Leita í fréttum mbl.is

Húmanisti

Í hugum flestra Íslendinga hefur orðið "húmanisti" mjög jákvæða merkingu. Flestir telja, held ég, að það merki mann/konu sem er umhugað um rétt annarra manna, óháð trúarbrögðum.

Þegar ég las fyrst stefnuskrá samtakanna Siðmenntar, sem kenna sig við húmanisma fannst mér hún hljóma vel og leist vel á.

Síðan hefur komið babb í bátinn. Því samkvæmt upplýsingum sem ég hef lesið síðan leggja húmanistarnir í Siðmennt mun þrengri skilning í orðið "húmanisti" en gert hefur verið hér á landi hingað til.

Flestir hér á landi hugsa fyrst um hugtakið húmanismi þegar þeir heyra eða lesa þetta orð, og álíta að húmanisti sé einfaldlega orð sem sé leitt út frá því hugtaki, það er að segja, sé haft um þann sem aðhyllist húmaníska stefnu og ástundar hana. Sem verður að teljast einföld skýring, glögg og gegnsæ og samkvæm venjulegri málnotkun.

Það sem Siðmenntarfólk er hins vegar fyrst og fremst með í huga þegar það talar um húmanista eru samtök húmanista, manna sem deila sömu hugmyndum um manngildi. Þó þeir viðurkenni að aðrir geti unnið verk í anda húmanismans.

(Hvaðan hugmyndir manna um slík manngildi eru ættaðar skal ég láta ósagt, enda er flóknara viðfangsefni að gera sér grein fyrir því en svo að því verði gerð skil í bloggfærslu á moggablogginu)

Ég tel óhætt að fullyrða að margar hugmyndir innan trúarbragðanna eiga fyllilega samleið með húmanismanum, sem stefnu. Fullyrða má að margir trúaðir einstaklingar telja sér sóma að því að starfa innan mannúðar (humanitarian) samtaka sem byggja starf sitt á hugmyndum húmanisma (ekki húmanistasamtaka), þó starf þeirra (samtakanna) byggi ekki á trúarlegum grunni. Mér er fyrirmunað að sjá að slíkt geti verið annað en vel samrýmanlegt hugmyndum kristins manns um trú sína.

Sennilega kynnu fáir strangtrúaðir vel við sig innan formlegra húmanistasamtaka, samtaka sem starfa sem slík (ekki með það að markmiði að sinna verkefnum í anda húmanisma), og myndu þeir sennilega telja þær hugmyndir sem þar eru viðraðar stangast á við margt í trú sinni. Samtök kristinna húmanista eru þó til. Sennilega eru þeir sem innan þeirra eru ekki taldir sannir húmanistar af þeim sem vilja nota orðið húmanisti aðeins samkvæmt skilgreiningu IHEU, alþjóðasamtaka húmanista.

Margir frjálslyndir trúmenn láta þó slíka skilgreiningu ekki aftra sér frá að starfa innan samtaka húmanista, enda reyna þeir yfirleitt ekki að þvinga trúahugmyndum sínum upp á annað fólk. Má sem dæmi nefna Kurt Vonnegut, rithöfund, sem var meðlimur (og heiðursforseti) American Humanist Association (ASA), sem er meðlimur í IHEU, samt sem áður er margt haft eftir honum sem bendir til að hann hafi trúað á tilvist æðri máttar. Rithöfundurinn Isaac Asimov var um árabil (1985-92) forseti samtakanna. Asimov leit fyrst og fremst á sig sem húmanista. Hann skipti sér ekki af trúarhugmyndum annarra, að öðru leyti en að vara við því að menn blönduðu saman vísindum og hjátrú.

Skilgreining AHA á húmanisma

The AHA's definition from its website: "Humanism is a progressive lifestance that, without supernaturalism, affirms our ability and responsibility to lead ethical lives of personal fulfillment that aspire to the greater good of humanity. - Humanism and Its Aspirations"

 Meginskilgreining IHEU á orðinu húmanismi:

"Humanism is a democratic and ethical life stance, which affirms that human beings have the right and responsibility to give meaning and shape to their own lives. It stands for the building of a more humane society through an ethic based on human and other natural values in the spirit of reason and free inquiry through human capabilities. It is not theistic, and it does not accept supernatural views of reality. See also the Amsterdam Declaration."

Skilgreing alþjóðasamtaka húmanista, International Humanist and Ethical Union (IHEU) á húmanisma nær eingöngu til veraldlegra þátta. Hvergi er minnst á trúarbrögð (religion) í þeirri skilgreiningu, aðeins er sagt að húmanismi sé ekki byggður á trúarlegum (theisitic=trú á guð/i) grunni og viðurkenni ekki "yfirnáttúruleg " (supernatural) viðhorf til veruleikans.

Þetta segir mér alls ekki að húmanismi sé trúlaus stefna, eins og stjórnarmaðurinn Svanur Sigurbjörnsson í samtökunum Siðmennt heldur fram. Skilgreining Siðmenntarfólks á því hvað felist í hugtakinu "húmanismi" virðist mér vera mun þrengri en alheimssamtakanna, sem þeir bera þó gjarnan fyrir sig. Þannig virðast þeir alfarið túlka orðin "it is not theistic" sem svo að til þess að geta kallast sannur húmanisti verði einstaklingur að vera trúlaus (athesist).

Eins og ég skil þessi orð þá rúmast innan skilgreiningarinnar fólk af allri trú, þar sem húmanismi byggist alls ekki á trúarlegum grundvelli. Þar með skil ég hana einnig svo að svo framarlega sem fólk boði ekki trú í nafni húmanisma (t.d. innan samtaka húmanista) geti það kallast sannir húmanistar.

Þarna skilur greinilega mikið á milli í skilningi (ath. viðbót 6/1 kl. 1:05 - milli skilnings míns, Siðmenntar og e.t.v. IHEU)

Með þessari þröngu skilgreiningu sinni á skilgreiningu IHEU tel ég Siðmennt, undirfélag þeirra, vera að eigna sér heitið húmanisti.

Þessa þröngu skilgreiningu þeirra get ég alls ekki fallist á.

Vegna þess að: Það að vera húmanisti hefur ekkert með trú að gera.

Maður þarf hvorki að vera kristinn, búddisti, ásatrúar eða trúlaus til að geta verið húmanisti.

Maður er einfaldlega húmanisti með því að vera ófrávíkjanlega trúr hugsjóninni um jafnan rétt allra manna. Skilyrðin eru ekki önnur, til eða frá.

Húmanista má kalla trúlausa í þeim skilningi að þeir boða ekki trú, heldur láta hana algjörlega liggja milli hluta. Húmanistar starfa alfarið á veraldlegum grunni og láta verkin tala. Það er ekki það sama og að vera trúlaus (atheist). Einu húmanistarnir sem gera trú eða trúleysi að skilyrði fyrir því að geta talist húmanisti eru samtök kristilegra og trúlausra húmanista.

Að gamni mínu ætla ég að setja hér grein af vefsíðu IHUE, og athugasemdir við hana, sem sýnir að glögglega að enginn er óskeikull, ekki einu sinni þeir sem skrifa greinar á þessa vefsíðu.

*Athugsemd kl. 01:34:

"Þetta segir mér alls ekki að húmanismi sé trúlaus stefna, eins og stjórnarmaðurinn Svanur Sigurbjörnsson í samtökunum Siðmennt heldur fram."

Ég sé að þarna fór ég fram úr sjálfri mér og ætla hér með að éta ofan í mig þessi orð um að húmanismi sé ekki trúlaus stefna. Því auðvitað er húmanisminn fyrst og fremst trúlaus stefna, í þeim skilningi að sú stefna er algjörlega hlutlaus (ekki atheist) þegar kemur að trúarbrögðum.

Sem þýðir samt ekki endilega það að þeir einstaklingar sem aðhyllast húmanisma verði einnig að vera trúlausir, svo erfitt sem það virðist fyrir trúleysingja að skilja það. Heldur aðeins að trúaðir húmanistar verði að gæta fullkomins hlutleysis þegar kemur að úrlausn vandamála. Sem auðvitað getur, hugsanlega, reynst hinum trúaða erfiðara en hinum vantrúaða, þegar á hólminn er komið.

Og þó ekki, ef hinn trúaði er trúaður á alheimsvísu, eins og þeir mætu menn Einstein, Vonnegut og fleiri gáfumenn. (Og meðlimir úr söfnuði Unitarista komu til dæmis að stofnun ASA.)

Það var auðvitað þetta sem ég átti við þegar ég sagði að húmanismi væri ekki trúlaus (atheist), eða það sama og trúleysi. Rétt eins og húmanismi er ekki það sama og kristni, búddismi, ásatrú, o.s.frv.  

Fyrir þá sem halda því fram að íslensk tunga eigi orð yfir allt, þá er þetta sem hér fer á undan glöggt dæmi um að svo er alls ekki, þegar hugtakaruglingur er slíkur að maður lendir í mótsögn við sjálfan sig ! Undecided

Að lokum:

Í leitinni að setningunni sem ég sá í gær á Wikipediu um að únitaristar hefðu komið að stofnun ASA, eða öðrum heimildum um það, rakst ég á eftirfarandi brandara á síðu um unitarian universalism. Ég stenst ekki mátið að skella honum hér:

 A Unitarian Universalist dies, and on the way to the afterlife encounters a fork in the road with two options: "to heaven" and "to a discussion of heaven." Without pausing, the UU heads right to the discussion of heaven. LoL


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Ég hef aldrei spáð í hvað er að vera húmanisti..en einu sinni skráðum við okkur í Siðmennt, Bjössi var að spá í "ferminguna" hjá þeim en hætti svo við. Hann og Hjalti vildu ekki fermast í kirkjunni.

Ragnheiður , 5.1.2008 kl. 15:41

2 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Þórdís,

Ég aðhyllist líka húmanisma, eins og ég skil hann, en alls ekki samkvæmt skilningi Siðmenntar á hugtakinu, það er að segja að til þess að geta í sannleika kallast húmanisti verði maður að vera trúlaus. Það finnst mér mjög barnaleg og einstrengingsleg afstaða. Ekki síður en afstaða margra trúmanna til þess hverjir geti talist kristnir, eða ekki.

Greta Björg Úlfsdóttir, 5.1.2008 kl. 16:05

3 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ég er líka upptekin á eftir og get ekki "umræðst" um þetta efni strax.

Greta Björg Úlfsdóttir, 5.1.2008 kl. 16:05

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Gréta Björg

Ég sé að þú ert nú búin að kynna þér málin betur og virðist skilja það sem ég skrifaði þó að þú sért ekki sammála skilgreiningu minni.  Ég útskýri afstöðu mína á bloggi mínu í dag og í athugasemd við fyrri grein þinni um þetta mál hér.

Það er sláandi að þú vilt telja trúaða sem húmanista þrátt fyrir að í skilgreiningu IHEU sé sagt skýrt: "It is not theistic, and it does not accept supernatural views of reality."  Svo segirðu:

Eins og ég skil þessi orð þá rúmast innan skilgreiningarinnar fólk af allri trú, þar sem húmanismi byggist alls ekki á trúarlegum grundvelli. Þar með skil ég hana einnig svo að svo framarlega sem fólk boði ekki trú í nafni húmanisma (t.d. innan samtaka húmanista) geti það kallast sannir húmanistar. Þarna skilur greinilega mikið á milli í skilningi.

Hér ert þú í raun að rugla saman veraldarhyggju (secularisma) við húmanisma nútímans.  Lýsing þín passar við veraldarhyggjuna en ekki sannan húmanisma.  Fólk getur verið veraldarsinnað (aðskilja trú frá ríki og menntun og fleiri sameiginlegum vettvangi) og kallast veraldarsinnar (secularists) þó að það sé trúað.  Fyrr á öldum voru ýmsir veraldarsinnar kirkjunnar menn því þeir vildu ekki afskipti stjórnmálamanna (eða ríkisins) af skipulagi kirkju þeirra.  Þannig var það skoðun þeirra að aðskilnaður ríkis og kirkju (trúar) væri bæði þeim og trúlausum lífsskoðunum til góða.

