Leita í fréttum mbl.is

Sirrý Geirs

sirry_geirs.jpgÉg var ekki ánægð með viðtalið sem Eva María tók við Sirrý Geirs, fegurðardrottningu Íslands árið 1959.  Eva var alltof aðgangshörð, hraðmælt og hvassyrt í þessu viðtali, hraunaði nánast yfir fegurðardrottninguna fyrrverandi (sem enn er glæsileg kona), sýndi henni virðingarleysi, ágang og ónærgætni, talaði niður til hennar og lá við að hún gerði grín að henni á köflum, fannst mér. Kynslóðabilið blasti við.

Sirrý er af þeirri kynslóð kvenna sem voru og eru, hvað sem aldri líður, Dömur með stóru d-i, Eva María er hress og kúl - þetta tvennt féll ekki saman svo að úr því yrði bitastætt viðtal. Eva María skautaði á léttum nótum og með hraða eldingar yfir óvenjulega og viðburðaríka ævi og feril viðmælandans, setti hann oftar en einu sinni í varnarstöðu með beinskeyttum spurningum sínum og athugasemdum og náði þess vegna engri stemningu eða trúnaði. Viðtalið minnti á stundum meira á einvígi með orðum, líkt og rætt væri við umdeildan stjórnmálamann, en það sem kynnt hefur verið í dagskrá sem notalegar samræður og svipmyndir af áhugaverðu fólki á sunnudagskvöldum. - Kannski hefur Eva María smitast af þeim æsingi og óróa sem nú ríkir í þjóðfélaginu og haldið að það væri hlutverk sitt að þjarma að viðmælandanum um hreinskilin svör við þeim léttvægu spurningum sem hún lagði fyrir hann? Æsingur hennar og ákafi gæti bent til þess.

Ég held að með annarri og afslappaðri aðferð hefði þetta getað orðið mjög fróðlegt viðtal um það hvernig heimurinn leit út þegar Sirrý lifði sína blómadaga í Bandaríkjunum og Austurlöndum fjær, séður með augum fegurðardrottningarinnar. Ég hefði viljað fá að heyra meiri lýsingar á því hvernig lífi hún lifði, hverja hún umgekkst og svo framvegis. Eva gaf viðmælandanum ekki færi á að svara nema mjög yfirborðslegum spurningum, sem hún virtist haf unnið upp úr gömlum kjaftasögum, rétt tæpti á málum og gaf viðmælandanum lítið ráðrúm til að svara, með óðagoti og framítökum. Sérstakega þar sem það kom fram í viðtalinu að Sirrý þjáist af astma og á þess vegna ef til vill ekki gott með að grípa orðin á lofti og henda þeim til baka í snarhasti. Mér fannst það gott hjá Sirrý þegar hún sagði við Evu, framarlega í viðtalinu: "Já, maður rölti auðvitað ekki um Vatnsmýrina, - það var svið...". Eins var það flott hjá henni þegar hún, fyrrum enskukennari, rak Evu Maríu á gat með orði sem hin síðarnefnda skildi ekki, það er að segja enska orðinu "nepotism", sem svar við nærgöngulu gaspri hennar um meint lauslæti leikkvenna, Sirrý það með taldri, virtist vera, í Hollywood.

Eva María virðist ekki hafa gefið Sirrý færi á að koma með gamlar myndir sem hún á í sínum fórum frá ferli sínum sem fegurðardrottning og sjónvarps- og kvikmyndaleikkona, sem hún sagðist eiga miklu betri í sínum fórum en þær sem sýndar voru í þættinum, máðar og óskýrar margar hverjar. Það var samt gaman að sjá brot úr þeim myndum sem hún hefur leikið í, þó Sirrý væri reyndar ekki fullkomlega sátt við valið á broti úr þeirri mynd þar sem hún sagðist hafa fengið tækifæri til að sýna raunverulegan leik. Hún fékk aldrei nein stór hlutverk, en það var (og er enn) samt óvenjulegt að íslensk kona hafi starfað í kvikmyndum vestanhafs, þó dæmin séu fleiri síðar (Anna Björns, María Ellingsen, Anita Briem, allar ljóskur eins og Sirrý!).

Eini ljósi punkturinn fannst mér þegar Eva María hvatti Sirrý til að svara þeim ljóta rógi sem dreift var um hana hér á landi og skemmdi fyrir henni eftir að hún flutti heim og fór að starfa við kennslu, auk þess sem hann hefur augljóslega sært hana djúpt. Mér fannst ógleymanlegt að heyra þessa fallegu, sjötugu konu segja í sjónvarpi allra landsmanna, þegar Eva María lagði fast að henni að svara fyrir sig og verja sig eftir öll þessi ár: "Ég stundaði aldrei vændi, - ég veit ekki hvað það er."

Í þessari Morgunblaðsgrein sem ég fann á netinu, þar sem aðeins er fjallað um Sirrý að hluta til, meðal annarra leikara, koma fram mun meiri upplýsingar um viðburðaríka ævi hennar en í öllum viðtalsþætti gærkvöldisins. Þar sést skýrt að af nógu efni var að taka fyrir þáttastjórnandann til að gera viðtalið áhugaverðara en raunin varð. Þetta var illa unnið viðtal af hálfu stjórnandans, og bar þess öll merki að hafa verið unnið í flaustri. Mér finnst, sem aðdáanda Sirrýar í barnæsku og einnig sem áhorfandi ríkisfjölmiðilsins, að fegurðardrottningin fyrrverandi hefði átt betra skilið en þessi vinnubrögð, fyrst hún á annað borð gaf kost á því að koma í viðtal.

Eva María, svona á ekki að taka viðtöl!

Á þessari síðu má lesa lauslega samantekt á ferli Sirrýar og eiginmanns hennar, þaðan er myndin, þar sem Sirrý auglýsir Kent-sígarettur í BNA árið 1961-62, einnig tekin: : old.sksiglo.is/page.php?25


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Greta mín.

Hún er myndarleg hún Sirrý. En ég sá ekki viðtalið við hana sem Eva María tók við hana. Því miður. En ég hef nú fylgst aðeins með Evu Maríu í sjónvarpinu og mér finnst hún nú yfirleitt sýna viðmælendum sínum virðingu og samgirni.

Hafðu það sem best í dag Greta mín.

Kv. Valgeir.

Valgeir Matthías Pálsson (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 07:39

2 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Já, Valgeir, það hefur mér yfirleitt fundist, þess vegna varð ég dálítið hissa. En kannski var það ég sem var eitthvað illa fyrirkölluð, það má vera.

Hafðu það líka gott, Valgeir minn.

Greta Björg Úlfsdóttir, 24.11.2008 kl. 11:18

3 Smámynd: molta

Æi, leitt að heyra að hún hafi fengið óblíða meðferð, ekki á hún það skilið.  Hún kenndi mér í Fjölbraut Suðurnesja og mér er hlýtt til hennar.

molta, 24.11.2008 kl. 11:19

4 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Mér fannst Eva María alla vega alltof gassaleg (er það orð ekki annars til?), því Sirrý er ekta, gamaldags Dama, og þeim þarf að mæta í samræmi við það ef meiningin er að fá viðtal sem eitthvað er varið í. Það fannst mér Eva María ekki skilja, hún tók viðtalið eins og hún væri að tala við til þess að gera unga manneskju í fullu fjöri. Þarna kom munurinn á kynslóðum berlega í ljós, fannst mér, því mér hefur yfirleitt hingað til fundist Eva María hin kurteisasta kona.

Greta Björg Úlfsdóttir, 24.11.2008 kl. 12:24

5 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Molta, kenndi hún ensku? Kannski sænsku líka?

Greta Björg Úlfsdóttir, 24.11.2008 kl. 12:25

6 Smámynd: molta

Kenndi mér ensku, man ekki eftir að hún kenndi annað á þessum tíma.

molta, 24.11.2008 kl. 14:35

7 Smámynd: Heidi Strand

Ég er sammála þér Greta. Þær voru ekki í takt.

Heidi Strand, 24.11.2008 kl. 19:39

8 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

duchessharp.jpgaristocat-marie.jpgEva María minnir mig oft á sætan og heimkæran kettling, en dálítið dómharðan og jafnvel öfundsjúkan lítinn kettling í þessum þætti. Mér hefur oft fundist hún vera við að bresta í mal í þessum viðtölum sínum. Það er að segja ef henni liggur ekki of mikið á og tekst vel upp. Hún náði ekkiað mala almennilega í þett sinn.

Sirrý hélt svip hertogafrúar-kattarins þáttinn út í gegn.

Greta Björg Úlfsdóttir, 25.11.2008 kl. 02:20

9 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

duchess-marie1.jpgÞarna fann ég svipinn sem ég hefði vilja sjá á þeim báðum allt viðtalið!

Greta Björg Úlfsdóttir, 25.11.2008 kl. 11:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Greta Björg Úlfsdóttir
Greta Björg Úlfsdóttir

...hvað er bak við yztu sjónarrönd?

gretaulfs@gmail.com 

                                                                                                                                                           Injustice anywhere is a threat to justice everywhere. We are caught in an inescapable network of mutuality, tied in a single garment of destiny. Whatever affects one directly, affects all indirectly.

~ Martin Luther King, Jr.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband