Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Einn siður

Í bloggi sem ég heimsótti las ég eftirfarandi staðhæfingu:

"Í gegnum árin hefur kristnifræði verið kennd í skólum hér á landi (enda bara eðlilegt þar sem um opinbera þjóðartrú er að ræða).   Í múslimaríkjum er kóraninn kenndur og það er bara gott enda er þeirra þjóðtrú*(1) trúin á Múhameð og Kóraninn. "(feitletranir eru mínar) 

Þessi staðhæfing finnst mér alröng.

Ég álít að okkur sem þjóðfélagsþegnum sé öllum hollt að velta fyrir okkur eftirfarandi spurningu: 

Hér gefur pistlaritari sér að það sé sjálfsagt að þjóðir hafi eina opinbera trú. En er það svo sjálfsagt? Hefur þú nokkurn tíma hugleitt hvað er sjálfsagt við það?

Mitt svar er þetta: 

Ég fæ ekki séð að ein opinber trú hafi leitt gæfu yfir þau lönd þar sem Íslam er ríkistrú og stjórnarskrá þeirra meira að segja byggð á þeirri trú. Að segja að slíkt séu ekki rök gegn þjóðkirkju á Íslandi vegna þess að Kristni, - sér í lagi að hætti þjóðkirkjunnar -, sé svo miklu betri en Íslam er ekkert annað en upphafning einna trúarbragða á kostnað annarra. Hver getur sætt sig við slíkt í fjölþjóðlegu/fjöltrúarlegu samfélagi, þar sem þegnarnir ástunda mörg og mismunandi trúarbrögð?

Gæfulegra tel ég að stjórnarskrá lýðveldis grundvallist á hugsjón lýðræðis um frelsi, jafnrétti og bræðralag og jafnan rétt öllum þegnum þess til handa. Meðan þjóðin stendur staðfastan vörð um þau gildi tel ég að henni sé engin hætta búin. Þvert á móti tel ég að brot á jafnrétti á borð við það að gera einu trúfélagi í landinu hærra undir höfði en öðru grafi undan lýðræðinu og sé örugg leið til að sundra þessari fámennu þjóð.

Samkvæmt  tölum könnunar sem haldið hefur verið á lofti hér á blogginu er tala þeirra sem játa afdráttarlaust trú á Jesú Krist 52% þjóðarinnar*(2) (En trú á Jesú Krist má að mati prófessors í guðfræði við Háskóla Íslands skoða sem viðmið fyrir það að geta kallast kristinnar trúar. - Er ég því sammála*(3)). - Slíkt hlutfall myndi auðvitað gilda sem  ríflegur pólitískur meirihluti í Alþingiskosningum.

En gildir það sama um stjórnmál og trú? Ekki fær almenningur að kjósa sér biskup - eða um það hvaða trúfélag skuli vera þjóðkirkja á hverjum tíma! Ekki fá sitjandi ríkisstjórn og alþingismenn að kjósa um það upp á sitt eindæmi hver skuli næst/ur verða forsætisráðseta/herra? Nei, það er kosið á fjögurra ára fresti og þjóðin velur sér fulltrúa. Ætti þá ekki, í samræmi við það, Þjóðkirkja að viðhafa slíkar kosningar við val á yfirstjórn sinni? Eða er almenningur í landinu ekki talinn hafa nægilegt vit á trúmálum til þess, þó honum sé treyst til að kjósa sér ríkisstjórn, án þess að gerð sé krafa um sérstaka þekkingu á menntamálum, sjávarútvegi, fjármálum o.s.frv. Krafa um slíka sértæka þekkingu er ekki gerð til þeirra sem eiga kosningarétt í Alþingiskosningum, allir þegnar landsins hafa samkvæmt lýðræðishefð rétt til að kjósa nýja þingmenn, óháð kyni, kynhneigð, aldri, litarhætti eða trúarskoðunum, þegar þeir hafa til þess aldur. (Ég held að eina undantekningin frá þessari reglu séu fangar sem sitja af sér refsivist, er það rétt hjá mér?) Á söguleg kirkjuhefð að standa ofar lýðræðishefð? Ég segi nei.

