Leita í fréttum mbl.is

Að leggja líkn við þraut

the good samaritan-1Það hefði verið meiri sómi að því að einhver prestur hefði litið inn til gömlu konunnar sem dó ein í Hátúninu, heldur en að prestastéttin sé að vasast inni á skólum og leikskólum landsins. Þeir eiga að láta okkar vel menntuðu (en illa launuðu) kennarastétt um kennsluna og snúa sér að málum þar sem þörfin er brýn, samanber það að manneskja geti legið dáin í viku án þess að hugað sé að henni.

Svo veit ég auðvitað ekki í því ákveðna tilviki, hvort prestsheimsókn hefði verið vel þegin, kannski hataði gamla konan presta? Það er nefnilega ekki samasemmerki á milli þess að vera gamall og trúaður, eins og sumir virðast álíta. En það er hægt að veita kærleiksþjónustu, án þess að boða trú, það er til dæmis gert á sjúkrahúsum landsins, um það get ég fullyrt af eigin raun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

En kannski þola ungir þjóðkirkjuprestar ekki lykt af hrörnandi gamalmennum, aðeins þá af nýböðuðum og vel skeindum smábörnum?

Greta Björg Úlfsdóttir, 12.12.2007 kl. 13:05

2 Smámynd: Ragnheiður

jahh...gömul kona nei, mér skilst að hún hafi verið í kringum fimmtugt. Hún átti alveg fjölskyldu en það er ekki hægt að segja að neitt sé samt óeðlilegt. Fólk hefur kannski verið búið að hringja og enginn svarað, kannski haldið að hún hafi skroppið frá.....svo líður sá dagur og næsti...enn er hringt og enginn ansar. Kannski byrjað að hringja á 2-3 degi....svo er komið við og bankað.....farið heim og hringt sífellt oftar.....og það getur alveg tekið viku áður en fólk er fullvisst um að eitthvað sé bogið við þetta.

Ragnheiður , 12.12.2007 kl. 21:34

3 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Nú, ég hef víst eitthvað misskilið fréttina. En einhver ástæða hlýtur að vera fyrir því að konan bjó í öryrkjaíbúð? Þó svo að fjölskyldan hafi ekki haft samband í einhvern tíma, þá hlýtur að vera hægt að ætlast til að einhvern hafi farið að gruna að ekki væri allt með felldu eftir svona 2-3 daga án þess að nokkur hreyfing sæist eða heyrðist? Væri ekki líka ráð að það væri eitthvert öryggiskerfi, alveg sérstaklega, hjá íbúa í svona íbúð?

Ég veit um tvö dæmi um fólk sem bjó ekki í öryrkjaíbúð var látið eða slasað, í öðru tilvikinu liðu 2 dagar (Securitas-öryggisgæsla), hinu 3 dagar (ættingjar). 

Eins og þú bentir á í þínu bloggi, þá ætti fólk að líta á það sem samfélagslega skyldu sína að hafa auga með hvort allt er í lagi hjá nágrönnunum, í það minnsta ef þeir kannast við þá í sjón (!) (Nóg er víst um að fylgst sé með þeim í öðrum tilgangi). Þó svo að hjálpsamur nágranni hafi tekið feil um daginn þegar hann bað um lögreglu til nágrannakonau, því það heyrðust mikil vein úr íbúð hennar - kom á daginn að hún hafði leigt sér spólu!

Auðvitað eru alltaf til einstaklingar sem búa einir og hafa lítið samneyti við aðra, eins og var tilvikið í þessu fyrra tilfelli sem ég veit um. Guð má vita hvenær sú manneskja hefði fundist ef hún hefði ekki verið með Securitas-öryggisgæslu. En að ekki sé haft betra eftirlit með fólki sem býr í öryrkjaíbúðum af hálfu rekstraraðila finnst mér til háborinnar skammar, sama hvað allri manneklu líður. 

Ég veit alveg að prestar koma ekki í veg fyrir að svona lagað gerist, þannig séð. Mig langaði bara með þessum samanburði að skerpa á þeirri skoðun minni að ég tel presta og annað starfsfólk kirkjunnar fyllilega geta treyst kennurum fyrir kennslu grunnskólabarna og álít að þeir eigi ekki að blanda sér í hana. Heldur ættu þeir að einbeita sér frekar að þeim samfélagsmálum þar sem skorturinn er meiri, bæði á mannafla og úrræðum til úrbóta.

Í framhaldi af þessu langar mig líka til að segja að mér finnst fáránlegt að verja stórfé til menntunar kennara, nú á meira að segja að fara að krefjast masters-gráðu til kennslu, en borga þeim síðan ekki ásættanleg laun, og þau lægstu á Norðurlöndum. Hvernig á slíkt að ganga upp? Íslenskir kennarar eru með flestar kennslustundir miðað við Norðurlönd (BNA eru með fleiri) og lægstu launin. Finnar fæstar, og held ég best menntuðu kennarana. Hver skyldi vera ástæðan fyrir versnandi árangri barn í námi í gunnskólum landsins??? Gæti það verið stressaðir kennarar undir of miklu álagi, í vinnu sem utan? Hvernig væri að borga fólki sem búið er að mennta af fé skattgreiðenda þau laun sem þarf til að þeir tolli í starfi, en neyðist ekki til að leita annað til að geta framleytt sér og sínum á sómasamlegan hátt?

Greta Björg Úlfsdóttir, 12.12.2007 kl. 22:30

4 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Þakka þér fyrir innlitið, vinkona

Greta Björg Úlfsdóttir, 12.12.2007 kl. 22:34

5 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Gleymdi að taka það fram í aths. 3 að ég nefni Finna til sögu vegna þess að samkvæmt PISA-könnuninni hefur verið sýnt fram á besta námsárángurinn hjá þeim á öllum Norðurlöndum.

Greta Björg Úlfsdóttir, 13.12.2007 kl. 12:39

6 Smámynd: Ragnheiður

Af fenginni reynslu með veikan ættingja þá man ég að það tók nokkurn tíma áður en upp komst að ekki var allt með felldu. Að vísu ekki viku en samt 2-4 daga. Fólk hringir og enginn ansar...fólk heldur áfram að hringja og hringir svo í aðra ættingja og spyr ; hefurðu heyrt í henni Gunnu ? ,,nei " segir hinn ættinginn. ,, Hefur hún ekki bara skroppið eitthvað ?" Var hún ekki að tala um að heimsækja hinn eða þennan ?

Amma mín lá 2-3 svona heima áður en hún fékkst til að afhenda lykil að íbúðinni sinni.

Sammála þér með kennarana...það er ekki til neins að gera sífellt meiri kröfur til menntunar þeirra og tíma svo ekki að borga þeim laun !! Fíflagangur bara !!

Ragnheiður , 13.12.2007 kl. 17:01

7 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Kæra Greta. Ég er hissa á þessum pistli. Finnst hann verulega ósmekklegur - og ummæli þín í fyrstu athugasemdinni. Og hver treystir ekki kennurum fyrir kennslu?

Svavar Alfreð Jónsson, 14.12.2007 kl. 08:15

8 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Sæll Svavar,

Já, - ég veit að að þetta er glannalega fram sett og að ég veg þarna óvægilega og að mörgu leyti ómaklega að prestastéttinni. En, í ljósi umræðna síðustu daga (þar sem ég hafði ekki gert mér fulla grein fyrir hversu víðtækt starf kirkjunnar inni á sviði skólanna er orðið frá því ég, og synir mínir, vorum börn) finnst mér að áherslur kirkjunnar mættu breytast, forgangsröðunin ætti að vera önnur, eins og kemur fram í málsgreininni sem ég ætla að endurtaka hér á eftir úr fyrri athugasemd:

"Ég veit alveg að prestar koma ekki í veg fyrir að svona lagað gerist, þannig séð. Mig langaði bara með þessum samanburði að skerpa á þeirri skoðun minni að ég tel presta og annað starfsfólk kirkjunnar fyllilega geta treyst kennurum fyrir kennslu grunnskólabarna og álít að þeir eigi ekki að blanda sér í hana. Heldur ættu þeir að einbeita sér frekar að þeim samfélagsmálum þar sem skorturinn er meiri, bæði á mannafla og úrræðum til úrbóta."

Nú er vitað að mönnun skólanna hvað varðar kennarastöður hefur verið þokkaleg í vetur, það tókst að manna flestar, ef ekki allar, stöður s.l. haust.

Þessu láni er langt í frá að heilsa innan heilbrigðisgeirans, eins og fréttir berast alltaf af öðru hvoru í fjölmiðlum. Þess vegna finnst mér að kirkjan ætti að skoða betur hvort hún gæti ekki að einhverju leyti komið meira inn þar en hún gerir í dag. Það eru mörg svið á heilbrigðissviði þar sem vel menntað fólk, ekki síst á sviði sálgæslu, gæti lagt gjörva hönd á plóginn, þó ekki væri nema við uppbyggingu og skipulagningu starfsemi er stuðlaði að andlegu heilbrigði og auknum lífsgæðum hvað varðar félagslegar þarfir.

Ég vil geta þess að sjálf starfa ég við sjálfboðaliðsstarf á vegum kirkjunnar á öldrunarsviði. Auk þess er ég fyrrverandi heilbrigðisstarfsmaður, starfaði að mestu leyti á öldrunarsviði, auk þess sem ég hef starfað við geðhjúkrun og hjúkrun sjúklinga með sjúkdóma er stafa frá taugakerfi. (Sennilega er misskilningur minn í byrjun færslunnar til kominn vegna þessarar starfsreynslu minnar).

Varðandi það að treysta kennurum fyrir kennslu þá vil ég benda þér á ummæli Jónu Hrannar Bolladóttur í Kastljósþætti RÚV, þar sem mér virtist hún álíta það fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt að prestar færu inn í skólastofnanir og aðstoðuðu kennara, með full réttindi á sínu sviði, við kennslu á kristnu fræðum. Þessi skoðun hennar fer í bága við mína skoðun í þessu máli, þar sem mér finnst að kennsla og starf í ríkisreknu grunnskólunum eigi alfarið að vera í höndum kennara, nema í því tilviki að komi til kasta prestanna sem sálusorgara, sem Jóna Hrönn vék reyndar einnig að í viðtalinu, en þessi umræða snýst ekki um þann hluta af starfi presta, heldur fræðsluna. Og því miður gera prestar sig oft seka um það í umræðunni að greina ekki á milli þessara tveggja þátta starfs síns er þeir ræða um það.

Ég geri mér reyndar enn betur grein fyrir því, eftir að hafa skrifað þetta orð "sálusorgari" hér, að þetta er það sem ég vil leggja áherslu á með þessum pistli mínum hér að framan. Mér finnst að kirkjan mætti leggja meiri áherslu á þennan hluta köllunar sinnar, það er sálusorgun við sjúka og sorgmædda, unga sem gamla. Að minnsta kosti ætti áherslan á boðun að liggja utan ríkisrekinna fræðslustofnana, úti á meðal almennings, ekki í skólastofum. En auðvitað er mjög erfitt að ætla sér að halda slíku fram á meðan þjóðkirkjan er vernduð og studd af stjórnarskrá. 

Ég minni þig á að þjóðkirkjan er evangelísk og að í orðinu felst að hún á að vera þetta þrennt - biðjandi, boðandi, þjónandi - og að það hlýtur að verða að vera til stöðugrar endurskoðunar á hverjum tíma á hvern þáttanna eigi að leggja áherslu og einnig hvort verið sé að leggja þá áherslu á einn þeirra á kostnað annars. 

Greta Björg Úlfsdóttir, 14.12.2007 kl. 11:35

9 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

* Nútímalegra orð yfir sálusorgun mun vera sálgæsla.

Greta Björg Úlfsdóttir, 14.12.2007 kl. 16:59

10 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Frábær skrif hjá þér Gréta, er nokkuð sammála þér.

Kennarar að mínu mati eiga að kenna allt sem kennt er í skólum landsins.

Eins og ég hef úttalað mig um áður, þá á fólk sem býr í svona íbúðum að vera

undir eftirliti upp á hvern einasta dag. Ég sagði um daginn,

að móðir mín sem bjó á Lindargötunni í eldri borgara íbúð, hefði fengið innlit

á hverju kvöldi frá securitas, og ef hún kom ekki í mat þá var komið

að athuga með hvort ekki allt væri í lagi.

Síðan var hún með öryggishnapp um hálsinn og við rúmið sitt

sem hún gat stutt á ef eitthvað var að. Auðvitað þarf þetta að vera svona,

til öryggis fyrir alla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 14.12.2007 kl. 20:55

11 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Guðrún, þakka þér fyrir þín hlýju orð.

Ég fékk svolítinn eftirþanka við seinustu athugasemd mína, því þó að stöður séu ágætlega mannaðar í efri stigum grunnskólans, þá á leikskólastigið auðvitað við stöðugan vanda að stríða vegna manneklu.

Ég sé samt sem áður ekki prestana leysa af hendi þau störf sem leikskólakennarar sinna í daglegu starfi, - t.d. að skipuleggja og fylgja fram stundaskrá barnanna og sinna sambandinu við foreldra þeirra, ásamt mýmörgu mörgu öðru sem kemur í hlut þeirra.

Þaðan af síður sé ég ungu þjóðprestana taka að sér ýmis þau störf sem lærðir jafnt sem leikir sinna jöfnum höndum á leikskólunum - sem er í fullu samræmi við þá athugasemd mína,  #1, sem fór svo fyrir brjóstið á sóknarpresti Akureyrarkirkju. 

Þetta er skoðun mín, þó svo að ég efist ekki um að ungir þjóðkirkjuprestar séu alveg jafn föður- eða móðurlegir við að skeina smábörn og hverjir aðrir, þegar kemur að þeirra eigin afkvæmum. 

Greta Björg Úlfsdóttir, 14.12.2007 kl. 21:39

12 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ég vil benda lesendum þessarar færslu á að lesa ágætan aðventupistil sr. Svavars, þar sem hann fjallar um jól í anda kristilegs siðgæðis: Kristilegt plastsiðgæði

Greta Björg Úlfsdóttir, 14.12.2007 kl. 23:29

13 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ég vil taka það fram að eftirfarandi athugsemd mína á bloggi prestsins meinti ég í hjartans einlægni, enda tel ég að það hafi komið fullkomlega fram að ég efast ekki um að þjóðkirkjan sinni starfi sínu vel, þó ég hafi leyft mér að efast um og láta í ljós (allhvassa - kannski ósmekklega) gagnrýni á áherslur hennar í því starfi.

"Gott var að geta í leiðinni styrkt Hjálparstarf kirkjunnar, sem svo sannarlega lætur gott af sér leiða. Ég veit að kirkjunnar fólk vinnur gott starf og leggur jafnvel hönd á plóg þegar aðrir bregðast, þess veit ég dæmi."

Dæmin sem ég veit um eru ekki af fræðslustarfi kirkjunnar innan veggja skólanna, heldur eru þau einmitt af slíkri þjónustu meðal þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu, sem ég vildi sjá meira af frá henni.

Greta Björg Úlfsdóttir, 14.12.2007 kl. 23:41

14 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Persónulega finnst mér það verulega ósmekklegt að í 300.000 manna samfélagi, sem álítur sjálft sig bæði það ríkasta og hamingjusamasta í heimi, hrósar sjálfu sér sí og æ af dugnaði og náungakærleika, telur sig byggja á kristnum gildum og að kristið siðgæði ríki almennt, geti einstaklingur dáið Drottni sínum einn og yfirgefinn, í íbúð sem rekin er á vegum hjálparsamtaka, og að hans sé ekki vitjað í heila viku á eftir.

Það er ef til vill verulega ósmekklegt að fjalla um slíkt efni í samhengi við kristilegt siðgæði, gildi og áherslur í kirkju og þjóðfélagi, en það verður þá svo að vera. Ég tek ekki aftur það sem ég hef sagt hér. Ég tel það verulega slæman sið að lygna aftur augum og berja sér á brjóst þegar kemur að neyð náungans.

Ég bendi líka á að fólk lítur gjarnan niður á störf sem lúta að því að  sinna persónulegu hreinlæti fólks. Heyrt hefur maður það kallað að vinna við að skeina. Sem má til sanns vegar færa að vissu leyti, þó að í slíkum störfum felist annað og miklu, miklu meira. Enda eru það slík þjónustustörf sem eru þau lægst launuðu í þjóðfélaginu. Það starfsfólk, sem slíkum störfum sinnir, liggur ekki á hnjánum á bæn, í það minnsta ekki í vinnutímanum, þó sumt af því fari iðulega með bæn í huganum. Þessir starfsmenn á akrinum boða heldur ekki trú, að öðru leyti en með kærleiksríkri, þjónandi framgöngu sinni, því Guð er kærleikur.

Greta Björg Úlfsdóttir, 15.12.2007 kl. 10:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Greta Björg Úlfsdóttir
Greta Björg Úlfsdóttir

...hvað er bak við yztu sjónarrönd?

gretaulfs@gmail.com 

                                                                                                                                                           Injustice anywhere is a threat to justice everywhere. We are caught in an inescapable network of mutuality, tied in a single garment of destiny. Whatever affects one directly, affects all indirectly.

~ Martin Luther King, Jr.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.