef ég gjörsamlega gleymt hvernig beygja skuli latneskar sagnir og treysti mér þess vegna ekki, sem sjá má hér áður, til að fara út í nánari útskýringar á sögninni venio. Nú sé ég líklega eftir að hafa látið renna til Góða Hirðisins áðurnefndar uppskriftir mínar (týperingar) úr latneskum ritum, sem ég taldi víst að einhver gæti ef til vill notfært sér frekar en ég nú á efri árum mínum.

ist2_2590252_french_christmasOg þó ekki, því þó svo þessari hugmynd skjóti upp í kollinum nú, þá verður hún vafalust vikin fyrir öðru eftir örskotsstund, svo fljúga tímar og hugmyndir hjá mér nú orðið. Sama má segja um frönsku, hana hef ég oft ætlað að taka mig á og læra betur, því það ergir mig að tala hana ekki eða skilja fullkomlega. Það eru víst mun meiri líkur á að ég láti verða af þeirri endurmenntun, heldur en að grúska í latínu, þar sem hæg ættu að vera heimtökin að dvelja um tíma í fyrirheitna landinu Frakklandi, þar sem franska er víst enn töluð, með enskum áhrifum þó, þar eins og annars staðar, þó landsmenn hafi varist þessari tungu fyrrum fjandmanna sinna í lengstu lög.

Frá aðventu yfir í tungumálanám, ef þetta má ekki kalla heilasópun (brainstorming) þá veit ég ekki hvað það (heimagerða) orð þýðir! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Greta Björg Úlfsdóttir
Greta Björg Úlfsdóttir

...hvað er bak við yztu sjónarrönd?

gretaulfs@gmail.com 

                                                                                                                                                           Injustice anywhere is a threat to justice everywhere. We are caught in an inescapable network of mutuality, tied in a single garment of destiny. Whatever affects one directly, affects all indirectly.

~ Martin Luther King, Jr.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.