Leita í fréttum mbl.is

Virðingarleysi á báða bóga

Jólin nálgast - af hverju gefur Guð ekki aflimuðum nýja fætur?

Þetta er fyrirsögn nýlegs pistils eins af stjórnarmönnum Sammenntar, sem svo vill til að einnig er læknir.

Heldur finnst mér fyrirsögn pistilsins, þó þetta eigi víst að vera kerskni, svo mikið skil ég, fyrir neðan virðingu manns sem telur sig vera húmanista sem beri virðingu fyrir skoðunum og trúarbrögðum manna, þó hann sé ekki sammála þeim eða aðhyllist þær ekki. Og það mitt í þeirri orrahríð sem nú geisar. Sérstaklega þar sem hann kallar blogg sitt "málefnaleg umræða" (!)

Mér finnst fyrirsögn pistilsins, - alveg burtséð frá meiri hlutanum af innhaldi pistilsins, þar sem höfundur deilir á lífgæðakapphlaup okkar íslendinga, í takt við það sem ætlað er að vera kristið helgihald, - eiginlega fullkomlega  í stíl við fullyrðingar sumra sem álíta sig afskaplega kristna (þar á meðal biskup Íslands) um að trúlausir hyggist afnema bæði litlu jólin og þau stóru og páskana líka.

Munurinn er kannski sá, að minnsta kosti vona ég það, þar sem ég hef verið ötul við það undanfarið að taka upp hanskann fyrir þá sem utan þjóðkirkjunnar standa, að þetta á víst að vera grín hjá honum, en  kristnu blindingjunum er líklega alvara þegar þeir kasta slíkum spurningum fram í hneykslan sinni. - Vona ég þó að þetta grín sé sett fram í hugsunarleysi, en ekki hugsað sem einhvers konar "vendetta" gegn þeim kristnum sem ekki hafa samþykkt skoðanir Sammenntar umyrðalaust.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Einhversstaðar þarna í fínni línu milli öfgana liggur sannleikurinn.  Ef við gætum nú fyllt upp í gapið þar á milli með kærleika og alheimsljósi væri heimurinn ögn betri. 

Það má ekki á milli sjá, þó held ég að það halli frekar á kirkjunnar menn, því miður, því þeir hafa eignað sér umburðarlyndið, kærleikann og sannleikann, kalla það kristilegt hugarfar og kristinn gildi. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.12.2007 kl. 09:48

2 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Tek fullkomlega undir orð þín, þú orðar þetta afskaplega vel, Ásthildur. Auk þess sem evangelísk-lúterska kirkjan nýtur verndar og styrks ríkisins; að því leyti verður að telja að halli á þá sem frekar virðist mega líta á eftir málflutningi sem þessum sem andstæðinga hennar heldur en gagnrýnendur.

Verð að viðurkenna að gjarnan hefði ég viljað sjá fleiri athugasemdir við þessa færslu; kannski er ekki að marka það ennþá, þar sem í dag er virkur dagur og fólk sinnir starfi sínu. 

Greta Björg Úlfsdóttir, 3.12.2007 kl. 13:46

3 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

En að vísu tel ég að húmanistar eigni sér líka umburðarlyndið, þó þeir minnist hvergi á kærleikann og ætli sér held ég ekki þá dul að vita einir hinn stóra sannleika.

Greta Björg Úlfsdóttir, 3.12.2007 kl. 13:47

4 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

...nema kannski læknirinn sem semur fyrirsögnina sem ég gagnrýni hér að ofan...

...en nú er ég farin að fylla sjálf upp í mitt athugasemdakerfi...

Greta Björg Úlfsdóttir, 3.12.2007 kl. 13:50

5 identicon

Sæl og blessuð Gréta Björk. Ég er ein af þessum "öfgakristnu" eins og við erum kölluð hér á blogginu. Viltu ekki lesa athugasemdirnar mínar á blogginu hans Svans, áður en þú setur okkur öll "öfgakristnu" í sama hóp sem kristna blindingja. Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteindóttir (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 14:11

6 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Rósa, því er stuttu máli fljótsvarað hvers vegna ég kalla suma kristna menn blindingja. Ef þú lest athugasemd númer 84 í blogginu hans Baldurs Kristjánssonar skilur þú hvað ég á við.

Ég skal fara og lesa ummæli þín, Rósa, og reyna að gera mér grein fyrir því  hvort ég álíti þig þurfa á hjálp sjóntækjafræðings að halda eða ekki. Annars vil ég taka það fram fyrirfram að ég er lítið fyrir og vil reyndar forðast að draga fólk sem slíkt í afmarkaða bása og setja á það merkimiða eftir skoðun og trú, þó svo ég hafi talið mig nauðbeygða til þess í tilviki biskupsins, þar sem þessi yfirmaður evangelísk-lútersku kirkjunnar á Íslandi olli mér þvílíkum vonbrigðum sem ég hef lýst. En auðvitað ber mér ekki einu sinni að dæma og stimpla slíkan mann, þó voldugur verði að teljast í andlegum málefnum þjóðarinnar, þar sem hann er líka dauðlegur maður og undir regluverk almættisins settur, eins og við hin.

Greta Björg Úlfsdóttir, 3.12.2007 kl. 14:39

7 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Annars vil ég segja þér að þessi orð mín um blindingja eru ekki dregin af ályktun minni af því að lesa þessar eintöku umræður, - vegna þess einfaldlega að því nennti ég ekki -, heldur er þetta ályktun mín af því lestri og hlustun almennt á því sem þeir sem ég vil kalla öfgatrúar, og það hverrar trúar sem er (kristni, íslam, gyðingdómur o.s.frv.) bera á borð fyrir okkur.

Ef þú skoðar ummæli mín í bloggi Svans, þá sérð þú að ég geri ekki athugasemdir við þá umræðu sem er þar á undan, aðeins hans sjálfs í upphafsorðum (færslunni) og skammast mín þess vegna ekkert fyrir að viðurkenna að hafa ekki nennt að lesa athugasemdir annarra, þar sem samkvæmt minni fyrri reynslu af lestri slíks er því miður tæplega þar að vænta upplýstrar og einlægrar umræðu (sem samt sem áður skortir sárlega um þetta efni og ég vil, líkt og Toshiki Toma, auglýsa eftir) , heldur aðeins sandkassaslags illa sjáandi leikskólabarna á vettvangi hins andlega lífs. 

*Og, púff, þetta var ansi löng setning, en vonandi skiljanleg samt sem áður.

Greta Björg Úlfsdóttir, 3.12.2007 kl. 14:52

8 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

*fólk sem slíkt=þá á ég auðvitað við einstaklinga sem slíka

Greta Björg Úlfsdóttir, 3.12.2007 kl. 14:54

9 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

eintöku umræður=einstöku umræður - púkinn leiðréttir víst ekki allt fyrir mann

(Oft þori ég ekki annað en að leiðrétta strax alls kyns mistök sem ég geri í innslætti og framsetning, þar sem í eldfimri og oft og tíðum vanþróaðri umræðu virðist manni alltaf vera sú hætta fyrir hendi að menn grípi orð manns á lofti og snúi út úr minnstu missögn eða mistökum. En kannski er þetta ástæðulaus ótti, vonandi les fólk þá stafi sem vantar inn í inn í orð mín, held að slíkt valdi ekki misskilningi, þó vissulega megi segja að það eigi við um helgustu rit kristinna manna - er ég ekki þar með að líkja mínum skrifum við þau! ).

Greta Björg Úlfsdóttir, 3.12.2007 kl. 15:03

10 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Oft virðist mér nefnilega að ég sé svolítið lesblind - sem er þó hjóm hjá því að vera andlega blindur, - sem ég tel mig ekki vera, þó svo að enn sjái ég sem í skuggsjá og eigi alveg örugglega mjög langt í að öðlast fulla sjón.

Greta Björg Úlfsdóttir, 3.12.2007 kl. 15:05

11 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Og nú er ég farin að gera það sem ég sagðist hér fyrr ekki ætla að gera - að blogga í mínu eigin athugasemdakerfi! Svo bregðast...o.s.frv. segir máltækið

Greta Björg Úlfsdóttir, 3.12.2007 kl. 15:07

12 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Rósa mín elskuleg, fór inn á umræðuna sem þú bendir á og gerði heiðarlega tilraun til að lesa hana, en þar sem hún er svo viðamikil, eða upp á heilar 140 athugasemdir með mínum eigin í lokin, gafst ég upp þegar ég var komin að þeirri 19du, þar sem ég sá fram á að það myndi taka mig það sem eftir væri dagsins að fara yfir þetta allt, því óhjákvæmilega held ég að ekki verði komist hjá því að lesa þínar athugasemdir í samhengi við aðrar. Það er alltaf erfiðara að ætla sér að lesa svona umræðu eftir á en hafi maður fylgst með henni frá upphafi.

Það tafði mig þó vitanlega að strax á 19du athugasemdinni rakst ég á ummæli sem voru í mínum trúaða huga svo broslega barnalega að mig langaði samstundi til að gera athugsemd við hana (þó oftast leiði ég nú reyndar slíkt einfaldlega hjá mér)! Sem ég og lét eftir mér. En í ljósi þessa gaf ég síðan þá fyrirætlun að lesa alla umræðuna upp á bátinn, vegna þess sem ég sagði hér að ofan. Það liggur nefnilega allur aðventuundirbúningur niðri hjá mér vegna mikillar þátttöku minnar í umræðum hér undanfarna daga (ekki að hann sé nú stórfenglegur í sniðum hjá einbúa eins og mér!).

En af því sem ég las af athugasemdum þínum ræð ég að þú er ákaflega kærleiksrík kona, í kristnum anda, og vilt gjarnan miðla þeim kærleika til annarra. Meinið er hins vegar það að ekki eru allir reiðubúnir að veita kærleikanum viðtöku í þeim anda, þar sem þeir leggja ekki trúnað á kristilegan kærleika sem slíkan (sem er rökrétt, þar sem þeir trúa ekki kenningum kristninnar). Sem er auðvitað að vissu marki rétt hjá þeim, þar sem kærleiksríkt hugarfar einskorðast ekki við kristið fólk. Því ég tel að margir, ef ekki flestir, sem telja sig trúlausa, viðurkenni tilvist kærleikans sem jákvæðs afls í mannlegum samskipum.

Einhvern tíma reyndi ég að skilgreina mína sýn á kærleikann svona: Kærleikurinn er aflið sem neistar frá manni til manns og gerir þeim fært að afbera mannlega tilveru.

Með bestu kveðjum og óskum

Greta Björg Úlfsdóttir, 3.12.2007 kl. 16:42

13 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

aðventuundirbúningur=undirbúningur á tíma aðventunnar (þess sem koma mun)=jólaundirbúningur. Jólin byrja að kvöldi 24. desember, ekki meðan við bíðum þeirra og væntum komu þeirra.

Greta Björg Úlfsdóttir, 3.12.2007 kl. 17:07

14 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Gréta mín, Svanur er þarna að vitna beint í mjög þekkta umræðu og ef ég man rétt er linkur inn á hana.

Gleðileg Jól.

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 3.12.2007 kl. 18:32

15 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Anna, ég hef svo sem heyrt trúleysingja, mjög sennilega þar á meðal þig, varpa fram þessari spurningu - og fleirum á þessum nótum, sem sé: Af hverju leysir Guð ekki öll heimsins vandamál á einu bretti með einu allsherjar kraftaverki?

Ódýr og barnaleg tilraun til að afgreiða kristna sem ómerkinga, þykir mér. 

Ég stend við það að mér finnst ósmekklegt, eða alla vega óskynsamlegt, af stjórnarmanni Siðmenntar að setja þessa setningu sem fyrirsögn í færslu á bloggi sínu, þó það hafi sennilega bara átt að vera grín um kristna trú. Verð að viðurkenna að ég fatta ekki alveg það grín, ef hann ætlar með þessu, eins og þú virðist vilja meina, að gera grín með því að vísa til spurninga annarra trúleysingja? Því þá fer ég alveg í hring með þetta.

Það sem stendur í þessari fyrirsögn verkar nefnilega líkt á mig og sá málflutningur þjóðkirkjunnar að Siðmennt vilji leggja niður allt jólahald - þó málið sé það, að þeirra sögn (sem ég treysti) að þeir vilja aðeins leggja niður jólahald að kristnum sið innan veggja skólanna. (Eru þessir hlutir ekki líka spurning um gagnkvæmt traust?)

Litlu jólin - framkvæmd í trúfrjálsum skóla 

Ég held satt að segja, í einfeldni minni, að það hljóti að vera hægt að fara bil beggja í þessum efnum, koma til móts við þá sem ekki vilja leikrit um Jesúbarnið í skólastofum, og þá sem vilja að andi þess sama barns fái að svífa þar yfir vötnum í formi gleði, kærleika og umburðarlyndis.

Held varla að það geti talist innræting, og að trúleysingjar séu það hörundsárir að þeir gætu ekki umborið að blessuð börnin fengju að syngja "Bjart er yfir Betlehem", "Heims um ból" eða "Í Betlehem er barn oss fætt" á einhverjum tímapunkti; þeirra börn þyrftu ekki að taka undir, og gætu það mjög sennilega heldur ekki, þar sem þeim hafa að öllum líkindum ekki verið kenndir textarnir heima hjá sér, og bannað væri að kenna þeim þá. Það væri náttúrlega hægt að láta sér sárna slíkt, en ég held að jafnvel komi þær stundir í lífi barna kristinna foreldra að þau verði að læra að láta eitthvað á móti sér og sýna náunganum umburðarlyndi.

Ætli bæði kristnir og trúlausir gætu ekki líka orðið sáttir um heimsókn jólasveinsins, þó hann sé ef út í það er farið bara skröksaga, sem hvorugur hópurinn leggur trúnað á, að minnsta kosti ekki nema einstaka góðhjörtuð sál. Að minnsta kosti hef ég aldrei trúað því að hann væri til, og þótti hann meira að segja heimskulegur og ekkert skemmtilegur á jólaböllunum. 

Jólin koma - af hverju vilja trúleysingjar leggja niður eina grundvöll almenns siðgæðis í landinu? 

Hvað gætir þú hugsað þér að þú myndir segja við slíkri fyrirsögn, ef þjóðkirkjuprestur setti slíka fyrirsögn á blogg sitt um jólin, sem grín um trúleysingja?

Greta Björg Úlfsdóttir, 3.12.2007 kl. 19:57

16 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Þetta ætlaði ég víst að láta standa þarna líka - kannski bý ég bara til færslu úr þessu, sé til:

Ætli sunnudagaskólarnir séu ekki fullfærir um að standa fyrir leiklistarstarfsemi á aðventunni, að minnsta kosti saknaði ég þess ekki þó ekki væru sett upp jólaleikrit í mínum skóla þegar ég var lítil, mér nægðu lítil jól með leikjum og söng. 

Því mín skoðun er sú að eina leiðin til að ná samkomulagi  sé að leita eftir skynsamlegum málamiðlunum - og láta síðan gilda þá reglu - að tala og þegja síðan - þangað til um næstu jól - í nafni kærleika og friðar - svo jólunum verði ekki spillt fyrir börnunum, því það held ég ekki að neinn vilji.

Greta Björg Úlfsdóttir, 3.12.2007 kl. 20:05

17 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Sömuleiðis...

Gleðileg jól, Anna mín

(þó ég segi þetta nú vanalega ekki fyrr en jólin eru alveg að koma...)

Greta Björg Úlfsdóttir, 3.12.2007 kl. 20:09

18 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Gréta ég er skráð utan trúfélaga, en er svo sannarlega ekki trúlaus. Það kemur þó málinu ekki við.  Vildi bara benda þér á að þessi umræða er mjög heit, ekki bara á 'islandi. Ef þú átt við í fyrirsögn biskups...sjá ofar...þá er þetta mjög nálægt því sem hann sagði, endurtek, mjög nálægt, en alls ekki satt. Grunndvöllur almenns siðgæðis liggur ekki í Jólum eða kristni...en held þú vitir það alveg.  Kannski er þetta allt saman óviðeygandi...bæði af Svani og biskup...en það hlaut að koma að einhverri umræðu og rökræðu.  Mér finnst persónulega af hinu góða að íslendingar spyrja sig um trú sína og siðferði...finnst þér það ekki?

Gleðileg Jól og aðventu!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 3.12.2007 kl. 20:27

19 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Eins og þú sérð ef þú lest færslurnar tvær, um fyrirsögn Svavars og hina sem er með fyrirsögnina um Topp tíu rangfærslur, þá ég alls ekki sátt við hvernig biskupinn tekur á þessu máli. Hef ekki lesið mikið eftir Svan, en hjó eftir þessari fyrirsögn, sem ég hef þegar tjáð mig um, þetta er þó bara lítið brot af umræðunni. Vildi bara leiða fram og minna á að sérstaklega þeir sem leiða baráttu fyrir mannréttindum mega hvika frá málefnalegum efnistökum. Hefði sennilega ekki kippt mér upp við þessa fyrirsögn hefði hún verið einhvers annars, eins og ég hugsa að ég hafði látið mér orð annarra en biskups í þeim dúr sem hann talaði í léttara rúmi liggja. En mér finnst að þeir sem standa í forystu verði að gæta þess að vanda framgang sinn í hvívetna, ef vel á að vera.

Ég er hjartanlega sammála þér um það að það sé gott að Íslendingar spyrji sig um trú sína og siðferði í auknum mæli, eins og þú sérð ef þú lest skrif mín hér og annars staðar, einnig um það að  hlaut að koma að því að hæfist umræða um þessi mál, sem satt að segja hafa legið í láginni hjá þjóðinni í langan tíma, þangað til núna á allra síðustu árum.

Hin ömurlega staðreynd er samt því miður sú og dragbítur á alla umræðu, að það virðist svo sorglega fjarri mörgum Íslendingum að kunna að rökræða, halda sig við að vera málefnalegir, en leiðast ekki út í nöldur og skítkast. Um þetta getur þú fundið ótal dæmi ef þú skoðar umræðurnar um trúmál og margt fleira hér á blogginu, sem og annars staðar, en ég held að hér opinberast þessi leiðinlega hlið á lundarfari (eða á ég að kalla það sveitamennsku, þó slíkt sé reyndar móðgun við það gegnumtrausta sveitafólk sem ég hef kynnst um dagana, Danir tala um Molbúahátt, því Jótar og sérstaklega Molbúar eru þeirra sveitavargur) landa minna hvað glögglegast.

En kannski fer þetta eitthvað að breytast, við skulum vona það. 

Greta Björg Úlfsdóttir, 3.12.2007 kl. 21:03

20 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ekki Svavars, heldur Svans.

Var áðan inni á bloggi Svavars prests, þess vegna sennilega þessi villa. 

mega hvergi hvika 

Greta Björg Úlfsdóttir, 3.12.2007 kl. 21:06

21 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ástand mála í heiminum leiðir það vitanlega af sér að hvarvetna verður þessi umræða heit, ástandið á Balkan, dreifing átrúenda íslam um heimsbyggðina osfrv.

Greta Björg Úlfsdóttir, 3.12.2007 kl. 21:09

22 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

já ég þekki sjálf ástandið á balkan náið og hræðist einstefnu islamistanna...er viss um að eina svarið er og verður rökræða...án persónulegra skítkasta, þótt heit sé!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 3.12.2007 kl. 21:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Greta Björg Úlfsdóttir
Greta Björg Úlfsdóttir

...hvað er bak við yztu sjónarrönd?

gretaulfs@gmail.com 

                                                                                                                                                           Injustice anywhere is a threat to justice everywhere. We are caught in an inescapable network of mutuality, tied in a single garment of destiny. Whatever affects one directly, affects all indirectly.

~ Martin Luther King, Jr.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband