Leita í fréttum mbl.is

Trúfræðsla í grunnskólum

-Kynnist Kristinni sköpunartrú og skoði sjálfan sig, umhverfi sitt og samskipti við aðra í ljósi hennar – Kynnist frásögnum af fæðingu Jesú, lærieinfalda jólasálma og kynnist íslenskum jólasiðum – Kynnist sögum af bernsku Jesú og heyri um daglegt líf og aðstæður á hans dögum – Kynnist afstöðu Jesú til barna, m.a. með frásögunni Jesú blessar börnin – Fái tækifæri til leikrænnar tjáningar á atburðum úr biblíusögunum – Heimsæki kirkju og skoði helstu kirkjumuni – þekki tilefni páskanna – geri sér ljóst hvað bæn er og læri að þekkja Faðir vor, kvöld og morgunbænir – o.s.frv. ( tekið úr námskrá grunnskóla )

"Þetta er meðal þess sem kenna á í kristnifræði fyrir 1. bekk. Hér er að sjálfsögðu ekkert kristinboð á ferð eins og allir sjá."

Þetta sem stendur hér að ofan, á eftir því sem tekið er úr námsskrá grunnskóla, sagði Arnold nokkur í athugsemd við færslu sr. Baldurs Kristjánssonar í bloggi hans um þjóðkirkjuna og stöðu hennar. Dæmi nú hver sem vill.

Ég held að ég sé farin að skilja reiði trúleysingja út í kerfið betur við að lesa þessi atriði úr námsskránni. Hafði satt að segja ekki hugmynd um að það sem heitir trúfræðsla innan skóla næði til alls þessa. Sýnist þetta vera þó nokkur breyting frá þeim tíma sem ég var í barnaskóla (jú, það er langt síðan!). Að vísu las ég nú aldrei þá námsskrá sem mér var kennt eftir.

Auðvitað er minni mitt ekki óbrigðult eða altækt um uppfræðslu þess tíma almennt, þar sem bæði var að ég gekk í sveitaskóla og var einnig mjög sátt við þá kristinfræðikennslu sem ég fékk, sem fólst í að læra Biblíusögur og útskýringum kennarans á þeim. Engin Jesúleikrit þar, það var ekki fyrr en ég flutti til Reykjavíkur að ég varð svo fræg að fá að leika vitring í skólaleikriti. Minnist þess að vísu ekki að það hlutverk hafi mótað mig verulega. Að vísu lét hún Kristjana mín okkur, þessi 9-11 börn sem sóttum skólann hennar, fara með stutta bæn í upphafi skólastarfs hvern morgun, eða syngja einhvern söng, annað hvort af trúarlegum eða þjóðræknislegum toga. Ég held að við krakkarnir höfum ekki skaðast á nokkurn hátt af þessu, nema síður væri, og þetta hafi jafnvel hjálpað til við aga, að eiga svona stund að morgni til með kennaranum. Til dæmis held ég að sá nemanda hennar sem hvað mesta frægð hefur hlotið, Guðmundur Guðmundsson, Erró, hafi ekki látið trúfræðslu okkar góðu kennslukonu íþyngja sér um ævina. Hef alla tíð staðið í þeirri meiningu að þetta hafi verið eitthvað sem hún tók upp hjá sjálfri sér, en ekki farið eftir námsskrá, alla vega man ég að krakkar í öðrum sveitskóla sem ég sagði frá þessu urðu undrandi og könnuðust ekki við slíkt úr sínum skóla. En þau fengu nú heldur ekki að gera vinnubækur (sem var held ég úr námsskránni) og myndir til að klippa út og líma í þær, eins og Kristjana útvegaði okkur úr Reykjavík, heldur ekki að standa upp í tímum og gera teygjuæfingar, eins og hún lét okkur gera (sem var örugglega ekki í námsskrá, kannski var þó eitthvað um leikfimi þar, sem erfiðleikum gat reynst bundið að uppfylla af ríflega sextugum kennara úti í sveit).

