Leita í fréttum mbl.is

Refskák sem fór úr böndunum...

Það læðast að manni (auknar) grunsemdir við þessa frétt...

Var um að ræða refskák til þess að ná til sín tveimur bankanna og gera þá að ríkisbönkum og losa sig í leiðinni við hina svokölluðu auðmenn og útrásarvíkinga? Leyfa svo Kaupþingi að tóra, í það minnsta fyrst um sinn, þó ekki væri nema fyrir útlitið (lúkkið). Síðan hefði mátt selja "réttum" (það er að segja þægum) aðilum bankana aftur, sem allt útlit er fyrir að muni takast ef svo fer fram sem horfir, þrátt fyrir allt sem fór úrskeiðis.Sem sagt einkabankar áfram, en í höndum "réttra" aðila, eftir hreingerningu.

Refskák, sem síðan fór illilega úr böndunum og hafði ófyrirséðar afleiðingar þegar seðlabankastjóri talaði alvarlega af sér í Kastljósinu, vegna óvæntra og harkalegra viðbragða Gordons "helvísks" Brown forsætisráðherra Breta við þeim yfirlýsingum, og einnig vegna hins almenna ástands á alheimsmörkuðum, geri ég ráð fyrir.

Ef þetta hefði tekist hefði seðlabankastjóri aftur verið kominn í lykilaðstöðu til að deila og drottna. Sem hann er reyndar kominn í nú eftir hrunið, en fórnarkostnaðurinn er sá að þjóðfélagið er í uppnámi, atvinnulífið í stórhættu, Íslendingar hafa misst mannorð sitt erlendis og eru bónbjargarmenn. Fyrir utan alla þá sem misst hafa sparifé sitt (eða hluta af því, eftir því sem nú er sagt).

Þess vegna var Davíð svona óskiljanlega glaðbeittur og sigurviss í Kastljósinu, hann hélt að þetta myndi allt reddast.

Það á aldrei að líðast að pólitíkusar verði seðlabankastjórar. Hvað þá að einstaklingur geti stigið upp úr forsætisráðherrastóli og plantað sér í sæti seðlabankastjóra. 

Björgvin G. Sigurðsson leggur til að bankarnir verði áfram í ríkiseign að einum þriðja, en það telur Þorgerður Katrín af og frá. Enda er einkavæðing stefna Sjálfstæðisflokksins, þó þessum ráðum hafi verið beitt við hreingerningu bláu handarinnar.Það er sama hver kústurinn er, svo fremi sem hann dugir til að sópa því út sem ekki lætur að stjórn.

Hins vegar væri vitanlega ótækt að bankarnir yrðu áfram í ríkiseign skyldi stjórnin falla við næstu kosningar, sem eiga alls ekki að fara fram aftur fyrr en eftir 3 ár að hennar áliti, það er að þegar búið er að ganga frá öllum hnútum í þessu efni.

Það er auðvitað besta mál fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hafa bæði  bláu höndina í seðlabankanum og svo einkavæðinguna (les=einkavinahagsmunapotið, önnur einkavæðing er varla til á Íslandi), eftir að búið er að henda út úr henni óþekktargemlingunum. Þetta er yndislegur (að þeirra mati) dúett, sem eflir  kosningasjóðinn og flokksmaskínuna í heilldrjúgu perpetuum mobile (eilífðarvél) fyrir flokkinn.

En ef svo ólíklega vildi til að Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti að fara frá völdum væri búið að tryggja að bankastjórar einkabankanna væru stjórnarandstöðunni hliðhollir. Sem vitanlega er þó meiri "hætta" á nú en áður (það er að segja að hann falli) þegar svona fór, en samt sorglega litlar, nema eitthvað mikið gerist í þjóðarsálinni.

Má maður vonast til að síðustu atburðir verði til þess?

Það er von að aldavinir hafi reiðst yfir að hafa verið sópað út, en róast aftur þegar búið var að lofa þeim einhverju snarli í sárabætur.


mbl.is Tilboði lífeyrissjóða hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krabbamein

 icu-4423460_701323.jpg

Íslenskt stjórnmála- og efnahagslíf er í dag eins og sjúklingur sem er fárveikur af krabbameini.

Eftir að hann veiktist snögglega fór hann í aðgerð.

Hann er enn í gjörgæslu.

Vonir standa til að hann fari bráðum að hressast.

Nú ríður á að finna hvaða lækningarmeðferð er hægt að veita.

Svo hún sé möguleg verður að greina tegund meinsins og hvar það á upptök sín, svo hægt sé að ráðast að rótum vandans.

Til þess þarf færa sérfræðinga, meinafræðinga, lækna og hjúkrunarlið.

Þá fyrst er hægt að ráða í hvaða úrræðum skuli beitt.

Þangað til það hefur verið gert er meðferð sjúklingsins í biðstöðu.

Það ríður á að vinna hratt að því finna rétta meðferð eigi hann að eiga lengra líf fyrir höndum.

Meðferðin kann að reynast honum erfið, en mun auka lífslíkur hans til muna.

Síðar mun gefast ráðrúm til að velta betur fyrir sér mögulegum orsökum þess að sjúklingurinn veiktist af krabbameini og hvað sé hægt að gera til þess að koma í veg fyrir að sjúkdómurinn komi upp aftur.

Börn hans sem eiga allt sitt undir honum bíða milli vonar og ótta.

Vonandi er sjúkdómurinn ekki lengra genginn en svo að unnt verði að bjarga lífi sjúklingsins.

Fyrir utan sjúkrahúsveggina gengur lífið sinn vana gang - enn sem komið er.


Úff

Það er nú einum of  að mega ekki einu sinni skoða vörurnar, þó hann væri ekki spenntur fyrir kreditkortunum þeirra.

Þetta er eins og þegar krakkar og unglingar sem eru að þvælast um og fíflast í búðum eru reknir út.

En íslenskar konur láta greinilega ekki af þeim sið að skoða veski í útlöndum, þó landið sé að sökkva. Ég veit ekki hvort það ber vott um bjartsýni eða meðvitundarleysi.


mbl.is Rekin úr búð í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilvitnun dagsins

Quote of the Day
Shoot for the moon. Even if you miss, you'll land among the stars.
Les Brown

Þetta hljómar nú napurlega fyrir okkur Íslendinga þessa dagana.


Léttir

bilde_699764.jpgÓsköp var gaman að sjá hvað það var mikið léttara yfir ráðherrunum á blaðamannafundinum í dag.

Nú fer allt að komast í gang aftur hjá okkur bráðlega, þó róðurinn verði þungur.

Nú er okkar að biðja til Guðs að samningsaðilum fipist hvergi í þeim línudansi sem er í gangi í viðræðum við erlenda aðila og að útkoman verði ásættanleg fyrir þjóðina.

Mitt álit er að það beri og verði að hafa sjálfsforræði landsins að leiðarljósi í þeim viðræðum.

Stal þessari mynd af vefsíðu DV


Svalt - og hlýjar

icecream.jpgÞað bæði svalar og hlýjar að lesa svona vinsamlega grein frá breskum fjölmiðlamanni, eftir öll þau stóru orð sem höfð hafa verið uppi um Breta síðustu daga.

Barasta eins og að fá rjómaís. InLove


mbl.is Svalir Íslendingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæfraspil

image002.jpgÍ framhaldi af frétt mbl.is langar mig til að setja aftur inn pistil sem ég setti hér inn og tengja hann við fréttina, þar sem hann kemur inn á það sem fjallað er um í henni:

Það var fróðlegt að lesa þennan pistil eftir Nóbelsverðlaunahafann Paul Krugman, sem birtist í The New York Times 31. mars síðast liðinn (umfjöllun um hann sá ég í bloggi hippastelpunnar). Í henni reifar hann samsæriskenningu gegn Íslandi.

Mér finnst þessi samsæriskenning gegn Íslandi hreint ekki ótrúleg. Mig skortir einfaldlega þekkingu á alþjóðlegu fjármálaumhverfi og fjármálagjörningum til að giska á hverjir nákvæmlega myndu í rauninni hafa staðið að og hagnast á slíku samsæri, þó aðilar í Bretlandi og framkoma þeirra gagnvart Íslandi komi frekar upp í huga minn en annað.

Það sem segir í pistli Krugmans breytir samt sem áður ekki því að íslenska útrásin, að viðbættu andvaraleysi (eða hvað maður á að kalla það) eftilitsaðila kom íslensku þjóðfélagi í glæfralega stöðu gagnvart einmitt þess konar viðbrögðum.

Það þarf ekki að reikna með að allir hafi dáðst að framtakssemi og dirfsku blessuðu litlu og kláru víkinganna úr norðri. Slíkt er helber barnaskapur. Það mátti einmitt búast við og búa sig undir hörð viðbrögð og að brugguð yrðu ráð til að ná aftur til sín því sem "the bloody foreigners" hefðu verið álitnir að hafa sölsað undir sig á erlendu yfirráðasvæði. Vegna þeirrar þenslu og óstöðugleika, plús ofmetnaðarins sem allt þetta bévað brölt orsakaði í okkar litla þjóðfélagi vorum við auðvelt skotmark um leið og seðlabankastjóri (einn af þremur) setti fram vægast sagt óvarlegar yfirlýsingar í Kastljósþætti.

Hver vill frétta það í framhaldi af beinni útsendingu í sjónvarpi að skuldir sem hann taldi tryggt að yrðu greiddar að fullu verði það hreint ekki? Samlíkingin um fíl í postulínsbúð á fullkomlega við Davíð Oddsson þetta kvöld.

Ekki auðvelt verkefni fyrir fjármálaráðherra að sannfæra breska fjármálaráðherrann um hið gagnstæða eftir slíkar yfirlýsingar og ekki við því að búast að hann tæki það trúanlegt þegar svo misvísandi skilaboð bárust honum héðan. Það er ekki beint traustvekjandi að fjármálaráðherra okkar hringi í fjármálaráðherra Breta til að fullvissa hann um að Davíð Oddsson sé rugludallur sem ekkert mark sé takandi á. Diplómatar reyndu að bæta skaðann, en auðvitað var við ramman reip að draga þegar svo var komið. Sér í lagi í ljósi þess að þarna var komið málefni sem gaf forsætisráðherra Breta Gordon Brown, kjörið tækifæri til að gefa út harða yfirlýsingu og slá sér upp í í fjölmiðlum, sem kom sér vel þar sem hann stendur pólitískt á brauðfótum heima fyrir, eins og búið er að rekja hér margsinnis í umfjöllun fjölmiðla og bloggara. Brown ákvað að trúa einfaldlega því sem kom honum sjálfum best.

Enda hef ég aldrei heyrt að Bretar telji sig vera skuldbundna Íslendingum sem þjóð á einn eða annan veg. Frekar hið gagnstæða. Eins og sjá má á fréttapistli mbl.is er til dæmis ennþá, eftir öll þessi ár, grunnt á því góða gagnvart Íslandi í breskum fiskibæjum og auðvelt að hræra upp í þeim hluta almennings sem sem þar býr og telur sig eiga harma að gjalda gagnvart víkingaþjóðinni að norðan (Bretar eru reyndar sjálfir gömul víkingaþjóð) með yfirlýsingum eins og þeim sem Brown kom með í BBC. Í ljósi þessa ættum við ekki að þurfa að vera undrandi á viðbrögðum margra þeirra nú.

Erum við sjálf, Íslendingar, mjög fljót að gleyma, höfum við ekki öll sem komin er yfir miðjan aldur lært um "bölvaðan danskinn, rotið mél og brennivín" í því námsefni sem borið var á borð fyrir okkur þar sem þá hét barnaskóli? (og mér fannst ömurlegt, þar sem amma mín var dönsk).Var þó snöggtum lengra um liðið frá því tímabili í íslenskri sögu sem heita átti að verið var að kenna okkur um, heldur en liðið er frá þorskastríðinu við Breta. Ekki hef ég á takteinum skýringarnar á því af hverju henta þótti að ala á úlfúð í æsku landsins gagnvart grannþjóð okkar og fyrrum yfirboðara. Kannski það hafi átt að efla sjálfstæðiskennd okkar? Ef svo er hefur sú tilraun gjörsamlega mistekist, líkt lofræður forsetans okkar um útrásina dýrlegu, sem allir sjá nú að áttu ekki við rök að styðjast.

Nei, það er komið berlega á daginn að það eru allt aðrar áherslur sem við verðum að leggja rækt við í samskiptum okkar við umheiminn. Mætti þar til nefna hugsjónir um frið og verndun náttúrunnar, menningu og vinabönd, þær áherslur sem Vigdís var óþreytandi að tala um.

Ennþá fáránlegri og óskiljanlegri en yfirlýsingar Davíðs var sú framkvæmd Brown forsætisráherra að bregðast við með þeim með því að beita hryðjuverkalögum. Nema það hafi verið ætlunin að koma Íslandi algjörlega á kné. Sem rímar svona líka prýðilega við samsæri í fjármálaheiminum.

Það er sorglegra en tárum taki að horfa aftur á þetta myndskeið úr Kastljósinu nú þegar holskefla hefur riðið yfir og fjármálakerfið hér á landi er rjúkandi rúst og róinn er lífróður að bjarga því sem bjargað verður til að atvinnulífið stöðvist ekki, margir hafa misst allan sparnað sinn, þjóðin sér fram á að verða skuldsett upp fyrir haus næstu árin og jafnvel að missa sjálfsforræði sitt í landsmálum, þveröfugt við glaðbeitt áform bankastjórans í viðtalinu. Það er dýrt gjald að greiða fyrir afglöp tiltölulega lítils hóps manna.

Orðræða Davíðs í þættinum finnst mér satt að segja álíka veruleikafirrt og Jóns Ásgeirs í Silfri Egils. Manni verður það fyrir að hugsa hví í ósköpunum hann lét ekki gott heita í landsmálunum eftir áralanga setu á stóli forsætisráðherra og það sem margir álitu afar glæstan feril.

Það er vert að minnast þess að Stóra-Bretland var eitt sinn heimsveldi. Gleymum ekki að tengsl okkar við Bretland eru allt annars eðlis en við fyrrum herraþjóð okkar í Danaveldi, þar sem íslenska útrásin bar að vísu einnig hart niður og særði stolt margra. Breska ljónið hefur, þó það sé komið af fótum fram, líklega aldrei gleymt því að smáríkið Ísland sigraði það einu sinni í stríði án þess að hafa yfir eiginlegum her að ráða.

Kenning Krugmans er mjög lógísk þegar maður leiðir hugann að testósteróni, mannlegu eðli og því að enn er ekki svo langt í frummanninn í mannkyninu. 


mbl.is „Makleg málagjöld"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mosambique og IMF

Gáði í framhaldi af ÞESSUM umræðum í Kastljósinu að því hversu mikil þjóðarframleiðsla Mosambique er.

Árið 2007 var þjóðarframleiðsla Mosambique $396 á mann. Það gefur auga leið að þjóðarleiðtogar ríkisins þurfa ekki að ferðast mikið til þess að kostnaðurinn við þau ferðalög nái upp í 3% af þjóðarframleiðslunni. Ég hugsa að til dæmis að það hefði mun meira að segja um prósentuna hjá þeim ef þeir flygju fram og til baka til Kína tvisvar í trekk heldur en hjá okkur.

Til samanburðar var þjóðarframleiðsla Íslendinga á mann $64,547 árið 2007.

Það er augljóst út frá þessum tölum hversu arfavitlausar staðhæfingar Vilhjálms Egilssonar eru.

Auðvitað væri það langbest í stöðunni ef Norðmenn væri tilbúnir að lána verulega stóra upphæð. Ég veit hreint ekki hvort einhverjar þreifingar hafa verið í gangi í þeim efnum, um það hefur maður lítið heyrt, aðallega talað um IMF og Rússa, sem ég leyfi mér að álíta að séu enn með sama gamla Moskvuveldið, þó svo kommúnisminn sé fyrir bí.

Þó svo ég hafi talað digurbarkalega um að semja við Rússa hér í fyrri færslum, þá verð ég að viðurkenna að ég fékk samt sem áður smáhroll við að hlusta á ÞESSA frétt um það sem fréttamaður Time og Eurasia Group nefna að vaki fyrir þeim með láninu. Það þarf náttúrlega ekki mikla spekinga til að sjá þetta út, það er bara einhvern veginn áhrifaríkara að heyra þetta lesið með tilheyrandi myndskeiðum frá Moskvu. 

Það er auðvitað gefið mál að öðrum Nató-ríkjum, og kannski fleirum, líst ekkert á blikuna.


Svartamarkaðsbrask auglýst á mbl.is

Seinast þegar ég vissi var sala á gjaldeyri utan viðurkenndra fjármálastofnana ólögleg. Svo sér maður fjallað um auglýsingu um þess háttar sölu á mbl.is sem hverja aðra frétt á sömu vefsíðu, eins og ekkert sé sjálfsagðara, nema hvað þetta virðist þykja óvenjulegt og þar með fréttnæmt.

Það er greinilega allt orðið vitlaust í þessu landi.

Verður það næsta að hægt sé að kaupa dóp eftir smáauglýsingum í blöðunum?

Það er talað um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn muni líta okkur öðrum augum en þróunarlönd. En ég held að ekki einu sinni í þróunarlöndunum sé svartamarkaðsbraskið auglýst í dagblöðunum.

Segja ekki þessar auglýsingar og umfjöllunin um þær okkur ekki sitthvað um það hvernig siðferði þessarar þjóðar er (orðið)?

Ég er gjörsamlega gáttuð. Hversu fáfróðir og hreint og beint heimskir hafa blaðamenn leyfi til að vera, og auðvitað líka þeir sem seldu auglýsingarnar?


mbl.is Gjaldeyrir auglýstur í smáauglýsingunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið er það merkileg kúvending...

...að sá flokkur hérlendis sem kenndur hefur verið við hægri stefnu togar nú í austurátt, á meðan hinn sem samanstendur af leifum jafnaðarstefnunnar tosar í vesturátt.

Bentu í austur,

bentu í vestur,

bentu á þann sem að þér þykir bestur.

 

Það er allt komið á hvolf. Allt mögulegt. Hvað gerist næst?

Ég veit ekki hvort á að kalla þetta hrollvekju eða reyfara, kannski er skrípaleikur eina orðið.

Jeminn.

Nújæja, eitthvað hef ég verið að tala um það hér á blogginu að róa lífróðurinn á báða bóga, en samkvæmt því sem áður var og hét hafa ræðararnir skipt um sæti.

 


Stolt # Dramb

610x.jpgSannast nú ekki einfaldlega á okkur gamla máltækið að dramb er falli næst ?

Með alla jeppana okkar, stórhýsin, verslunarferðirnar...ja ég veit ekki hvað...Ísland mest og best...jú, við höfum verið drambsöm.

En þó veður hafi fljótt skipast á lofti þá skulum við ekki gleyma silfrinu okkar allra í Kína. Þar sýndi handboltaliðið  okkar hvers við erum megnug með jákvæðni og samstöðu í farteskinu. Þá vorum við stolt þjóð, og máttum svo sannarlega vera það af því tilefni.

Ísland er enn "stórasta" land í heimi í hjörtum okkar, þrátt fyrir allt, er það ekki?

Nema þeirra sem aðeins skilja: égummigfrámértilmínogminna.

Eyðslufylleríið er búið - þá taka timurmennirnir eðlilega við.

Það er munur á stolti og drambi, á sama hátt og það er munur á hugrekki og dirfsku.

 


Úpps...

...og ég sem var að spá í hvort þeir myndu ekki lána okkur fyrir svo sem einum plástri. Af þessar frétta að dæma er það ekki sennilegt. Þeir eru varfærnir, enda búnir að fara í gegnum hrun sjálfir fyrir ekki svo ýkja löngu síðan.
mbl.is Vilja ekki íslensku sinfóníuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilvitnun dagsins

hbo_mr_conservative_barry_goldwater.jpgVek athygli á tilvitnun dagsins hér í dálknum til vinstri:

Quote of the Day
A government that is big enough to give you all you want is big enough to take it all away.
Barry Goldwater

Wikipedia um Barry Goldwater


Sjá roðann í austri...

Ætli Japanir væru ekki til í lána okkur? Wink

Það er víst ekki enn búið að opna fyrir viðskipti með sjóði, þó heyrst hafi í fréttum að það yrði mögulega gert í dag. Hvenær í ósköpunum fara hjólin að hreyfast aftur?

(Ég hringid eins og auli í bankann vegna þess að ég var eitthvað að spá í markaðsvirði smotterísins míns, sem samkvæmt netbankanaum er  enn það sama í dag og fyrir yfirtökuna, var svo viss um að það væri búið að opna fyrir viðskiptin og hélt víst að þeir hefðu bara gleymt að breyta þessu um lokunina á forsíðunni! LoL)


mbl.is Ekkert lán til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lönd sólaruppkomunnar

orient.jpgÉg var að hlusta áðan á viðtal Helga Seljan við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta okkar,  í Kastljósinu. Hann komst svo sem ágætlega frá því, þarna var gamli prófessorinn mættur til að skilgreina hlutina og vinna úr núverandi stöðu, með (venjulegum) áherslum á auðlindir okkar og sóknarfæri svo og æsku landsins.

Það er öruggleg rétt hjá bæði Ingibjörgu Sólrúnu og Ólafi að náttúrulegar orkulindir okkar gera samningsstöðu okkar sterkari á þessum síðustu tímum. En þurfum við ekki samt sem áður alltaf á olíu að halda til að halda úti fiskiskipaflotanum okkar, eða sér fólk fyrir sér að knýja megi hann áfram með raforku?

Sjálfsagt gætu komist á gott flæði milli okkar og Rússa (eins og í denn) nú þegar leiðin styttist milli okkar við bráðnun norðurpólsins, að maður tali nú ekki um ef þeir fara að bora eftir olíu á því svæði.

Vesturveldin (það er að segja hafi þau fellibylinn af) myndu svo örugglega sjá til þess í hræðslubandalagi við Alþjóðabankann og Nató að Rússar seilist ekki of langt ofan í gullkistur okkar.

Mér segir svo hugur að við eigum heldur að beina sjónum í austurátt um stuðning og samstarf í efnahagsmálum, en að binda okkur við gömlu vesturlöndin sem svo er að sjá að vilji ekkert af okkur vita meðan þau sjálf eru við það að riða til falls. Þá er ég með í huga Asíulönd, Japan, Kína og Indland, þar mun uppgangurinn verða í framtíðinni.

crjsh081013.gif

 


Sjálfsvirðing

mban1157l.jpgMig langar í ljósi síðustu atburða til að deila með öðrum orðum sem þjónustufulltrúinn minn í bankanum sagði við mig fyrir nokkrum árum, þegar ég stóð mitt í mínu eigin, litla fjárhagshruni:

"Mundu að hvað sem á dynur þá eru peningarnir þínir eitt, en þú sjálf ert eitthvað allt, allt annað."

Þetta eru orð sem ég var henni mjög þakklát fyrir og ég hef aldrei gleymt. Það hjálpaði mér í gegnum miklar þrengingar að minnast þeirra.

 


Til upprifjunar:

Ísland er ennþá stórasta land í heimi

610x2.jpg


A Yorkhireman´s Advice to His Son

Þessi gamla vísa úr Jórvíkurskíri rifjaðist upp fyrir mér:

card00569_fr.jpg

 Hér má heyra útskýringu á "venjulegri" ensku:

 
Faðir riddarans Filippusar Græna (Sir Philip Green) var að vísu gyðingur en ekki Jórvíkingur, en samkvæmt viðtali í kvöldfréttum RÚV við sérfæðing sem að sögn stöðvarinnar þekkir vel til í bresku viðskiftalífi hefur  þessi boðskapur náð eyrum sonarins engu að síður.
 
Boðskapurinn virðist einnig láta dável í eyrum annars sonar og fyrrverandi útrásarvíkings (ekki Jórvíkings), það er að segja þess sem lét sig þó hafa það að mæta í Silfur Egils í dag til að þvo þar hendur sínar
- og tókst það dável, miðað við þá samúðarstrengi sem mér virðist við lestur bloggsins að blessuðum drengnum hafi tekist að hræra í hjörtum SUMRA landa sinna.
 
Það var áhugavert...nei annars, GAMAN...að heyra Egil taka Jón Ásgeir til bæna.
Ég er ósammála þeim sem þykir Egill hafa farið yfir strikið. Ég sé enga ástæðu til að taka með silkihönskum á manni sem, meðal annarra, ber stóra ábyrgð á því hvernig komið er, en þverskallast við að viðurkenna eitt eða neitt í þeim efnum. Egill sagði einungis upphátt og opinberlega við hann augliti til auglitis það sem mörg þúsund Íslendinga hugsa og segja um hann þessa stundina.
 
Skyldi Dorrit vera búin að bjóða Filippusi í mat?

mbl.is Samskipti Philips Green og Íslendinga endurvakin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Greta Björg Úlfsdóttir
Greta Björg Úlfsdóttir

...hvað er bak við yztu sjónarrönd?

gretaulfs@gmail.com 

                                                                                                                                                           Injustice anywhere is a threat to justice everywhere. We are caught in an inescapable network of mutuality, tied in a single garment of destiny. Whatever affects one directly, affects all indirectly.

~ Martin Luther King, Jr.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.