Húmanisminn inniheldur ekki trú á hindurvitni og guðstrú er ein á meðal þeirra.  Það er ekki rétt að taka inn guðstrú en hafna öðrum hindurvitnum.   Það væri ósamkvæmi.  Ég hef hins vegar séð á skrifum þínum í fyrri grein þinni að þú telur ekki trú vera hindurvitni.  Það er því ekki furða að þú skilgreinir húmanisma á annan veg en ég, Siðmennt og IHEU. 

Svanur Sigurbjörnsson, 5.1.2008 kl. 17:00

5 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Tilvitnunin hér að ofan átti að vera inndregin svona

Eins og ég skil þessi orð þá rúmast innan skilgreiningarinnar fólk af allri trú, þar sem húmanismi byggist alls ekki á trúarlegum grundvelli. Þar með skil ég hana einnig svo að svo framarlega sem fólk boði ekki trú í nafni húmanisma (t.d. innan samtaka húmanista) geti það kallast sannir húmanistar. Þarna skilur greinilega mikið á milli í skilningi.

Svanur Sigurbjörnsson, 5.1.2008 kl. 17:01

6 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Greta, ég held að þú hafir náð í rétta endann á húmanismanum. Enginn á einkarétt á honum. Trú er engin hindrun og Siðmennt hefur engan einkarétt á þessu hugtaki.

Ég hélt líka að menn væru búnir að sjá fyrir löngu að sumir "ismar" eru bara orður sem menn hengja á sig til að geta neglt aðra á kross og aðrir "ismar" eru brenndir á enni þeirra sem maður er ósammála. Í dag var ég t.d. stimplaður sem rasisti af náunga sem ég tel víst að sé "sannur húmanisti". Hann hafði horft á sjónvarpsmynd frá Noregi og var þess vegna á því að staða kvenna í Íran væri ekki eins váleg og ég tel. Ég sendi honum þetta myndskeið http://yalibnan.com/site/tv/2007/05/woman_arrested_by_police_in_ir.php til að sýna honum að húmanisminn er svo sannarlega enn við lýði í Íran.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 5.1.2008 kl. 19:26

7 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Svanur, mér sýnist þú álíta þetta vera svona einfalt:

Húmanismi byggist á hugmyndum um manngildi, ekki trú (hindurvitnum).

  • Trúað fólk sem hefur manngildishugsjón í heiðri er veraldarsinnað (secularistar).
  • Trúlaust fólk sem hefur manngildishugsjón í heiðri er sannir húmanistar

Vinsamlegast leiðréttu mig ef ég fer rangt með.

" Það er því ekki furða að þú skilgreinir húmanisma á annan veg en ég, Siðmennt og IHEU. "

Þarna ferð þú með rangt mál.

Það er rétt að ég skilgreini húmanisma á annan veg en þú og Siðmennt.

Hins vegar hef ég reynt að sýna fram á að skilningur ykkar í Siðmennt á skilgreiningu IHEU sé rangur.

Í þessari setningu spyrðir þú hikstalaust saman skilning ykkar og alheimssamtakanna sem sem þeim sömu, þegar ljóst má vera þeim sem ekki sporðrenna útskýringu ykkar hrárri að svo er ekki.

Um það atriði hvort öll trú sé hindurvitni verðum við seint sammála, þar sem til þess þyrfti kraftaverk - sem trúleysingjar telja firru að geti átt sér stað - þarna ætti vitanlega að standa orðið "aldrei" (ekki seint) ef setningin ætti að vera í samræmi við mat þeirra á slíkum fyrirbærum.

Greta Björg Úlfsdóttir, 5.1.2008 kl. 21:57

8 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

"Það er sláandi að þú vilt telja trúaða sem húmanista þrátt fyrir að í skilgreiningu IHEU sé sagt skýrt: "It is not theistic, and it does not accept supernatural views of reality."

Þetta er er líka rangt hjá þér. Ég hef hvergi sett samasemmerki á milli þess að vera trúaður og að vera húmanisti. 

Hið rétta er að ég hef sagt að annað útilokaði ekki hitt.

Greta Björg Úlfsdóttir, 5.1.2008 kl. 22:23

9 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Vilhjálmur, það er einkennilegur andskoti að menn skuli alltaf vilja hvítskúra "sitt" lið - og þó ekki - svona er víst mannskepnan.

Eins og við vitum er til fólk sem trúir því ekki að helförin hafi verið farin í Nazi-Þýskalandi.

Greta Björg Úlfsdóttir, 5.1.2008 kl. 23:41

10 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

"Húmanisminn inniheldur ekki trú á hindurvitni og guðstrú er ein á meðal þeirra.  Það er ekki rétt að taka inn guðstrú en hafna öðrum hindurvitnum.   Það væri ósamkvæmi. "

Ég vil í framhaldi af þessum orðum Svans benda honum á að IHEU notar orðið  "theisitic" (trú á guð/i) í skilgreiningu sinni. 

Enska orðið yfir hindurvitni er hins vegar "superstition". Ég held að engum heilvita manni, öðrum en trúleysingjum (atheistum), detti í hug að spyrða saman orðin "religion" og "superstition".

"It is not theistic"  Orðið "it" í skilgreiningu samtakanna vísar til húmanisma, það er að segja þess sem þau byggja grundvöll sinn á, - ekki til þess hverjir geti talist sannir húmanistar (og þar með réttmætir félagar). Þetta ætti hver sæmilega fær málvísindamaður að geta útskýrt fyrir Svani og félögum hans.

Greta Björg Úlfsdóttir, 6.1.2008 kl. 00:06

11 Smámynd: Steingrímur Helgason

Hjúmanismi var mér fyrst kynntur mér frá vini mínum Pétri Guðjónssyni.

Hann náði nú alveg að útskýra fyrir einföldum bjána eins & mér um hvað þetta snerist.

Enda greindari piltur en lappneskt hreindýr.

Einhver umræða um trú eða einstök trúfélög bar aldrei þar á góma, þrátt fyrir það að hann vissi sem var að ég var strángtrúaður á þeim tíma.

Steingrímur Helgason, 6.1.2008 kl. 00:45

12 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Gréta Björg

Ég hef engu við það að bæta sem ég hef skrifað áður.  Þetta er orðið ágætt.  Takk fyrir skoðanaskipti. - kveðja, Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 6.1.2008 kl. 00:53

13 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Sömuleiðsi, Svanur.

Eins og sjá má á færslunni hafði ég ýmsu við að bæta....

Greta Björg Úlfsdóttir, 6.1.2008 kl. 03:00

14 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

SömuleiðiS, átti þetta auðvitað að vera.

Góða nótt, bloggvinir.  

Greta Björg Úlfsdóttir, 6.1.2008 kl. 03:01

15 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Svanur,

Mig langar að bæta þessu við til þín, var nú reyndar að hugsa um að segja þetta strax á eftir fyrstu athugasemdinni þinni, en kunni ekki við það og langaði til að reyna að svara henni á einhvern hátt og leiðrétta það sem mér fannst rangt í þínum málflutningi.  Læt þetta hér núna, sem lokaorð mín í þessari umræðu.

Ég sé á skrifum þínum að þú telur þig og skoðanabræður og systur þína vera hina einu sönnu húmanista. Við því er lítið að segja, frekar en trú strangkristinna á því að þeir hafi höndlað að eina og endanlega sannleika.

Kveðja, - Greta Björg 

Greta Björg Úlfsdóttir, 6.1.2008 kl. 03:31

16 Smámynd: Magnús V. Skúlason

Gréta, lengi hef ég leitað að naglanum en ekki nóg með það að þú hafir fundið hann heldur hittirðu hann beint á höfuðið! Bravó!

Magnús V. Skúlason, 7.1.2008 kl. 21:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Greta Björg Úlfsdóttir
Greta Björg Úlfsdóttir

...hvað er bak við yztu sjónarrönd?

gretaulfs@gmail.com 

                                                                                                                                                           Injustice anywhere is a threat to justice everywhere. We are caught in an inescapable network of mutuality, tied in a single garment of destiny. Whatever affects one directly, affects all indirectly.

~ Martin Luther King, Jr.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband