Leita í fréttum mbl.is

Þar til við sjáumst á ný

Við kvöddum elskulegan eiginmann, föður, afa, langafa, bróður, mág, frænda og góðan vin við hátíðlega athöfn í Dómkirkjunni í dag. Stundin var yndisleg í alla staði, og alveg í þeim anda sem hann hefði kosið sér.

Presturinn, sr. Hjálmar Jónsson, fléttaði inn í minningarorð sín ljóðum eftir pabba, sem verða okkur öllum hvatning til að lifa áfram í þeirri gleði og bjartsýni á tilveruna sem hann leitaðist við að rækta með samferðarfólki sínu, takast á við þau verkefni sem lífið færir okkur af einurð og þolgæði og með kærleika til meðbræðra okkar í hjarta og að leiðarljósi.

Af tónlistarflutningi langar mig sérstaklega að nefna einsöng Óskars Péturssonar, sem söng af mikilli næmni og innlifun lögin "Vorvindur", lag Sigvalda Kaldalóns við ljóð föðurafa okkar, Ragnars Ásgeirssonar, "Gras" eftir Sigfús Halldórsson við ljóð pabba, og "Ave María", einnig eftir Sigvalda Kaldalóns, við ljóð Indriða Einarssonar.

Dómkirkjukórinn söng nokkra alþekkta, gamla og góða sálma, Marteinn H. Friðriksson lék á orgelið og Hjörleifur Valsson lék lag á fiðlu. Frímúrarar stóðu heiðursvörð, svo sem tíðkast meðal þeirra þegar reglubræður falla frá.

Fyrir þetta allt hjartans þakkir, svo og til þeirra sem heiðruðu minningu pabba með nærveru sinni. Innilegar þakkir einnig til ykkar allra sem hafið sent mér samúðarkveðjur hérna á bloggsíðunni minni, stuðningur ykkar hefur verið kærkominn og ómetanlegur.

Ég ætla að skrifa hér upp aftur ljóðið eftir pabba sem ég skrifaði hér upp fyrr í minningu um hann, eftir minni, vegna þess að ég áttaði mig á því þegar ljóð og lag var sungið við jarðarförina að ég hafði ekki farið alls kostar rétt með það, í næstsíðustu línu seinna erindisins, í fyrra skiptið. 

100_0374-24

 Gras

 

Sumir reyna að rekja

raunir og mæðuspor.

Grasið í minni götu

grænkaði aftur í vor.

 

Grasið er nú mín gleði

og gæfan er fólgin í því

að vita það eftir vetur

vaxa og grænka á ný.

 

- Úlfur Ragnarsson 

 

Úlfur og Ásta á leið í kveðjuhóf eldri borgara á Krít í september 2007  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Ég var búin að segja það víst aftur, Samhryggist þér innilega.  Það er erfitt að missa einhvern svo náin.

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 18.1.2008 kl. 16:18

2 identicon

Sæl frænka.

Ég hugsaði til ykkar allra í fjölskyldunni í morgun.

Kveðja,

Kristín, Egilsstöðum.

Kristín Pétursdóttir (IP-tala skráð) 18.1.2008 kl. 17:47

3 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Gréta, yndislegur dagur, - þið hafið fallega og á listrænan hátt kvatt mætan mann. Hann lfiði ekki til einskins. Hvers getur ein manneskja óskað sér frekar? Eigðu góðar stundir með minningunum.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 18.1.2008 kl. 22:10

4 Smámynd: Steingrímur Helgason

Falleg athöfn greinilega.  Kvaddi einn reglubróður minn & vin með svipuðum hætti rétt fyrir jól, en meira er í varið að minningu föður þíns var heiður gerður með því að innvínkla hans ljóð inn í athöfnina.

Takk fyrir þessar persónulegu færslur þínar Gréta í sorginni, þú ferð sterk áfram.

Steingrímur Helgason, 18.1.2008 kl. 22:35

5 Smámynd: Ragnheiður

Samúðarkveðja til þín Greta mín, ég hugsaði til þín í dag..

Ragnheiður , 18.1.2008 kl. 23:38

6 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Elsku Greta,

Ragnhildur Jónsdóttir, 19.1.2008 kl. 00:43

7 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Innilegar samúðarkveðjur til þín Greta

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 19.1.2008 kl. 08:12

8 Smámynd: María Anna P Kristjánsdóttir

Gréta mín,athöfnin var yndisleg,það var svo margt fallegt í athöfninni sem kom beint frá pabba þínum,kveðjur til barnabarna og til ykkar,það var mjög fallegt.Kveðja María

María Anna P Kristjánsdóttir, 19.1.2008 kl. 14:27

9 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Kæru bloggvinir mínir,

Ég þakka ykkur fyrir allan ykkar stuðning og góðu kveðjur. Hafið það öll ævinlega sem best. Nú tekur hversdagslífið við aftur, án pabba, en ég veit að hann er okkur ekki fjarri og að hann fylgist með okkur áfram sem hérna megin dveljum.

Bestu kveðjur og þakkir, aftur, til ykkar allra.

Greta Björg Úlfsdóttir, 19.1.2008 kl. 14:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Greta Björg Úlfsdóttir
Greta Björg Úlfsdóttir

...hvað er bak við yztu sjónarrönd?

gretaulfs@gmail.com 

                                                                                                                                                           Injustice anywhere is a threat to justice everywhere. We are caught in an inescapable network of mutuality, tied in a single garment of destiny. Whatever affects one directly, affects all indirectly.

~ Martin Luther King, Jr.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.