Tel reyndar mjög skiljanlegt að fólk eins og t.d. Anna Benkovic Mikaelsdóttir hræðist það að landið sem hún býr í nú hafi trúarleg ákvæði í stjórnarskrá sinni, í ljósi reynslu hennar frá Balkanlöndunum. Munum að glöggt er gests augað.

Í framhaldi af þessu bendi ég fólki á að lesa ágætan pistil sr. Toshiki Toma, prests innflytjenda, sem ekki er rétt að kalla gest hér á landi, þar sem hann hefur búið og starfað hér í fjölda ára, en sem vegna uppruna síns hefur ef til vill gleggri sýn en ella á margt í þjóðlífi okkar en margir innfæddir :

Einlæg umræða um framtíð þjóðkirkjunnar óskast

Bið Önnu afsökunar ef hún telur á sig hallað með gests-nafninu, að sjálfsögðu nefni ég hana hér til sögu af sömu orsökum og séra Toma. 
 

*(1)Ég hef kosið að líta fram hjá því í þessari færslu að hér á landi hefur orðið "þjóðtrú" almennt ekki merkinguna "trúbrögð einnar þjóðar", heldur er með því orði yfirleitt átt við átrúnað þann sem t.d. er lýst í Þjóðsögum Jóns Árnasonar). Ennfremur biðst ég hér með velvirðingar á að hafa ekki, þrátt fyrir tilraun eins einstaklings hér til að kenna mér það, enn lært það á lyklaborðinu mínu hvernig á að skrifa gæsalappir að íslenskum hætti.

*(2) Ég hef ekki þá könnun handbæra (aðrir væru kannski svo góðir að benda mér á hvar hana er að finna). Set hér tengil á Gallupkönnun á vegum Kirkjugarðanna, sem gefur ýmsar veigamiklar ábendingar um trúarviðhorf Íslendinga.

*(3) Um þetta atriði skortir mig beina heimild. 


Mannsheilinn - meistaraverk

460px-Albert_Einstein_Head-1Fullyrt hefur verið:

"Maðurinn, án allrar aðstoðar frá ,,heilögum anda" er fær um ótrúlegustu hluti, enda er mannsheilinn stórmerkilegt fyrirbrigði og má kalla hann meistaraverk náttúrunnar.

Ég vil nú leitast við að hrekja þessa fullyrðingu og leiða getum að því að mannsheilinn sé í raun skapaður af þessum heilaga anda og sé honum þar með alls ekki óháður, hafi fengið frá honum mikla aðstoð þar sem hann á honum tilveru sína að þakka.

Verður náttúran til af sjálfu sér og  þróast fyrir tilviljun (random choice), í samræmi við þróunarkenninguna? Ég fullyrði að náttúran geti ekki skapað meistaraverk, öðru vísi en að í hana sé innbyggt mynstur byggt á greind (intelligence). Ég neita að trúa að náttúran hafi orðið til úr engu, án alls skipulags, til þess finnst mér mega greina of mikla reglufestu í allri hennar skipan.

Ekki minni menn en Albert Einstein hafi talið sig greina í tilurð slíkra meistaraverka náttúrunnar og himingeimsins vísbendingar um tilvist æðri greindar eða anda (sem alveg má hugsa sér sameinað á einum stað, eða felur orðið "mannsandi" það ekki í sér að greind og andi sé til staðar á sama stað, það er í mannsheilanum að áliti trúleysingja?)

Slíka greind sem Einstein hefur í huga og er fær um að skapa náttúru sem síðan getur af sér slíkt meistaraverk sem mannsheilinn er (þó manni virðist hann á stundum vannýttur af eigendum sínum miðað við þá möguleika sem hann á að bjóða þeim) held ég að megi alveg nefna heilagan anda, þar sem hann hlýtur í öllu tilliti að taka fram okkar litla mannsanda (sem kristnir telja vera eins konar neista frá báli hins guðlega, heilaga anda, í myndrænni líkingu) og við getum þess vegna varla annað en talið hann okkur æðri og lotið honum (hneigt höfuð, sýnt honum lotningu) í auðmýkt.

Samkvæmt því sem ég tefli fram í fyrri málsgreinum þessa pistils er sú fullyrðing sem sett er fram hér í upphafi einfaldlega bull, þar sem það var þessi heilagi andi (higher intelligence) sem upphaflega ákvarðaði færni náttúrunnar (í samræmi við guðlega áætlun sína, eða skipulagsforrit sitt) til að skapa slíkt meistaraverk (eða getum við ekki verið sammála um að verk séu sköpuð um leið og þau eru unnin?):

Minni að lokum á þessi vísu orð Einsteins:

"Does there truly exist an insuperable contradiction between religion and science? Can religion be superseded by science? The answers to these questions have, for centuries, given rise to considerable dispute and, indeed, bitter fighting. Yet, in my own mind there can be no doubt that in both cases a dispassionate consideration can only lead to a negative answer. What complicates the solution, however, is the fact that while most people readily agree on what is meant by "science," they are likely to differ on the meaning of "religion."

Ef menn vilja kynna sér frekar skoðanir Einsteins á samspili trúar (í hans skilningi) og vísinda, þá bendi ég þeim á þennan tengil (sem í raun blasir við þeim sem eitthvað nýta sér Wikipediu að ráði): 

Albert Einstein - Wikiquote

Viðbót:

Ég var ekki farin að horfa á Spaugstofuna fyrr en í kvöld. Hér ætla ég að setja tengil á hana, þar sem hún snertir óbeint viðfangsefni mitt í þessari færslu. Það má kannski segja að þátturinn vegi þungt sem rök á móti því sem ég segi hér og sé þar með vatn á myllu trúleysingja, en verður maður ekki ætíð að horfa á fleiri en eina hlið mála og viðurkenna staðreyndir:

Heili Íslendingsins W00t


Aðventa - og nám í frönsku!

adventukransÍ raun, samkvæmt hefðinni, byrja jólin ekki fyrr en að liðnu aðfangadagskvöldi, á miðnætti kl. 12, þegar komin er jólanóttin, eins og heiti dagsins 24. desember á íslensku ber með sér, það er að segja aðfangadagur. Það nafn ræðst trúi ég af því að á fyrri tímum var það sá dagur sem aðalundirbúningur jólanna fór fram, þó áður væri búið að undirbúa hann á margan hátt.

Þetta er í nokkurri mótsögn við það sem gerist nú á dögum, þegar æ ríkari áhersla er lögð á aðventuna sem tækifæri til að gleðjast, að því er sumum finnst á kostnað þeirrar eftirvæntingar sem við eldra fólkið tengjum við þann tíma. Og ef til vill á kostnað þess innri, andlega undirbúnings sem trúað, kristið fólk ætti að taka sér tíma til að sinna, með íhugun á merkingu þess fagnaðrríka atburðar sem það hefur efst á Topp-tíu lista sínum yfir tilgang jólanna, - svo ég beiti nú fyrir mig tungutaki eins stjórnarmanna Sammenntar, af öðru tilefni þó - fyrir mannkyn.

Orðið aðventa er sem kunnugt er komið úr latínu og er dregið af orðunum ad = forsetning sem felur í sér sem aðalmerkingu eitthvað sem fer fram á við, en um tíma til eða þangað til, og venio = so. sem merkir að koma. Aðventa (advent) þýðir því = tími þess sem koma mun. Ef ég fer hér rangt með vona ég að einhverjir meiri kunnáttumenn í latínu en ég sjái sér fært að leiðrétta það sem ég segi hér eða jafnvel bæta við það.

Gaman væri nú að dusta rykið af latínukunnáttunni frá í menntaskóla, sem hefði mátt vera betri þar sem áhuginn var meiri í frönskutímum hjá þeim madömum Vigdísi og Margaritu hinni sænsku, en í latínutímunum hjá Teiti Benediktssyni, sem var eftirminnilegur kennari og góður, þó einræðistilburða gætti í fasi hans við kennsluna og þá tækni sem hann notaði við hana. Enda lá við að liði yfir mig af undrun á munnlegu lokaprófi í latínu þegar hann brosti til mín sínu blíðasta brosi, ljúfur á manninn, og hækkaði ég um einn heilan frá vetrareinkun á því prófi, hvort sem það var nú þessum óvæntu elskulegheitum Teits að þakka, eða yfirlegu yfir latínuuppskrifum (sem tengjast þó ekki mat) nóttina áður að þakka.

Til dæmis hef ég gjörsamlega gleymt hvernig beygja skuli latneskar sagnir og treysti mér þess vegna ekki, sem sjá má hér áður, til að fara út í nánari útskýringar á sögninni venio. Nú sé ég líklega eftir að hafa látið renna til Góða Hirðisins áðurnefndar uppskriftir mínar (týperingar) úr latneskum ritum, sem ég taldi víst að einhver gæti ef til vill notfært sér frekar en ég nú á efri árum mínum.

ist2_2590252_french_christmasOg þó ekki, því þó svo þessari hugmynd skjóti upp í kollinum nú, þá verður hún vafalust vikin fyrir öðru eftir örskotsstund, svo fljúga tímar og hugmyndir hjá mér nú orðið. Sama má segja um frönsku, hana hef ég oft ætlað að taka mig á og læra betur, því það ergir mig að tala hana ekki eða skilja fullkomlega. Það eru víst mun meiri líkur á að ég láti verða af þeirri endurmenntun, heldur en að grúska í latínu, þar sem hæg ættu að vera heimtökin að dvelja um tíma í fyrirheitna landinu Frakklandi, þar sem franska er víst enn töluð, með enskum áhrifum þó, þar eins og annars staðar, þó landsmenn hafi varist þessari tungu fyrrum fjandmanna sinna í lengstu lög.

Frá aðventu yfir í tungumálanám, ef þetta má ekki kalla heilasópun (brainstorming) þá veit ég ekki hvað það (heimagerða) orð þýðir! 


Virðingarleysi á báða bóga

Jólin nálgast - af hverju gefur Guð ekki aflimuðum nýja fætur?

Þetta er fyrirsögn nýlegs pistils eins af stjórnarmönnum Sammenntar, sem svo vill til að einnig er læknir.

Heldur finnst mér fyrirsögn pistilsins, þó þetta eigi víst að vera kerskni, svo mikið skil ég, fyrir neðan virðingu manns sem telur sig vera húmanista sem beri virðingu fyrir skoðunum og trúarbrögðum manna, þó hann sé ekki sammála þeim eða aðhyllist þær ekki. Og það mitt í þeirri orrahríð sem nú geisar. Sérstaklega þar sem hann kallar blogg sitt "málefnaleg umræða" (!)

Mér finnst fyrirsögn pistilsins, - alveg burtséð frá meiri hlutanum af innhaldi pistilsins, þar sem höfundur deilir á lífgæðakapphlaup okkar íslendinga, í takt við það sem ætlað er að vera kristið helgihald, - eiginlega fullkomlega  í stíl við fullyrðingar sumra sem álíta sig afskaplega kristna (þar á meðal biskup Íslands) um að trúlausir hyggist afnema bæði litlu jólin og þau stóru og páskana líka.

Munurinn er kannski sá, að minnsta kosti vona ég það, þar sem ég hef verið ötul við það undanfarið að taka upp hanskann fyrir þá sem utan þjóðkirkjunnar standa, að þetta á víst að vera grín hjá honum, en  kristnu blindingjunum er líklega alvara þegar þeir kasta slíkum spurningum fram í hneykslan sinni. - Vona ég þó að þetta grín sé sett fram í hugsunarleysi, en ekki hugsað sem einhvers konar "vendetta" gegn þeim kristnum sem ekki hafa samþykkt skoðanir Sammenntar umyrðalaust.


Hafið bláa hafið

100_0280-4Mannkynið kemur allt frá sömu uppsprettu. Eini mismunurinn á milli manna er sá að þeir kjósa sér mismunandi farvegi til að renna eftir, til sömu endaloka. Sumir renna í stríðum straumi, með fossum og flúðum, aðrir líða fram sem lygn og vatnsmikil fljót, enn aðrir hoppa og skoppa eins og litlir fjallalækir, en allir enda þeir að lokum í sama hafinu.

Bæn heilags Frans frá Assisi

STFRAN~1Drottinn, lát mig vera farveg friðar þíns

að ég megi flytja kærleika þangað sem hatur er

að ég megi flytja anda fyrirgefningar þangað sem ranglæti er

að ég megi flytja samhug þangað sem sundrung

er að ég megi flytja sannleika þangað sem villa er

að ég megi flytja trú þangað sem efi er

að ég megi flytja von þangað sem örvænting er

að ég megi flytja birtu þangað sem myrkt er

að ég megi flytja gleði þangað sem hryggð er

Drottinn, veittu að ég megi fremur leitast við að hugga en að vera huggaður

að skilja fremur en að vera skilinn

að elska fremur en að vera elskaður.

Því með því að gleyma sjálfum mér, auðnast mér að finna.

Með því að fyrirgefa öðlast ég fyrirgefningu.

Með því að deyja vakna ég til eilífs lífs.

Amen

Þýðing sr. Sigurjóns Guðjónssonar.

 

Hlustið á þetta, hér er talar alvöru kennimaður.

Mér er sama hvaða trúfélagi hann tilheyrir, ég hlusta á orð hans og hrífst:

Hour of Power - Henri Nouwen - Being the Beloved

Henri Jozef Machiel Nouwen, (Nijkerk, January 24, 1932 - Hilversum, September 21, 1996) was a Dutch Catholic priest and writer who authored 40 books on the spiritual life.  His books are widely-read today by both Protestants and Catholics alike.


Hótel Mamma

Eins og er finnst mér margir þjóðkirkjumenn haga sér dálítið í umræðunni um fullkominn aðskilnað ríkis og kirkju eins og unglingar sem hræðast að yfirgefa Hótel Mömmu (það er að segja ríkið)...

Einnig grunar mig að almenningi í landinu yrði svipað innanbrjósts við það að kirkjan yrði ekki lengur þjóðkirkja, heldur væri reyndin sú að hún væri aðeins ein af kirkjudeildum hinnar alþjóðlegu evangelísk-lútersku kirkju...

Ósköp held ég að margir myndu vakna upp af værum blundi við það að þurfa allt í einu að hugsa sjálfstætt um trú sína, hver hún sé og hvort hún sé til staðar, og velja í hvaða kirkjudeild þeir myndu skrá sig, ef einhverja. Að þessu leyti held ég nefnilega að aðskilnaður myndi frekar verka jákvætt heldur en hitt; hann myndi leiða til andlegrar vakningar, við það að fólk neyddist til að hugsa sinn gang í þessum efnum.

Ég efast alls ekki um að margir Íslendingar myndu kjósa að tilheyra hinni evangelísk-lútersku kirkju áfram, þó ekki væri nema af gömlum vana. 

Í mínum huga hafa það aldrei verið nægjanleg rök fyrir að hafa hluti (stöðu kirkju eða annað) áfram óbreytta, að svona hafi þetta lengi (=alltaf (!) - í margra huga) verið (söguleg rök eingöngu).

Leiðið fram betri rök en eingöngu hin sögulegu fyrir skoðunum ykkar, þið kirkjunnar menn sem viljið áfram hafa þjóðkirkju í landinu, með vernd og styrk frá ríkinu.

Munum orð þjóðskáldsins Jónasar: Mönnunum munar - annað hvort aftur á bak - ellegar nokkuð á leið. Status quo (óbreytt ástand) er ekki til, hvorki í náttúru né þjóðlífi, jafnvel þó að lögmál eðlisfræðinnar um inertia (óbreytt ástand hluta) leitist við að viðhalda því. 


Kvörtun - og hrós

img_45fabe323c0a4Æ, það er erfitt þegar maður á einum morgni sér ótal áhugaverðar og langar greinar hér á blogginu sem maður vildi svo gjarnan lesa! En því miður sæti maður allan sunnudaginn langan yfir því - hvað er til ráða, "bookmarks"listinn minn orðinn troðinn...

Oftar og jafnara, myndi ég vilja. Það ber þó að þakka að hér á landi skuli fyrirfinnast svo mikið af hugsandi og góðu fólki að maður sé í vandræðum með að komast yfir að lesa hugleiðingar þess. 

Kannski kemst ég í að greiða úr minnislistanum seinna í vikunni. Mikið væri gott að bloggið gæfi einhvers konar möguleika á að merkja við áhugaverð blogg, áður en maður ákveður hvort maður vilji bæta því við á bloggvinalista sem óðum teygist úr, þrátt fyrir að maður reyni að búa sér til  reglur til að fara eftir við val á hann...


Múrar

Mennirnir byggja múra
múra sér jafnvel klefa
með veggi úr eldföstum efa
Gluggi er ýmist enginn
ellegar hálflokuð rifa
-Svo dúsa menn þarna dauðir
daga sem eins mætti lifa

Úlfur Ragnarsson

*Myndin á múrnum

Trúfræðsla í grunnskólum

-Kynnist Kristinni sköpunartrú og skoði sjálfan sig, umhverfi sitt og samskipti við aðra í ljósi hennar – Kynnist frásögnum af fæðingu Jesú, lærieinfalda jólasálma og kynnist íslenskum jólasiðum – Kynnist sögum af bernsku Jesú og heyri um daglegt líf og aðstæður á hans dögum – Kynnist afstöðu Jesú til barna, m.a. með frásögunni Jesú blessar börnin – Fái tækifæri til leikrænnar tjáningar á atburðum úr biblíusögunum – Heimsæki kirkju og skoði helstu kirkjumuni – þekki tilefni páskanna – geri sér ljóst hvað bæn er og læri að þekkja Faðir vor, kvöld og morgunbænir – o.s.frv. ( tekið úr námskrá grunnskóla )

"Þetta er meðal þess sem kenna á í kristnifræði fyrir 1. bekk. Hér er að sjálfsögðu ekkert kristinboð á ferð eins og allir sjá."

Þetta sem stendur hér að ofan, á eftir því sem tekið er úr námsskrá grunnskóla, sagði Arnold nokkur í athugsemd við færslu sr. Baldurs Kristjánssonar í bloggi hans um þjóðkirkjuna og stöðu hennar. Dæmi nú hver sem vill.

Ég held að ég sé farin að skilja reiði trúleysingja út í kerfið betur við að lesa þessi atriði úr námsskránni. Hafði satt að segja ekki hugmynd um að það sem heitir trúfræðsla innan skóla næði til alls þessa. Sýnist þetta vera þó nokkur breyting frá þeim tíma sem ég var í barnaskóla (jú, það er langt síðan!). Að vísu las ég nú aldrei þá námsskrá sem mér var kennt eftir.

Auðvitað er minni mitt ekki óbrigðult eða altækt um uppfræðslu þess tíma almennt, þar sem bæði var að ég gekk í sveitaskóla og var einnig mjög sátt við þá kristinfræðikennslu sem ég fékk, sem fólst í að læra Biblíusögur og útskýringum kennarans á þeim. Engin Jesúleikrit þar, það var ekki fyrr en ég flutti til Reykjavíkur að ég varð svo fræg að fá að leika vitring í skólaleikriti. Minnist þess að vísu ekki að það hlutverk hafi mótað mig verulega. Að vísu lét hún Kristjana mín okkur, þessi 9-11 börn sem sóttum skólann hennar, fara með stutta bæn í upphafi skólastarfs hvern morgun, eða syngja einhvern söng, annað hvort af trúarlegum eða þjóðræknislegum toga. Ég held að við krakkarnir höfum ekki skaðast á nokkurn hátt af þessu, nema síður væri, og þetta hafi jafnvel hjálpað til við aga, að eiga svona stund að morgni til með kennaranum. Til dæmis held ég að sá nemanda hennar sem hvað mesta frægð hefur hlotið, Guðmundur Guðmundsson, Erró, hafi ekki látið trúfræðslu okkar góðu kennslukonu íþyngja sér um ævina. Hef alla tíð staðið í þeirri meiningu að þetta hafi verið eitthvað sem hún tók upp hjá sjálfri sér, en ekki farið eftir námsskrá, alla vega man ég að krakkar í öðrum sveitskóla sem ég sagði frá þessu urðu undrandi og könnuðust ekki við slíkt úr sínum skóla. En þau fengu nú heldur ekki að gera vinnubækur (sem var held ég úr námsskránni) og myndir til að klippa út og líma í þær, eins og Kristjana útvegaði okkur úr Reykjavík, heldur ekki að standa upp í tímum og gera teygjuæfingar, eins og hún lét okkur gera (sem var örugglega ekki í námsskrá, kannski var þó eitthvað um leikfimi þar, sem erfiðleikum gat reynst bundið að uppfylla af ríflega sextugum kennara úti í sveit).

Þarna austur á Kirkjubæjarklaustri ólst lítil stúlka upp í nánu sambýli við merkilegan hluta af íslenskri kirkjusögu - lék sér ofan á og gekk fram hjá daglega á leið í og úr skóla klausturrústunum sem þar er verið að grafa upp - og sr. Jón Steingrímsson var auðvitað sú hetja sem hæst bar í sögu héraðsins, ófá skiptin sem við fengum að heyra innfjálga lýsingu á eldprédikun hans, sem haft er fyrir satt að hafi varnað því að staðurinn færi undir hraun - hlustaði oft á samræður Gyðríðar Jónsdóttur, móður Jóns úr Seglbúðum, fyrrum þingmanns, við foreldra mína um aðaláhugamál hennar, sem var bygging kapellu á staðnum í minningu eldklerksins, sem henni tókst og að hrinda í farmkvæmd - ferðir út að stuðlabergsmynduninni austan við staðinn sem nefnd er Kirkjugólf í daglegu tali og við systurnar gerðum okkur að leik að þramma um og syngja: Svona gerum við þegar við göngum Kirkjugólf - Sönghellirinn, sem við klifruðum upp að, stóðum svo framan við syngjandi og þóttumst vera nunnur að syngja til aðvífandi munka sem sæjust koma ríðandi neðan úr Landbroti, - Systrastapi, sem ég hef ekki enn í dag orðið svo fræg að fara upp á, því þá var ég of ung, en í dag er ég of gömul (þung á mér), þar sem eru tvær þúfur, önnur grænkar á sumrin en hin ekki...

KirkjubaejarklausturFloor

En það var þá og nú eru breyttir tímar, þjóðfélagið hefur breyst og við verðum að horfast í augu við það. Verður lýðræðisríki ekki að taka tillit til allra trúhópa, eða þeirra sem eru engrar trúar, innan skólakerfisins - þó svo að við göngum ef til vill ekki eins langt og Frakkar, sem banna að börn beri á sér trúartákn innan skólanna - ? Held að enginn fari fram á slíkt hér á landi, enn sem komið er, heldur aðeins að börnin séu ekki uppfrædd að foreldrum þeirra forspurðum um það sem þeir telja uppspuna og hindurvitni.

Ég veit ekki síðan hvenær þessi námsskrá er sem þetta er tekið úr, en ég held að það sé vel tímabært að endurskoða sum af þessum atriðum sem talin eru upp að heyra skuli undir trúfræðslu, með tilliti til að gætt verði hlutleysis í trúmálum - að minnsta kosti tel ég að setja verði inn ákvæði um að leita þurfi eftir samþykki foreldra til að kennt verði eftir henni óbreyttri hvað varðar útlagningu sköpunarsögunnar, kennslu bæna og sálma og kirkjuferðir. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Greta Björg Úlfsdóttir
Greta Björg Úlfsdóttir

...hvað er bak við yztu sjónarrönd?

gretaulfs@gmail.com 

                                                                                                                                                           Injustice anywhere is a threat to justice everywhere. We are caught in an inescapable network of mutuality, tied in a single garment of destiny. Whatever affects one directly, affects all indirectly.

~ Martin Luther King, Jr.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.