Þarna austur á Kirkjubæjarklaustri ólst lítil stúlka upp í nánu sambýli við merkilegan hluta af íslenskri kirkjusögu - lék sér ofan á og gekk fram hjá daglega á leið í og úr skóla klausturrústunum sem þar er verið að grafa upp - og sr. Jón Steingrímsson var auðvitað sú hetja sem hæst bar í sögu héraðsins, ófá skiptin sem við fengum að heyra innfjálga lýsingu á eldprédikun hans, sem haft er fyrir satt að hafi varnað því að staðurinn færi undir hraun - hlustaði oft á samræður Gyðríðar Jónsdóttur, móður Jóns úr Seglbúðum, fyrrum þingmanns, við foreldra mína um aðaláhugamál hennar, sem var bygging kapellu á staðnum í minningu eldklerksins, sem henni tókst og að hrinda í farmkvæmd - ferðir út að stuðlabergsmynduninni austan við staðinn sem nefnd er Kirkjugólf í daglegu tali og við systurnar gerðum okkur að leik að þramma um og syngja: Svona gerum við þegar við göngum Kirkjugólf - Sönghellirinn, sem við klifruðum upp að, stóðum svo framan við syngjandi og þóttumst vera nunnur að syngja til aðvífandi munka sem sæjust koma ríðandi neðan úr Landbroti, - Systrastapi, sem ég hef ekki enn í dag orðið svo fræg að fara upp á, því þá var ég of ung, en í dag er ég of gömul (þung á mér), þar sem eru tvær þúfur, önnur grænkar á sumrin en hin ekki...

KirkjubaejarklausturFloor

En það var þá og nú eru breyttir tímar, þjóðfélagið hefur breyst og við verðum að horfast í augu við það. Verður lýðræðisríki ekki að taka tillit til allra trúhópa, eða þeirra sem eru engrar trúar, innan skólakerfisins - þó svo að við göngum ef til vill ekki eins langt og Frakkar, sem banna að börn beri á sér trúartákn innan skólanna - ? Held að enginn fari fram á slíkt hér á landi, enn sem komið er, heldur aðeins að börnin séu ekki uppfrædd að foreldrum þeirra forspurðum um það sem þeir telja uppspuna og hindurvitni.

Ég veit ekki síðan hvenær þessi námsskrá er sem þetta er tekið úr, en ég held að það sé vel tímabært að endurskoða sum af þessum atriðum sem talin eru upp að heyra skuli undir trúfræðslu, með tilliti til að gætt verði hlutleysis í trúmálum - að minnsta kosti tel ég að setja verði inn ákvæði um að leita þurfi eftir samþykki foreldra til að kennt verði eftir henni óbreyttri hvað varðar útlagningu sköpunarsögunnar, kennslu bæna og sálma og kirkjuferðir. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það getur svo sem verið réttlátt að hafa kristnifræðikennslu utann skóla .

En þar sem mér og öðrum varð aldrei meint af kristnifræðikennslunni í denn, skil ég ekki þetta fár um trúboð og heilaþvott í skólum eins og sumir kjósa að kalla það .

Fólk sem er með þennann ótta um að börnin þeirra séu í einhverri andlegri hættu í skólanum, er prestur kemur þar inn með Gideons nýjatestamennti undir hönd, á greinilega við einhvern sálrænann kvilla að stríða, og ætti að leita sér hjálpar sem fyrst .

conwoy (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 22:43

2 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

En hvað með alla kaþólikkana, conwoy, þeir eru kristnir líka...

Greta Björg Úlfsdóttir, 1.12.2007 kl. 22:44

3 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Tel mér skylt að benda á að þetta sem ég hafði eftir Arnold var meint sem kaldhæðni (ironia) af hans hálfu. Þetta benti hann mér vinsamlegast á í athugsemd hjá Baldri.

Stundum tek ég fólk of bókstaflega - ég hélt satt að segja að maðurinn væri einn af útsendurum Omega!

Greta Björg Úlfsdóttir, 1.12.2007 kl. 23:05

4 identicon

Nei Greta, þetta er allt mér að kenna. Þegar ég ætla að vera kaldhæðinn þá er ég bara allt of sannfærandi, ég þarf yfirleitt að leiðrétta þetta eftir á

Arnold Björnsson (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 23:14

5 identicon

Hæ mútta,

Eins og þú veist var ég sjálfur fyrir aldarfjórðung hjá kennara sem tók það upp hjá sjálfum sér að uppfræða bekk sinn um kristna trú. Björgvin gamla Jörgenssyni í Barnaskóla Akureyrar.

Hann vissi að þetta var (strax þá) ekki vel séð af fræðsluyfirvöldum, en var sama, enda lítið hægt að snerta við honum, gamalgrónum og vinsælum kennara til áratuga. Hann tók það enda fram í upphafi skólaárs að ef einhverjir (jafnvel þó við værum bara 10 ára krakkar) væru ósáttir við að vera í hans bekk, þyrftu þeir aðeins að biðja um það að verða færðir í annan, og það yrði gert. Aðeins einn eða tveir strákar tóku hann á orðinu, ekki útaf kristniboði hans heldur bara gamaldags "ströngum" kennsluháttum hans almennt.

Ég tel mig ekki hafa beðið neinn skaða af þessu. Kallinn kenndi þetta alræmda "kristilega siðgæði" og var að auki merkilegur gamall kall sem hafði frá mörgu að segja. Þó alls ekki sé hægt að kalla mig einhvern Krissmann Krossmann, hefur kannski eitthvað af boðskapnum  síast inn í mig

Eysteinn (IP-tala skráð) 2.12.2007 kl. 00:00

6 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Gaman að lesa þetta, Snati minn tullet.

Greta Björg Úlfsdóttir, 2.12.2007 kl. 00:42

7 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Heyrðu sonur sæll, hvað dettur þér annars í hug um að jólasveinninn sé hér að flækjast í athugasemdakerfinu mínu, því ég sé ekki betur en að þetta sé hann að ybba sig á myndum verndarfylgdarinnar (sem reyndar ætti að skrifast með einföldu vaffi) - hvar ætli hann geymi hreindýrin?

Greta Björg Úlfsdóttir, 2.12.2007 kl. 01:47

8 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

- var að skoða, nei þetta er ekki jólasveinninn, heldur eitthvert illfygli tekið að láni - það er hins vegar undarlegur andskoti að þjóðernissinni skuli skíra sig upp á ensku á bloggi sínu og nota meira að segja tvöfalt vaff - w - staf sem ekki er til í íslensku - í orði sem á að skrifast með einföldu vaffi - v - samkvæmt ensku skólaorðabókinni minni.

Greta Björg Úlfsdóttir, 2.12.2007 kl. 01:54

9 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

þ+u veist að þetta liggur þungt á sálu minni...ekki að Ísland skuli vera kristið, heldur hitt að trúarbrögð liggja í stjórnarskránni, eins og íRAN..

http://stefani.blog.is/blog/stefani/entry/380639/

ÞESSI fáránlega predikun var að birtast á blogginu..án möguleika að m+otmæla...eins og í Rússlandi Stalins...og Putins.. 

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 2.12.2007 kl. 02:03

10 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Anna, ég les þetta á morgun, því nú ætla ég að reyna að fara að drífa mig í bólið...það er meira hvað maður dettur í næturdroll í skammdeginu...mér sýnist mú reyndar á athugasemdinni þinni að þú vera orðin þreytt og syfjuð líka...

Annars skil ég betur að þér skuli vera órótt út af þessum tengslum kirkju og ríkis í stjórnarskránni, og með hroll gagnvart trúarbrögðum, í ljósi bakgrunnar þíns...allir hafa heyrt í fréttum um það sem gengið hefur á þarna suður frá, í nafni trúar og þjóðernis. Jæja, en núna...geisp......góða nótt, ljúfust

Greta Björg Úlfsdóttir, 2.12.2007 kl. 02:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Greta Björg Úlfsdóttir
Greta Björg Úlfsdóttir

...hvað er bak við yztu sjónarrönd?

gretaulfs@gmail.com 

                                                                                                                                                           Injustice anywhere is a threat to justice everywhere. We are caught in an inescapable network of mutuality, tied in a single garment of destiny. Whatever affects one directly, affects all indirectly.

~ Martin Luther King, Jr.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband